Lagalegu misrétti útrýmt

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var gert ráð fyrir að trúfélögum yrði veitt heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra á kjörtímabilinu, en undanfarin ár hafa ýmsir talsmenn Þjóðirkjunnar talað gegn því að trúfélög fái slíka heimild.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar frá árinu 2007 var gert ráð fyrir að á kjörtímabilinu yrði trúfélögum veitt heimild til að staðfesta samvist samkynhneigðra, en undanfarin ár hefur biskup Íslands Karl Sigurbjörnsson og fleiri talsmenn kirkjunnar talað gegn því að trúfélög fái slíka heimild. Umræðan hefur að mestu leiti snúist um vígslurétt trúfélaga og hins vegar skilgreiningu á hjónabandi þegar um tvo einstaklinga af sama kyni er að ræða. Þjóðkirkjan hefur lagt áherslu á þá skilgreiningu að hjónabandið sé sáttmáli konu og karls og því ekki gert ráð fyrir að samkynhneigðir geti gengið í hjónaband. Árið 2005 lauk nefnd um réttarstöðu samkynhneigðra á vegum forsætisráðherra störfum og voru tilmæli nefndarinnar til Þjóðkirkjunnar að hún breytti afstöðu sinni gagnvart hjónaböndum samkynhneigðra þannig að einstaklingar af sama kyni gætu fengið kirkjulega vígslu líkt og gagnkynhneigð pör.

Á kirkjuþingi í október síðastliðin dró til tíðinda í málefnum samkynhneigðra þar sem lögð var fram tillaga til þingsályktunar um að prestar yrðu vígslumenn staðfestrar samvistar, yrði það heimilt samkvæmt lögum, og var tillagan samþykkt með 27 af 29 atkvæðum. Þessi niðurstaða er jákvæð og forsvarsmönnum kirkjunnar til framdráttar því það er grundvallaratriði að Þjóðkirkja Íslendinga sé allra og að hún standi öllum einstaklingum opin sama hver kynhneigð þeirra kann að vera.

Síðastliðin miðvikudag lagði Geir H. Haarde, forsætisráðherra fram frumvarp um breytingu á lögum um staðfesta samvist. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að prestum og forstöðumönnum skráðra trúfélaga sem hafa vígsluheimild samkvæmt hjúskaparlögum verði heimilt að staðfesta samvist tveggja einstaklinga af sama kyni kjósi þeir það, en í dag eru það eingöngu sýslumenn og löglærðir fulltrúar þeirra sem hafa vígsluheimild og framkvæma staðfesta samvist samkynhneigðra.

Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að skrefið sé stigið til fulls, það er að samkynhneigðir einstaklingar hafi sama rétt fyrir lögunum og gagnkynhneigðir. Með samþykkt þessa frumvarps verðum við vonandi öðrum þjóðum til fyrirmyndar og eftirbreytni, en gert er ráð fyrir að lögin, nái þau fram að ganga, taki gildi á alþjóðlega mannrétttindabaráttudegi samkynhneigðra 27. júní næstkomandi.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar á heiður skilið fyrir að útrýma misrétti gagnvart samkynhneigðum í lögum og tryggja að mannréttindi samkynhneigðra séu til jafns á við gagnkynhneigðra.

Næsta skref væri svo hugsanlega að breyta hjúskaparlögum og skilgreiningu á hjónabandinu þannig að á Íslandi gildi einungis ein hjúskaparlög fyrir gagnkynhneigða sem og samkynhneigða. Við getum verið stolt af þeim árangri sem náðst hefur í mannréttindabaráttu samkynhneigðra á Íslandi og það er verulega ánægjulegt að stjórnvöld hér á landi velji að beita sér fyrir mannréttindum þegna sinni.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.