Falun Gong fékk ekki í nefið

Mótmæli atvinnubílstjóra í síðustu viku voru að einhverju leyti skiljanleg en að sama skapi furðuleg. Enn furðulegri voru viðbrögð lögreglu við þessum mótmælum í ljósi fyrri afskipta lögreglunnar af öðrum mótmælum síðustu ár. Falun Gong meðlimir voru ekki á vörubílum, það sama á við um meðlimi Saving Iceland. Varla mismunar lögreglan mótmælendum eftir því hverju er verið að mótmæla. En atvinnubílstjórar fengu í nefið á meðan lögreglan handtók Falun Gong liða.

Atvinnurekendur mótmæla
Það er skiljanlegt að hinir ýmsu hópar og einstaklingar mótmæli gjaldtöku af hálfu hins opinbera. Ágætt væri reyndar ef slíkar raddir heyrðust oftar og tækju þá jafnframt til almennrar skattheimtu ríkisins sem og útgjaldaaukningu ríkissjóðs undanfarin ár. Hátt bensínverð hér á landi orsakast fyrst og fremst af háu heimsmarkaðsverði. Þó hefur komið fram að álögur ríkisins á bensín eru lægri á Íslandi en á hinum Norðurlöndunum.

Olía er hluti af rekstrarkostnaði við að reka á vélknúið atvinnutæki. Það er hins vegar óvenjulegt að aðilar í rekstri mótmæli svo kröftuglega hækkun á einum rekstrarlið. Hækki einn liður í rekstrarkostnaði má einfaldlega mæta því með hækkun á vöru eða þjónustu og eða hagræða í öðrum rekstrarliðum þar sem því verður komið við. Annar möguleiki er að gera ekkert og taka á sig tekjutap sem nemur hækkun þess rekstrarliðar, t.a.m. í von um að ástandið lagist. Í stað þess að setja samfélagið í uppnám með því að hindra almenna umferð á höfuðborgasvæðinu og valda sumstaðar almannahættu hefðu atvinnubílstjórar getað tilkynnt um hækkun á gjaldskrám sínum.

Almannahætta og lögbrot
En almenningur sýndi þessum mótmælum atvinnubílastjóra nokkra samúð og jafnvel stuðning, allavega í fyrstu. En eftir því sem mótmælin drógust á langin og umferð almennra borgara á leið til og frá vinnu var ítrekað trufluð fjaraði undan samstöðunni. Morgunblaðið birti á föstudag frétt á forsíðu blaðsins þar sem fram kom að samfélagslegur kostnaður vegna fjarveru í vinnu væri ekki undir 34 milljónum. Umferðarlög voru margbrotin og á vissum tímabilum skapaðist raunveruleg almennahætta þar sem sjúkrabílar og lögregla gátu ekki komist leiðar sinna í brýnum erindagjörðum. En hvað gerði lögreglan?

Lögreglan virtist í fyrstu algjörlega misskilja hvað var í gangi og leit á þessi mótmæli sem hverja aðra vinnudeilu og gaf lögbrjótunum m.a. í nefið eitt skiptið. Þetta var ekki vinnudeila heldur almenn mótmæli þar sem krafist var breytingar á gildandi rétti í landinu og beitt til þess þeim ráðum að brjóta önnur gildandi lög í landinu til að koma skilaboðunum á framfæri. Um heimildir lögreglu til að stöðva mótmælin má benda á greinagóðan pistil um það efni, eftir Teit Skúlason, sem birtist á Deiglunni í gær, og óþarfi að reifa þau atriði hér aftur.

Þegar á leið fór lögreglan reyndar að sekta mótmælendur fyrir brot á umferðarlögum og Stefán Eiríksson lögreglustjóri sagði það fráleitt að lögreglumenn hefðu tekið á vægar á mótmælendum en mótmælum annarra s.s. liðsmanna Saving Iceland. En er þetta rétt hjá lögreglustjóranum?

Falun Gong og Saving Iceland
Í júní 2002 kom hingað hópur manna undir formerkjum Falun Gong hreyfingarinnar og vildi halda uppi, að því er virtist, friðsamlegum mótmælum vegna komu Jiang Zemin, forseti Kína, til landsins. Viðbrögð yfirvalda voru í fyrsta lagi setja hömlur á komu þessa hóps til landsins og í annan stað brjóta upp mótmælin með handtökum á þeim stöðum þar sem hætta gæti verið að kínverski forsetinn gæti séð til þeirra. Settar voru svo upp búðir í Njarðvík þar sem hluti mótmælenda var látinn dúsa og bíða brotvísunar úr landi.

Síðasta sumar gerðu nokkrir liðsmenn Saving Iceland sig breiða og fóru víða að mótmæla því að Kárahnjúkavirkjun væri að verða tilbúin. Höfðu þeir sig nokkuð frami og trufluðu starfsemi tengda áliðnaði og virkjunarframkvæmdum, t.d. hlekkjuðu þeir sig við vinnuvélar, príluðu upp í krana og gerðu svo aðsúg að lögreglu við lögreglustöðina á Hverfisgötu. Lögreglan brást eðlilega hart við og handtók þá sem það áttu skilið og hindraði frekari framgang skemmdaverkanna að öðru leyti.

Af fjölmiðlaumfjöllun að dæma virðist óneitanlega sem lögreglan hafi lagt meira á sig að stöðva mótmæli Falun Gong og liðmanna Svaing Iceland en mótmæli atvinnubílstjóra. Vera kann auðvitað að svo sé ekki enda getur umfjöllun fjölmiðla verið ónákvæm og kannski ekki öll kurl komin til grafa í samskiptum lögreglu og atvinnubílstjóra. Vissulega hafði lögreglan heimild til að tryggja starfsöryggi þeirra sem urðu fyrir barðinu á Svaing Iceland hópnum og beita þeim úrræðum sem gripið var til í samræmi við meðalhófsreglu til að koma í veg fyrir eignaspjöll og röskun á allsherjarreglu. Meðferðin á Falun Gong liðmönnum gekk alltof langt en stjórnvöldum var nokkur vorkunn vegna þess að skiljanlega þurfti að tryggja öryggi forseta Kína.

Aðgerðarleysi lögreglu
En afhverju var ekki gripið strax til aðgerða gegn mótmælum atvinnubílstjóra og þeim gert að virða landslög? Afhverju lét lögreglan það líðast að umferð þúsunda borgara á háannatíma var trufluð og starfsemi sjúkrabíla nær lömuð á tímabili? Vonandi er það ekki vegna þess að bílstjórarnir voru á stórum ökutækjum og lögreglan getur ekki með góðu móti stöðva för slíkra tækja. Ef svo væri þyrftu skipuleggjendur mótmæla í framtíðinni einungis að leiga vörubíla og stöðva umferð í Ártúnsbrekku með þekktum afleiðingum til að vekja athygli á málstað sínum. Hvað hefði lögreglan t.d. gert ef 10 liðmenn Falun Gong hefðu setið í gulri rútu og í gulum peysu þar sem kínverski forsetinn átti leið hjá? Ekki gefið þeim í nefið, það er ljóst.

Vonandi verður aðgerðarleysi lögreglu ekki heldur rökstutt með vísan til efnis þess málsstaðar sem mótmælendur vildu koma á framfæri. Allir eru jafnir fyrir lögunum og það er með öllu ótækt ef yfirvöld myndu gerast sek um að hylla ákveðnum skoðunum með því að láta sum lögbrot, jafnvel alvarleg lögbrot, mótmælenda viðgangast en önnur ekki. Sennilegasta skýringin er trúlega sú að lögreglan var ekki undir mótmæli af þessari stærðargráðu búin og vonaðist jafnvel til þess að þeim yrði hætt eftir fyrsta dag og meðan ennþá var stemmning meðal þjóðarinnar, lögreglu og bílstjóra fyrir þessu uppátæki. Allir vilja jú borga minna fyrir eldsneytið.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.