Hvunndagshetjur Suðurlandsskjálfta

Íslenska þjóðin fylgdist skelkuð með þegar skjálfti reið yfir Suðurland seinni part dags í gær. Enn sem komið er virðast engin alvarleg slys hafa orðið á fólki og að því leyti hafa sunnlendingar sloppið vel undan skjálftanum. Nokkur tími mun líða áður en fullt mat næst á því eignatjóni sem varð en það hefur líklegast verið gríðarlegt.

Íslenska þjóðin fylgdist skelkuð með þegar skjálfi reið yfir Suðurland seinni part dags í gær. Enn sem komið er virðast engin alvarleg slys hafa orðið á fólki og að því leyti hafa sunnlendingar sloppið vel undan skjálftanum. Nokkur tími mun líða áður en fullt mat næst á því eignatjóni sem varð en það hefur líklegast verið gríðarlegt.

Skjálftinn mældist 6,1 á Richter og fellur þannig undir skilgreiningu Veðurstofunnar á „Suðurlandsskjálfta“.

Náttúruhamfarir leiða óhjákvæmilega hugann að fyrirkomulagi björgunarmála á Íslandi. Hér er enginn her sem í öðrum löndum er lykilþátttakandi í öllum meiri háttar björgunaraðgerðum.

Á Íslandi eru það Almannavarnir sem stjórna og samræma aðgerðir á milli lögreglu, sjúkraliðs, slökkviliðs og íslensku útgáfunni af fótgönguliða, sem eru björgunarsveitirnar.

Í gær voru 300 björgunarsveitamenn á vegum slysavarnarfélagsins Landsbjargar að störfum á jarðskjálftasvæðinu í Árnessýslu. Settar voru upp vettvangsstjórnstöðvar auk þess sem björgunarsveitamenn gengu hús úr húsi til þess að gæta að því að enginn sæti fastur bjargarlaus í húsi sínu.

Það hefur sýnt sig, ekki bara núna á Suðurlandi, heldur einnig í fyrri hamförum á Íslandi að mikilvægustu hjálparaðgerðirnar eru framkvæmdar af heimamönnum á fyrstu augnablikum eftir hamfarir. Heimamenn eru fyrstir á vettvang, þekkja aðstæður best og þekkja fólkið.

Þetta undirstrikar aftur hversu mikilvægt starf er unnið af hendi af þeim sem gefa stóran hluta frítíma síns í þátttöku í starfi hjálparsveitanna um land allt. Það er gott að vita til þess að til dæmis hjá Slysavarnarfélaginu Landsbjörg eru 18 þúsund sjálfboðaliðar til reiðu þegar á þarf að halda.

Það er ómetanlegt starf sem unnið er af björgunarsveitum um allt land við forvarnir slysa og viðbrögð við slysum og njóta allir landsmenn góðs af. Slíkt starf er dýrt og er fólk hvatt til þess að styrkja björgunarsveitirnar, til dæmis með því að versla flugelda hjá þeim fyrir áramótin.

Deiglan sendir sunnlendingum baráttukveðjur á erfiðum tímum og færir um leið hjálparsveitunum miklar þakkir fyrir fórnfúst starf fyrir alla íslendinga.

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.