Kynþættir og kosningar

Forsetaslagur Obama og McCain verður nú æ líklegri, þrátt fyrir sigur Clinton í Pennsylvaníu í liðinni viku. Fari svo, er ljóst að kynþættir frambjóðenda verða hluti af kosningabaráttunni, og óhjákvæmilegt fyrir frambjóðendur sem og spámenn að taka það með í reikninginn. Undanfarnar forkosningar gefa ákveðnar vísbendingar um hvaða áhrif það mun hafa.

Forsetaslagur Obama og McCain verður nú æ líklegri, þrátt fyrir sigur Clinton í Pennsylvaníu í liðinni viku. Fari svo, er ljóst að kynþættir frambjóðenda verða hluti af kosningabaráttunni, og óhjákvæmilegt fyrir frambjóðendur sem og spámenn að taka það með í reikninginn. Undanfarnar forkosningar gefa ákveðnar vísbendingar um hvaða áhrif það mun hafa.

Skemmst er að minnast þess þegar Obama lenti í vandræðum í kjölfar birtingar á stólræðum Jeremiah Wright, sem hefur verið prestur Obama til margra ára. Ræður Wright gagnrýndu Bandaríkin á óvægin hátt og óskaði hann þess meðal annars að Drottinn fordæmdi Bandaríkin fyrir framferði þeirra í mannréttindamálum. Obama hélt í kjölfarið ræðu þar sem hann tók fyrir samskipti kynþáttanna og kynþáttafordóma í Bandaríkjunum á óvenjulega opinskáan hátt. Ræðan var óvenjulega hreinskilin, olli miklum umræðum, og þótti vera einstaklega gott útspil í kjölfar vandræðanna sem Wright orsakaði.

En það var stutt í að Obama lenti í flækju á ný, því í byrjun apríl talaði hann á fjáröflunarsamkomu um hversu erfitt væri að stunda kosningabaráttu í Pennsylvaníu, þar sem (hvítu) dreifbýlingarnir í fylkinu væru svo bitrir út í stjórnvöld að þeir héldu tangarhaldi í byssur, trúarbrögð og fordóma gagnvart innflytjendum og öðrum sem væru öðru vísi en þeir sjálfir.

Enn eitt dæmið um hvernig kynþættir blandast inn í kosningarnar eru eftirfarandi ummæli Bill Clinton um Obama nú nýverið: „Jesse Jackson vann tvisvar í Suður-Karólínu, 1984 og 1988, og hann háði góða kosningabaráttu, og Barrack Obama hefur háð góða kosningabaráttu. Hann er með góða – Hann er góður frambjóðandi með gott kosningaskipulag“. Ummælin hljóta að teljast afskaplega sakleysisleg í eyrum leikmanna. En fyrir þeim sem þekkja bandaríska kynþáttapólitík er þetta augljós þáttur í því að gera Obama að „svörtum“ frambjóðanda.

En það eru ekki bara dæmisögur sem benda til þess að kynþættir séu stór þáttur í kosningabaráttunni. Tölfræðin gefur líka sterkar vísbendingar. Á myndinni hér að ofan sést hvernig Obama hefur vegnað í kosningabaráttunni eftir því hversu hátt hlutfall blökkumanna er í fylkinu (hægt er að stækka myndina með því að smella á hana). Á myndinni sést að þær forkosningar þar sem Obama hefur gengið hvað verst eru í fylkjum þar sem hlutfall blökkumanna er hærra en 6% en lægra en 17%. Pennsylvanía (þar sem Obama tapaði), eru ekki á myndinni, en þar er hlutfallið 11%.

Nánari athugun á þeim tölum sem liggja að baki þessu grafi leiðir í ljós að þar sem hlutfall blökkumanna er lágt nýtur Obama mikils stuðnings hvítra kjósenda. Eftir því sem blökkumenn eru fleiri í fylkinu minnkar stuðningur hvítra, en þegar hlutfall blökkumanna er komið upp í 17% skipta atkvæði þeirra svo miklu máli að heildaratkvæðafjöldinn er aftur orðinn honum hagfelldur.

Löng saga togstreitu á milli kynþátta í Bandaríkjunum veldur því að undirtónar yfirlýsinga á borð við þá sem Bill Clinton hafði í frammi skipta miklu máli. Þó er það svo að í fylkjum þar sem einvörðungu búa hvítir kjósendur er þessi andi minna ríkjandi. Í komandi kosningabaráttu mun skipta öllu máli fyrir Obama að ná að höfða til þjóðarinnar heild sem „bara“ frambjóðandi – án kynþáttaforskeytis.


Tölfræði og graf eru úr pistli David Sirota á vefritinu „In These Times“

Latest posts by Magnús Þór Torfason (see all)