„Eigi skal höggva“ vora tungu

Einn af undirheimum veraldarvefsins, sem við treystum öll á í okkar daglega lífi, hlýtur að vera spjallborðamenningin. Á hinum ýmsu spjallborðum má finna stórmerkilega notkun á íslenskri tungu sem, á stundum, jaðrar við hreinni slátrun.

Einn af undirheimum veraldarvefsins, sem við treystum öll á í okkar daglega lífi, hlýtur að vera spjallborðamenningin. Á hinum ýmsu spjallborðum má finna stórmerkilega notkun á íslenskri tungu sem, á stundum, jaðrar við hreinni slátrun.

Á síðustu árum hefur verið birtur fjöldi greina er varða verndun íslenskrar tungu og misbeitingu á notkun hennar. Þrátt fyrir ítarlegar greinargerðir á því hvernig níðið hrjáir tungumálið, bæði í ræðu og riti, hef ég litla trú á lækningarmætti þessara sömu greina og pistla. Engu að síður hef ég ákveðið að leggja hönd á plóginn í baráttunni fyrir málstaði sem er allt að því glataður; bættri meðferð íslenskunnar á veraldarvefnum.

Til að byrja með er ágætt að taka dæmi um hversu alvarlegt vandamálið er í raun og veru. Hér er ekki um málhreinsunar fasisma að ræða, þvert á móti:

„af hverju er pétur skríður enþá innan veggja félagsins, hann getur ekki neitt og fær aldrey að spila, og svo á að verðlauna hann með nýjum samnig af því honum tókst að skora á móti arsenal. Hahah“

Hér erum við til dæmis með frábært dæmi af spjallborði íslenskrar íþróttafréttasíðu, þess má geta að á sömu síðu má finna gríðarlegan fjölda álíkra ummæla. Í þessari einu setningu má finna að lágmarki sex dæmi um slæma notkun á tungumálinu.

1. Lítill stafur eftir punkti og í sérnöfnum.
2. Eitt –n í ennþá.
3. –Y finnum við í orðinu aldrei.
4. Komma á undan aðalsamtengingunni –og.
5. Vantar –n í orðið samning.
6. Hinn ótrúlega algengi –hahah hlátur í lok setningarinnar.

Því miður höfum við engar upplýsingar um aldur eða kyn einstaklingsins sem þetta ritar og því erfitt að dæma málnotkunina á sanngjarnan hátt. Við getum hins vegar verið sammála um að þarna er á ferðinni einstaklega vond setning og að sporna verði gegn þróun í þessa átt. Setningar svipaðar þessari eru því miður orðnar allt of algengar á spjallborðum veraldarvefsins. Það sem gerir þessa þróun enn hættulegri er sú staðreynd að íslensk ungmenni eru í sífellt meira mæli að yfirfæra þvílíka málnotkun inn í skólanna. Ef allt gengi að óskum væru þessi sömu ungmenni að yfirfæra þá kennslu sem þau fá í skólunum á þær vefsíður sem þau stunda í frítíma sínum.

Því hlýtur spurningin að vera: Hvernig bætum við úr þessu vandamáli? Við henni eru augljóslega engin einföld svör en þó eru til ýmsar lausnir sem mætti hrinda í framkvæmd. Sjálfur væri ég afskaplega heillaður ef möguleiki væri á því að koma upp svipaðri stafsetningarhreinsun og finnst í ritvinnsluforritum á þau spjallborð og athugasemdakerfi sem eru í notkun. Þannig væri fólk leiðrétt reglulega á þeim vettvangi sem það beitir sér af mun meiri áhuga en í skólunum.

Þarna er vissulega engin kraftaverkalausn í boði en engu að síður hugmynd sem gæti farið langt með að hreinsa upp einn stærsta vígvöll íslenskrar tungu. Enn fremur er þarna á ferð frábært tækifæri til nýsköpunar og samþættingu fræðasviða sem allt of sjaldan fá að njóta sín í sameiningu; íslensku og tölvunarfræði.