Opinberir sérfræðingar munu bjarga ykkur

Sú hugsun að mannréttindum og vernd þeirra sé best sinnt með því að hafa nógu marga sérfræðinga á launum hjá Reykjavíkurborg virðist drífa áfram stóryrt mótmæli minnihluta borgarstjórnar í deilu sem sýnir vel hve rík tilhneiging er til að þenja út stjórn- og sérfræðingakerfi borgarinnar.

Sóley Tómasdóttir, borgarfulltrúi VG, og félagar hennar í minnihlutanum í borginni eru ósátt þessa dagana. Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri, og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eiga sökina á því þar sem þau felldu niður fjárveitingu sem áður hafði verið samþykkt til þess að stofna sérstaka mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.

Þetta telja Sóley og minnihlutinn til marks um að Ólafur sé fordómafullur í garð minnihlutahópa og í þokkabót skilningslaus. Ákvörðun Ólafs ber auðvitað ekkert slíkt í för með sér. Hún á þvert á móti fullan rétt á sér og er í raun mikilvæg, enda er löngu orðið tímabært að borgarstjórn láti af þeim vana að styrkja hvert einasta verkefni og hverja stækkun og útþenslu sem stungið er upp á. Eins er kominn tími til að hvíla örlítið þá röksemdafærslu að stjórnmálamenn sem tali fyrir sparnaði í tilteknum málaflokki séu í reynd andstæðingar viðkomandi málefnis. Þetta mætti umorða sem svo að ef einhver vilji ekki eyða almannafé í ákveðinn málaflokk, geti hann ekki með nokkru móti verið annað en á móti málaflokknum og þeirri grundvallarhugsun sem hann byggir á.

Þegar litið er yfir stjórnkerfi borgarinnar er erfitt að verjast þeirri tilhugsun að embættismennirnir og kjörnu fulltrúarnir lifi í eins konar „parallel universe“ sem hinn almenni borgari er í sáralitlum tengslum við og er fyrir löngu orðinn svo flókinn og sérhæfður að hann er fullkomlega óskiljanlegur fyrir aðra en þá sem hafa margfalda meistaragráðu í stjórnsýslu- og stjórnkerfisfræðum.

Hugmyndir um mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar er gott dæmi um hvernig hið opinbera kerfi er að verða sjálfbært. Einhvers staðar vaknaði sú hugmynd að það væri algerlega ótækt fyrir Reykjavíkurborg að vera ekki með sérstaka skrifstofu um málið. Við þessu yrði að bregðast, veita í þetta töluverðum fjármunum og mannafla. Allt á grundvelli þess að annars væri Reykjavíkurborg ekki að standa sig í mannréttindamálum, annars væri borgin í raun á móti mannréttindum. Eins og vanalega þegar þjóðþrifahugmyndir á borð við þessa vakna, hefur trúlega farið minna fyrir umræðum um tilganginn og nauðsyn þess að setja starfsemina yfirhöfuð á laggirnar, en meira fyrir stórhuga útfærslum og uppblásnum væntingum um þau vatnaskil sem tilkoma þessarar nefndar myndi hafa í för með sér. Líklegast hefur einhver spurt sig hvernig í ósköpunum hið íslenska samfélag hafi komist af fram til þessa – án þess að Reykjavíkurborg væri með sérstaka mannréttindaskrifstofu!

Staðreyndin er hins vegar sú að staða mannréttindamála breyttist ekkert sérstaklega við það að Reykjavíkurborg fór að velta þeim málum fyrir sér. Enda má spyrja hvort það sé hlutverk sveitarfélaga að veita peningum til mannréttindamála, rétt eins og þau veita fé til bygginga á leikskólum eða íþróttahúsum. Væri ekki nær fyrir sveitastjórnir að gæta þess að brjóta ekki mannréttindi á kjósendum sínum? Það er í sjálfu sér ærið verkefni, enda fjölmörg lagaákvæði og reglur sem huga þarf að þegar ákvarðanir eru teknar og reglur mótaðar. Eins má færa rök fyrir því að tilvist öflugra mannréttindasamtaka, sterk mannréttindavernd stjórnarskrárinnar, skilvirkt dómskerfi, öflugar stofnanir á vegum ríkisins og margt fleira feli í sér alveg talsverða mannréttindavernd fyrir þegnana. Ef einhverjum finnst þetta ekki nægja, má kannski einnig benda á að hjá Reykjavíkurborg er stórt lögfræðisvið, innan borgarinnar hefur verið starfandi sérstök mannréttindanefnd og í þokkabót vinna níu mannréttindafulltrúar á hinum ýmsu sviðum borgarinnar. Einhvers staðar þætti það ágætlega vel í lagt.

Svo má ekki gleyma því að Reykvíkingar, líkt og aðrir, hafa tök á að styrkja þau frjálsu félagasamtök sem beita sér fyrir mannréttindavernd. Augljós rök standa til þess að frjáls félagasamtök séu í fararbroddi í mannréttindastarfi, frekar en stjórnvöld. Flest mannréttindaákvæði veita borgurunum nefnilega vernd gagnvart stjórnvöldum en ekki öfugt.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.