Hjólin komin á götuna

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að um þessar mundir streyma mótorhjólin í miklu magni út í umferðina. Með vorinu koma ný og uppgerð hjól af öllum gerðum úr bílskúrum landsmanna og því tímabært að velta fyrir sér umferðaröryggi og rétti farartækja í umferðinni.

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að um þessar mundir streyma mótorhjólin í miklu magni út í umferðina. Með vorinu koma ný og uppgerð hjól af öllum gerðum úr bílskúrum landsmanna og því tímabært að velta fyrir sér umferðaröryggi og rétti farartækja í umferðinni.

Ég þekki sjálf tilfinninguna að taka fyrsta hjólarúnt sumarsins enda mikill mótorhjólaunnandi en hugsunin um slys eða annað óhapp í umferðinni er þó aldrei langt undan. Margir vinir og félagar hafa lent í slysum og því ekki óeðlilegt að hættan sé ofarlega í huga. Bifhjólafólk hefur gjarnan verið gagnrýnt fyrir ofsaakstur og leikaraskap í umferðinni. Sumir ökumenn skapa vissulega sýna eigin áhættu með hraðakstri eða annars konar glæfra akstri líkt og ökumenn annarra farartækja. Í flestum tilfellum eru ökumenn bifhjóla þó í takt við umferð og reglur á hverjum tíma og því ósanngjarnt að dæma heildina út frá nokkrum einstaklingum.

Við þekkjum öll hversu erfitt getur reynst að sjá hjólin í umferðinni vegna smæðar þeirra. Einnig sýnast bifhjól gjarnan fjær en raun ber vitni og það getur verið erfitt að átta sig á hraða þeirra. Það er þó stundum sagt að við sjáum bara það sem við leitum eftir. Í umferðinni erum við oft of upptekin að því að líta eftir öðrum bílum og gleymum að skimast eftir annars konar farartækjum.

Umferðarstofa gaf nýlega út fræðslumyndbönd þar sem meðal annars eru sýndar hættur bifhjólamanna í umferðinni og hvernig má komast hjá þeim. Myndböndin eru löngu tímabær og mjög fróðleg fyrir alla ökumenn. Þar kemur meðal annars fram að mikilvægt sé að bílstjórar taki tillit til þess að bifhjólamenn eru vaxandi hluti vegfaranda og þeir hafa sama rétt í umferðinni og aðrir.

Með nokkrum aðgerðum getur bílstjóri auðveldlega komið í veg fyrir algeng umferðarslys þar sem bifhjól og bifreið eiga í hlut. Með því að gá tvisvar áður en þú ferð af stað út á gatnamót er hægt að koma í veg fyrir að þú akir í veg fyrir annað farartæki, sérstaklega bifhjól. Gefðu stefnuljós tímanlega því það eru töluverðar líkur á því að þú sjáir ekki bifhjól fyrir hliðina á þér þó ökumaður þess sjái þig. Ef stefnuljósið er sett á í tæka tíð veit ökumaður bifhjólsins hvert þú stefnir og getur forðast hættur. Að lokum er mikilvægt að fara ekki í hlutverk sjálfskipaðrar lögreglu þó þú látir akstursmáta einhvers fara í taugarnar á þér, sama hvort hann er á bifhjóli eða bíl.

Ef við höfum þessi atriði að leiðarljósi í umferðinni getum við fækkað bifhjólaslysum til muna. Vonandi leiðir þetta átak Umferðarstofu til góðs og farsæls mótorhjólasumars.

Latest posts by Sæunn Björk Þorkelsdóttir (see all)