Vangaveltur um forsetaembættið

Sjálfkjörið verður í embætti forseta Íslands til næstu fjögurra ára þar sem sitjandi forseti var einn í framboði – enn einu sinni. Þetta vekur óneitanlega upp áleitnar spurningar um umboð forsetans, heimild hans til valdtöku og leiðir til breytinga.

Þrátt fyrir að forseti Íslands sé kosinn í beinum almennum kosningum og að yfirleitt ríki almenn sátt með störf forseta hverju sinni, þá er flest sem bendir til þess að umboð hans sé veikt. Til dæmis eru forsetakosningar ekki keppni milli stjórnmálaflokka, og helstu frambjóðendurnir forðast eldfim umræðuefni í aðdraganda kosninga. Lykilatriði í þessu samhengi er þó að afar sjaldgæft er að boðið sé fram gegn sitjandi forseta, og engin krafa er gerð um lágmarkskjörhlutfall í forsetakosningum.

Í stjórnarskránni er kveðið á um að sá sem hlýtur flest atkvæði sigri í kosningum til forseta. Reglan getur hæglega leitt til þeirrar niðurstöðu að sá sem nær kjöri hafi minnihluta þjóðarinnar á bak við sig og reynsla okkar af forsetakosningum rennir stoðum undir þá staðhæfingu; sigurvegari forsetakosninga á Íslandi hefur alltaf haft minnihluta heildaratkvæða á bak við sig þegar sitjandi forseti er ekki í framboði, fyrir utan kosningarnar árið 1968 þegar Kristján Eldjárn fékk hreinan meirihluta (þetta er líka í eina skiptið í sögu forsetakosninga á Íslandi þar sem aðeins tveir frambjóðendur sóttust eftir að setjast í lausan forsetastól).

Í ljósi þess að forseti fer ásamt Alþingi með löggjafarvaldið samkvæmt 2. gr. stjórnarskrár má deila um hvort þetta kosningafyrirkomulag sé æskilegt. Vegna þessarar reglu hafði annar handhafi löggjafarvalds hérlendis minnihluta þjóðarinnar á bak við sig á árunum 1952-1956, 1980-1984 og 1996-2000, eða þar til forsetarnir urðu nánast sjálfkjörnir þar sem aldrei hefur verið mikill þungi á bak við framboð gegn sitjandi forsetum.

Benda má á tvær leiðir til breytinga á þessu kerfi til að gefa embætti forsetans aukinn trúverðugleika og sterkara umboð. Önnur er sú franska, þar sem forsetakjör fer fram í tveimur umferðum og í þeirri seinni er kosið milli tveggja efstu manna eftir fyrri umferð. Stjórnarskrárnefnd Alþingis veturinn 1943-1944 athugaði þetta rækilega en niðurstaða hennar var sú regla sem nú gildir. Var tillaga um þá reglu flutt í trausti þess að þjóðinni tækist að fylkja sér þannig um forsetaefni að atkvæði dreifðust ekki úr hófi fram, eins og segir í áliti nefndarinnar.

Írska aðferðin við að velja forseta er ólík því sem tíðkast í Frakkland og á Íslandi en aðstæður írska forsetaembættisins eru um margt líkar því íslenska. Til að mynda er það valdalítið og því fannst Írum ekki nauðsynlegt að kjósa forseta í tveimur umferðum, þrátt fyrir að þeir vildu að forseti sæti með meirihluta atkvæða á bak við sig.

Aðferðin sem Írar tóku upp kallast forgangsraðað atkvæði (e. single transferable vote). Í þeirri aðferð felst að kjósendum er heimilt að raða frambjóðendum í forgangsröð. Ef enginn fær hreinan meirihluta atkvæða í fyrsta sæti við talningu eru atkvæði þess frambjóðenda sem fæst atkvæði fékk tekin og þeim dreift á aðra frambjóðendur eftir því hver var í öðru sæti á þeim kjörseðlum. Ef enginn nær meirihluta með því er haldið áfram á sama hátt þar til einn frambjóðenda hefur hlotið meirihluta atkvæða. Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði, hefur lagt til að kannað verði hvort kerfi á borð við það írska sé raunhæfur möguleiki við forsetakosningar á Íslandi.

Þrátt fyrir að það sé ýmislegt í núgildandi löggjöf um kjör forseta Íslands og stöðu hans í stjórnskipaninni sem þarfnast nánari athugunar þá er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að beinar og almennar kosningar til embættisins veita forsetanum ekki sjálfkrafa rýmri heimild til valdtöku. Til að mynda gerir stjórnarskrá Íslands ráð fyrir að handhafar forsetavalds geti farið með öll þau sömu störf og forsetinn í fjarveru hans þrátt fyrir að ekki sé kosið sérstaklega í þau embætti. Þó er enginn greinarmunur gerður á völdum þeirra og forsetans sjálfs, og því má ekki tengja umræðuna um sterkt eða veikt umboð sitjandi forseta, um of við þau raunverulegu og stjórnarskrárbundnu völd sem í embættinu felast.

Umboð forseta Íslands er veikt, en ýmsar greinar stjórnarskrárinnar gefa forseta með frjálslegri túlkun talsvert rúma lagalega heimild til valdtöku, auk þess sem hann er kosinn í beinum almennum kosningum. Þetta tvennt gæti samkvæmt ákvæðum stjórnarskrárinnar og undir réttum kringumstæðum, stuðlað að breytingum á forsetaembættinu og hlutverki þess. Það krefst þess þó að forsetinn taki virkari þátt í stjórnmálaumræðunni, en breytingin ylti á endanum á því hvort hann teldi hlutleysi sitt þess virði að fórna því. Ef hann kæmist í embættið undir merkjum einhvers ákveðins stjórnmálaflokks væru breytingarnar meira áberandi.

Eina raunverulega tilraunin til að koma frambjóðanda stjórnmálaflokks á Bessastaði leiddi til sigurs andstæðingsins (árið 1952 tapaði séra Bjarni Jónsson fyrir Ásgeiri Ásgeirssyni), og ekki er líklegt að slíkar tilraunir muni hljóta hljómgrunn á Íslandi í náinni framtíð – eða hvað?

Latest posts by Þorgeir Arnar Jónsson (see all)