Greiðsluaðferðir í heilbrigðisþjónustu

Á undanförnum vikum hefur mikið verið talað um nauðsyn þess að veita auknu fé til heilbrigðisþjónustu. Sumir hafa lagt til að skattar verði hækkaðir í þeim tilgangi. Lausnin á vanda heilbrigðiskerfisins felst hins vegar ekki í því að ausa meira fé í núverandi kerfi. Lausnin felst í því að breyta kerfinu þannig að það nýti fjármuni betur. Upptaka DRG greiðslukerfis væri stórt skref í þá átt.

Íslenskum sjúkrahúsum er úthlutað fé á fjárlögum. Fjárlög hvers spítala eru föst og óháð afköstum þeirra. Nokkuð algilt er að sjúkrahús á Íslandi fari fram úr fjárlögum sínum. Sumir segja að það beri vott um óstjórn á sjúkrahúsunum en aðrir telja að sjúkrahúsunum hafi ekki verið úthlutað fé í samræmi við verkefnin sem þau þurfa að sinna.

Í öðrum OECD ríkjum er fjármögnun sjúkrahúsa með föstum fjárveitinum víðast hvar talin vera úreld aðferð. Fjármögnun sjúkrahúsa í öðrum löndum hefur í auknum mæli færst yfir á kerfi þar sem greiðslur tengjast á einhvern hátt afköstum sjúkrahúsins.

Í fjölmörgum löndum er læknum og sjúkrahúsum einfaldlega greitt fyrir þau verk sem unnin eru. Slíkt fyrirkomulag gæti við fyrstu sýn virst ákjósanlegt. Það hefur hins vegar mikilvæga ókosti. Ef greiðslur eru lægri en sem nemur kostnaðinum sem af verkinu hlýst hafa sjúkrahúsin hvata til þess að vísa frá sér sjúklingum þar sem þau tapa á hverju verki. Ef greiðslur eru hærri en kostnaðurinn sem af verkinu hlýst hafa sjúkrahúsin hins vegar hvata til þess að veita of mikla þjónustu þar sem þau hagnast á því að veita sem mesta þjónustu.

Medicare, sjúkratryggingar aldraðra í Bandaríkjunum, notaðist við slíkt greiðslukerfi frá stofnun þar til á níunda áratuginum. Kerfið þótti reynast illa þar sem erfitt var að halda niðri kostnaði. Árið 1983 var greiðslukerfi Medicare breytt. Tekið var upp kerfi þar sem greiðslur fyrir meðhöndlun sjúklinga byggjast á veikindum sjúklingsins (DRG kerfi). Sjúklingar eru flokkaðir eftir því hvað amar að þeim, svo og aldri og öðru sem hefur áhrif á kostnað meðhöndlunar. Sjúkrahúsum er síðan greitt fast gjald fyrir að meðhöndla sjúklinginn sem byggist á flokknum sem sjúklingurinn lendir í.

Kerfi af þessu tagi veiti sjúkrahúsum mun sterkari hvata til þess að lækna á eins hagkvæman hátt og kostur er. Ef sjúkrahúsi tekst að lækna sjúkling á ódýrari hátt en gert er ráð fyrir fær það að halda eftir mismuninum sem hagnað. Ef sjúkrahúsið framkæmir óþarfa rannsóknir lækkar hagnaður þess sem nemur kostnaðinum af þeim rannsóknum. Ef sjúkrahúsið framkvæmir aftur á móti of fáar rannsóknir og það leiðir til þess að sjúkrahúsið meðhöndlar sjúklinginn á rangan hátt og veikindi hans versna bera sjúkrahúsið kostnaðinn af þeirri auknu meðhöndlun sem því fylgir.

Fyrr í mánuðinum var haldin ráðstefna hér á landi um breyttar fjármögnunaraðferðir í heilbrigðisþjónustu. Þar var fjallað um DRG kerfi. Svo virðist sem áhugi sé fyrir því hjá ráðamönnum að taka upp slíkt kerfi. Því ber að fagna. Líklega er engin önnur kerfisbreyting af hálfu ríkisins sem sparað gæti jafn mikið fé og upptaka DRG kerfis í heilbrigðisþjónustu.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.