Tækifæri í gæðamálum

Það eru engin ný tíðindi að fjöldinn allur af fyrirtækjum á í erfiðleikum og sóknarfærin og von um bjarta framtíð sýnist oft fjarlægur raunveruleiki. Margir hafa séð fram á mikinn samdrátt í eftirspurn með tilheyrandi samdrátt í sölu, framleiðslu og umsvifum. Fyrirtækjum hefur vissulega tekist misvel að vinna sig í gegnum þessa erfiðleika og nýta ný tækifæri til eflingar og vaxtar.

Það eru engin ný tíðindi að fjöldinn allur af fyrirtækjum á í erfiðleikum og sóknarfærin og von um bjarta framtíð sýnist oft fjarlægur raunveruleiki. Margir hafa séð fram á mikinn samdrátt í eftirspurn með tilheyrandi samdrátt í sölu, framleiðslu og umsvifum. Fyrirtækjum hefur vissulega tekist misvel að vinna sig í gegnum þessa erfiðleika og nýta ný tækifæri til eflingar og vaxtar.

Þó svo að viðskiptin séu ekki eins blómleg og áður er ekki þar með sagt að framtíðin sé vonlaus. Ég hef alltaf haft mikla trú á málshættinum Hver er sinnar gæfu smiður og að hann megi jafnt yfirfæra á einstaklinga sem og fyrirtæki. Það er einmitt þegar niðursveifla er á markaði og erfiðleikar steðja að sem fyrirtæki ættu að nýta tímann í að efla innviði fyrirtæksins og auka sjálfbærni. Það er líklega aldrei eins mikilvægt og nú að byggja upp samkeppnisforskot með aðgerðum sem samkeppnisaðilar eiga erfitt með að líkja eftir.

Ein leið sem í boði er fyrir fyrirtæki er að huga að og bæta gæðamál. Það eru eflaust margir sem spyrja sig að því hvað felst í hugtakinu gæði. Er það hvernig við tryggjum heitt kaffi á könnunni fyrir starfsmenn eða hvernig við tryggjum það þjónustustig sem fyrirtækið hefur sett sér? Það fer vissulega eftir því hvernig hvert og eitt fyrirtæki lítur á og skilgreinir gæði. Gæðamál eru vissulega óáþreifanleg og gjarnan torskiljanleg hugmyndafræði sem getur reynst erfiðara að skipuleggja og framkvæma en margir myndu halda. Öll eigum við tiltölulega auðvelt með að segja hvaða árangri og markmiðum við viljum ná en það er leiðin að markmiðunum sem oftast er torfær.

Það er áhugavert að líta á bílaframleiðandann Toyota í þessum efnum. Toyota er líklega eitt það fyrirtæki sem hefur hvað lengst verið þekkt fyrir gæði og hátt þjónustustig. Fyrirtækið hefur verið mjög árangursríkt og átt mikilli velgengi að fagna síðustu áratugi. Hins vegar hefur efnahagsástand síðustu missera gengið hart að fyrirtækinu. Á heimsvísu hafði Toyota slakað á í gæðamálum árin á undan efnahagshruninu og minnkað athyglina gagnvart neytendum sem á endanum leiddi til umfangsmikilla innkallana á bifreiðum. Fyrirtækið hafði of lengi hunsað ummæli og gagnrýni markaðarins um galla og misbrest í framleiðslu og ekki brugðist rétt við til að grípa til aðgerða áður en voðinn varð vís.

Það hefur eflaust ekki farið framhjá neinum að Toyota á Íslandi hefur tekið þátt í slíkum innköllunum sem hefur skapað nokkra umræðu í samfélaginu. Fjárhagsstaðan hefur versnað og innflutningur á bifreiðum minnkað gríðarlega í samræmi við minnkandi sölu. Almenningur hefur hins vegar að sama skapi einnig orðið var við vilja Toyota til að betrumbæta gæðamál sín og koma fyrirtækinu aftur á þann gæðastall sem skapaði hvað mest verðmæti. Þó svo samdrátturinn hafi verið gríðarlegur hefur Toyota á heimsvísu reynt eftir fremsta megni að koma í veg fyrir uppsagnir og í staðinn nýtt vinnuaflið til að auka fókusinn á gæðamál og öryggi. Í mörgum verksmiðjum þar sem ekki var lengur not fyrir allt að 40% vinnafls voru starfsmenn sendir í endurmenntun um framleiðslukerfi Toyota til að greina og ráðast á vandamálin þar sem lausna var þörf. Þannig var þekking starfsmanna nýtt til umbóta fyrir fyrirtækið enda ekki ólíklegt að bestu lausnirnar komi frá fólkinu sem þekkir starfsemina hvað best.
Í dag hefur Toyota bersýnilega gripið til aðgerða í von um að ná fyrri frama. Lengdur ábyrgðartími í 5 ár, hærra þjónustustig fyrir notaða bíla og endurskilgreining öryggis eru einungis fá dæmi um tilraunir Toyota til sterkrar endurkomu eftir efnahagserfiðleika.

Þó svo Toyota gæti staðið frammi fyrir áframhaldandi erfiðleikum líkt og aðrir bílaframleiðendur á næstunni hefur fyrirtækið klárlega lagt línurnar um hvernig það telur sig best geta unnið á erfiðleikunum. Toyota ætlar ekki að bíða eftir því að samkeppnisaðilar vakni til lífsins og grípa þá til aðgerða heldur vera fyrstir til og tilbúnir í slaginn þegar markaðurinn tekur við sér. Það er ekki ólíklegt að samstaðan innan Toyota og viljinn og þátttaka starfsmanna að endurskipulagningu fyrirtækisins leiði til sterks samkeppnisforskots sem verður nær ómögulegt fyrir óundirbúna keppninauta að líkja eftir.

Íslensk fyrirtæki geta horft til Toyota og nýtt sér grundvallarhugmyndafræði í gæðum til uppbyggingar og styrkingar í núverandi niðursveiflu. Þátttaka starfsmanna og samstarf er vænlegast og leiðir af sér aukinn metnað og skilning á endurbótum. Að auka sjálfbærni fyrirtækis á þennan hátt getur aðeins styrkt stöðu þess á markaði og samkeppnisforskot þegar tími uppsveiflu birtist á ný.

Latest posts by Sæunn Björk Þorkelsdóttir (see all)