Golf er áhætta

Fæstir myndu telja golfíþróttina til þeirra íþróttagreina þar sem þátttakendur leggja líf og limi í verulega hættu. Sumir ganga svo langt að segja að golf sé íþrótt fyrir eldra fólk og þá sem almennt séð hafa lagt kynlífsiðkun á hilluna. Nýfallinn dómur héraðsdóms Reykjaness leiðir annað í ljós.

Fæstir myndu telja golfíþróttina til þeirra íþróttagreina þar sem þátttakendur leggja líf og limi í verulega hættu. Sumir ganga svo langt að segja að golf sé íþrótt fyrir eldra fólk og þá sem almennt séð hafa lagt kynlífsiðkun á hilluna. Golfið er þannig í huga flestra góður göngutúr þar sem kylfum er beitt við að koma lítilli kúlu ofan í lítið stærri holu.

Golfið er hins vegar úlfur í sauðagæru og mun hættulegri íþrótt en margan grunar.

Á dæmigerðum degi á dæmigerðum golfvelli geta allt upp undir 140 manns verið að leik í einu í allt að 36 ráshópum á 18 brautum vallarins. Allt þetta fólk er vopnað kylfum sem eru sérstaklega hannaðar og styrktar til að slá golfkúlur sem lengst eftir þörfum þátttakandans. Dæmigerð golfkúla er ansi hörð, líklega uppundir 4 á hinum alþekkta Mohs kvarða, og hún fer hratt – mjög hratt í mörgum tilvikum.

Brautir golfvallar liggja yfirleitt þétt og oftar en ekki samsíða. Þátttakendur, s.k. kylfingar, eru því jafnan í miklu návígi hver við annan, jafnvel þótt þeir leiki hvor á sinni á brautinni.

Í gær var kveðinn upp merkilegur dómur í Héraðsdómi Reykjaness í máli sem höfðað var til greiðslu skaðabóta eftir að kylfingur hafði slegið kúlu sinni af miklu afli í andlit annars kylfings, sem var við leik á næstu braut, með þeim afleiðingum að hann blindaðist á öðru auga.

Skaðabótaskyldu var hafnað. Segir í dómi héraðsdóms að ákveðin tjónshætta fylgi iðkun golfíþróttarinnar með sama hætti og eigi við um margar aðrar íþróttagreinnar. Ákveðin hætta sé því jafnan fyrir hendi þegar golf er leikið og án þess að hún geti talist fyrirsjáanleg eða nálæg.

Síðan segir í dómi héraðsdóms:

„Þegar bætur eru sóttar á grundvelli sakarreglunnar vegna slysa sem verða við íþróttaiðkun hafa verið gerðar vægari kröfur við sakarmat en almennt gilda og á það bæði við um mörk þess hlutlæga háttsemisramma sem almennt er viðurkenndur og huglægra þátta. Er það mat dómsins að þessi sjónarmið eigi við um golfíþróttina, enda þótt henni verði að þessu leyti ekki að fullu jafnað við ýmsar aðrar íþróttagreinar þar sem tekist er á í návígi og mikil líkamleg snerting er stór hluti af leiknum.“

Og í niðurstöðu sinni segir dómurinn:

„Með vísan til alls þess sem nú hefur verið rakið er það mat dómsins að ekki séu efni til að líta svo að aðstæður hafi verið með þeim hætti í umrætt sinn að það verði metið stefnda til sakar að hafa slegið upphafshögg sitt. Höggið mistókst hrapallega, en til bótaábyrgðar getur ekki stofnast á þeim grunni. Verður ábyrgð á tjóni stefnanda samkvæmt þessu ekki felld á stefnda.“

Með þessum dómi héraðsdóms eru tekin af öll tvímæli um að ekki sé annar mælikvarði lagður á slys sem verða við golfiðkun en þátttöku í öðrum íþrótttagreinum, sem taldar hafa verið áhættumeiri hingað til.

Það er óvitlaust fyrir kylfinga að hafa það hugfast næst að með því að gerast þátttakendur í leiknum hafa þeir tekið á sig á áhættu sem kann að leiða til þess að þeir missi skaðabótarétt vegna slysa sem þeir kunna að verða fyrir af völdum annarra kylfinga.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.