Yfirtaka áfrýjunardómstólanna

Demókratar í Bandaríkjunum óttast nú mjög yfirtöku hinna íhaldssamari afla á einu mikilvægasta dómsstigi Bandaríkjanna, áfrýjunardómstólunum.

Í aðdraganda síðustu forsetakosninga í Bandaríkjunum var nokkuð mikið gert úr því, að í hlut verðandi forseta kæmi að skipa 2-4 dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna. Engar breytingar hafa orðið á réttinum enn, þótt ýmsir dómarar hans séu komnir vel á efri ár.

Demókratar vöruðu ákaft við því að Bush ætlaði sér að skipa íhaldssama dómara við Hæstarétt og treysta þannig hin íhaldssamari gildi í bandarísku þjóðfélagi. En þótt Hæstiréttur sé hið endanlega dómsvald í Bandaríkjunum, þá eru áhrif hans nokkuð ofmetin. Helsta ástæðan er sú að dómurinn tekur fyrir aðeins um 100 mál á ári.

Það dómstig vestra sem hugsanlega hefur mest áhrif á mótun bandarísks réttar eru áfrýjunardómstólarnir (e. appeals courts). Áfrýjunardómstólarnir eru þrettán talsins og heyrir tiltekið landssvæði undir hvern og einn þeirra. Til kasta þeirra kemur þegar málum er áfrýjað eftir dóm á fyrsta dómsstigi.

Um þessar mundir á sér stað mikil valdabarátta milli forsetans og demókrata í bandaríska þinginu vegna tilnefninga forstans í embætti dómara við áfrýjunardómstóla. Bush hefur tilnefnt hvern íhaldsmanninn á fætur öðrum í embætti áfjýjunardómara en dómsmálaþingnefndin, sem skipuð er demókrötum í meirihluta, hefur hafnað hverri tilnefningu hingað til.

Bush hefur nú tilnefnt tvo nýja dómara, sem talið er að nefndin muni eiga erfitt með að hafna. Þetta eru þeir Micheal McConnel, sem tilnefndur er til setu í áfrýjunardómstólnum í Denver, og Micuel Estrada, sem á að setjast í áfrýjunardómstólinn í höfuðborginni.

Íhaldssamir dómarar eru taldir ráðandi í 7 áfrýjunardómstólum af 13 og margir spá því að áður en kjörtímabili Bush renni á enda, þá muni allir þrettán dómstólarnir verða komnir undir stjórn íhaldssömu aflanna.

Almenningur í Bandaríkjunum hefur hingað til ekki veitt þessum deilum um skipan dómara við áfrýjunardómstólana mikla athygli. Stríðið gegn hryðjuverkum og áhyggjur af efnahagsmálum eiga alla athygli fjölmiðla. En hugsanlega verður yfirtaka íhaldssömu aflanna á þessu mikilvæga dómsstigi einmitt það verk Bush-stjórnarinnar sem mun móta bandarískt þjóðfélag hvað mest til lengri tíma litið.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.