Virðing fyrir opinberum fjármunum

Prófið að hætta að skila skattskýrslum. Innan skamms munið þið komast að því að ríkið er ekki mjög hrifið af slíkum uppátækjum og fljótlega verðið þig komin inn á skrifstofu sýslumanns með grátstafinn í kverkunum til að koma í veg fyrir að ríkið hirði allar eigur ykkar. Ríkið sækir sitt til skattgreiðenda – sama hvað á bjátar. Skattgreiðendur hljóta því að eiga eðlilega heimtingu á að meðferð skattfjár sé með sæmilegum hætti – eða hvað?

Það hlýtur að vera sjálfsögð krafa almennings að opinberir starfsmenn komi fram með virðingu og af ábyrgð við þá opinberu fjármuni sem þeim er treyst fyrir. Í því felst m.a. að opinberir starfsmenn eiga að halda utan um eigin bókhaldsgögn, gera upp ferðareikninga og skila kvittunum. Ef misbrestur verður á þessu er það skilyrðislaus skylda stjórnvalda að grípa af fullri hörku inn í málið, rannsaka það og koma í veg fyrir að það endurtaki sig.

Í ritstjórnarpistli hér á Deiglunni þann 27. júlí var m.a. fjallað um mál Þorfinns Ómarssonar. En honum tókst einmitt ítrekað að brjóta öll atriðin í ofangreindri upptalningu á skyldum opinberra starfsmanna. Þar sagði m.a.:

Það er afar mikilvægt að virkt eftirlit sé með meðferð opinbers fjár og að þeir, sem ekki standast þær kröfur sem gerðar eru, séu settir til hliðar.

Nýlegur úrskurður nefndar í máli Þorfinns Ómarssonar vekur hins vegar upp alvarlegar spurningar um stöðu opinbera starfsmanna í íslenskri stjórnsýslu, sérstaklega þeirra sem meðhöndla opinbera fjármuni. Samkvæmt úrskurðinum var menntamálaráðuneytinu óheimilt að veita Þorfinni Ómarssyni tímabundna lausn frá störfum þrátt fyrir langa sögu fjármálaóreiðu í starfi. Það er stóralvarlegt ef hið opinbera getur ekki veitt mönnum tímabundna lausn frá störfum vegna fjárhaldsóreiðu, aðgerð sem myndi alltaf verða gripið til við sambærilegar aðstæður í einkageiranum.

Álit nefndarinnar sendir varhugaverð skilaboð til þeirra ríkisstarfsmanna sem eru að meðhöndla opinbert fé. Það gefur fordæmi fyrir því að mjög erfitt sé að grípa inn í mál opinbera starfsmanna þegar bókhaldsóreiða er til staðar. Að menn geti komist upp með langvarandi fjármálaóreiðu án þess að fá ákúrur sendir hættuleg skilaboð inn í stjórnsýsluna.

Að auki má færa rök fyrir að álit nefndarinnar hafi verið sett fram á vafasömum forsendum og að með því hafi nefndin komist í þversögn við fyrri úrskurði sína. Um þessa hlið málsins fjallaði Andri Óttarsson hér í Deiglunni sl. þriðjudag og sagði m.a.:

Af þessu sést að álit nefndarinnar skilur eftir sig mun fleiri spurningar heldur en svör. Það er hins vegar gegnumgangandi allan rökstuðning hennar að hún víkur ítrekað frá eigin fordæmum. Með því er nefndin sjálf að brjóta eina mikilvægustu reglu stjórnsýsluréttar sem er jafnræðisreglan.

Í þessu máli hefur umræðan farið um víðan völl. Sumir hafa gengið svo langt að verja Þorfinn Ómarsson með langsóttum samsærisenningum eða gert lítið úr fjármálaóreiðunni. Það er mikilvægt að menn missi ekki sjónar á uppruna og ástæðum þess að málið fer í gang sem er löng saga fjármálaóreiðu hjá ríkisstarfsmanni.

Deiglan óskar Þorfinni Ómarssyni velfarnaðar í starfi sínu. Hún vonar jafnframt að hann, og raunar allir þeir sem bera ábyrgð á ráðstöfun opinbers fjár, hafi það í huga að opinberir sjóðir eru hvorki ótæmandi né verða þeir til úr engu. Skattgreiðendur hafa lítið val um hvort þeir taki þátt í kostnaði við rekstur hinna ýmsu gæluverkefna ríkisins, s.s. kvikmyndagerð. Við undanskotum frá skatti eru þung viðurlög og því er óeðlilegt og óréttlátt ef ógætileg meðferð skattfjár hefur enga refsingu í för með sér.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Ritstjórn Deiglunnar (see all)