Goðaveldi Alþjóðasamfélagsins

Þegar ágreiningsmál á alþjóðavettvangi eru skoðuð kemur í ljós að þau eiga ýmislegt sameiginlegt við hvernig deilur á íslensku þjóðveldisöldinni voru leystar.

„Fögur er hlíðin svo að mér hefir hún aldrei jafnfögur sýnst, bleikir akrar en slegin tún, og mun eg ríða heim aftur og fara hvergi.“ Þessi frægu orð mælti Gunnar Hámundarson þegar honum var litið aftur til Fljótshlíðarinnar á leið sinni til skips og úr landi. Gunnar hafði þá nýlega verið dæmdur, eða öllu heldur hafði þá verið gerð dómsátt um að hann færi úr landi í þrjú ár en væri réttdræpur ella. Þegar hann hélt aftur heim að Hlíðarenda og hætti við utanferðina rauf hann dómsáttina. Hann braut lögin, var dæmdur en þá var bara spurningin hver skyldi framkvæma dóminn.

Á þjóðveldisöld var lítið sem ekkert ríkisvald á Íslandi. Út um allt land sátu 39 goðar, helstu höfðingjar landsins, í sínum goðorðum sem aðrir landsmenn urðu að tilheyra. Í minni deilum var hægt að leita til síns goða og reyna að fá úrlausn sinna mála og ef það dugði ekki voru fjórðungsdómar í hverjum landsfjórðungi. En grunnstofnun landsins var Alþingi. Á Alþingi voru lög sett og dæmt í stærri ágreiningsmálum. Bæði í Lögréttu, þar sem lög voru sett, og í Fimmtardómi, æðsta dómstólnum, sátu svo goðar. Þannig voru til staðar bæði löggjafar- og dómsvald, sem voru þó að miklu leyti í höndum goðanna. Ekkert miðlægt framkvæmdarvald var hins vegar til staðar og því var fullnustun dóma í höndum hvers og eins ásamt sínum goða. Það að fá dómi framfylgt var þess vegna háð því, auk þess að vera í rétti, að vera sjálfur nógu sterkur eða vera tengdur einhverjum nógu sterkum sem taldi sér skylt, hafði hagsmuni af eða sá réttlætið í að leggja lið sitt í að sækja réttinn. Í tilfelli Gunnars á Hlíðarenda var það Gissur hvíti sem safnaði saman í og leiddi bandalag viljugra goða sem á endanum fóru að Hlíðarenda þar sem Gunnar háði sinn síðasta bardaga og mætti örlögum sínum.

Að mörgu leyti er fyrirkomulag samskipta þjóða sambærilegt við íslenska goðaveldið. Æðsta stofnun alþjóðasamfélagsins eru Sameinuðu þjóðirnar (SÞ) sem skiptast í sex stofnanir með Allsherjarþingið fremst í flokki auk undirstofnana. Í Allsherjarþinginu er stefnan mótuð og gegnir því að mörgu leyti svipuðu hlutverki og Lögréttan í goðaveldinu. Dómsvald er svo til staðar í formi Alþjóðadómstólsins í Haag og að nokkru leyti í Öryggisráðinu, sem leysir úr aðkallandi úrlausnarefnum en þó á mjög pólitískum forsendum. En þegar kemur að raunverulegu framkvæmdarvaldi vandast málið. Ef ein þjóð eða ríkisstjórn brýtur á annarri og stofnanir SÞ úrskurða með einum eða öðrum hætti að um brot hafi verið að ræða er það í höndum þjóðanna og ríkisstjórnanna sjálfra að fullnusta þann úrskurð.

Þannig var það þegar átök blossuðu upp í Líbýu að Öryggisráðið taldi raunar að ríkisstjórn landsins hefði brotið og myndi brjóta enn frekar grimmilega gegn eigin þjóð. Leiðtogi Líbýu þekkti ekki, frekar en Gunnar, sinn vitjunartíma: “Ég mun ekki yfirgefa Líbýu fyrr en ég dey, eða til loka þess tíma sem Guð unir mér lífi.” Á grundvelli ályktunar Öryggisráðsins hafa Bandaríkjamenn og svo Atlantshafsbandalagið tekið að sér framkvæmdarvaldið og leitt aðgerðir til þess að draga verulega úr árásargetu Gaddafis og sér í lagi getu hans til þess að ráðast hart að óbreyttum borgurum. Hvort það er lýðræðis- og frelsisást sem knýr áfram aðgerðir bandamanna gegn einræðisherranum eða olíu- og viðskiptahagsmunir skal ósagt látið. Í stríðinu í Írak hafa svipaðar og raunar mun háværari spurningar vaknað. En munur liggur samt í lögmæti aðgerðanna því innrásin í Írak var ekki gerð með samþykki SÞ og hvort sem það eru eigin hagsmunir eða alþjóðasamfélagsins í heild sem eru ástæða hernaðaraðgerðar er mun skárra að ríkisstjórnir grípi þó aðeins til þeirra þegar alþjóðasamfélagið telur slíkt réttlætanlegt. Einhvern tímann munu Sameinuðu Þjóðirnar svo kannski koma sér upp nægjanlega öflugu framkvæmdarvaldi til þess að leysa sjálft úr deilum.

Hvað um Líbýuleiðtogann knáa verður er erfitt að segja. Það á eftir að koma í ljós hvort hann hafi innsiglað örlög sín eins og Gunnar forðum eða hvort úkraínska hjúkkan lumi á galdralokk í hári sínu. En það er nokkuð öruggt að fáum verður Gaddafi harmdauði.