Hvenær eru viðskipti sanngjörn?

Í Háskóla Íslands standa nú yfir „Sanngjarnir dagar,“ en það nafn er sótt til þeirrar hreyfingar sem venjulega hefur verið kennd við „Fair Trade.“ Tilefnið er samkvæmt tilkynningu frá skólanum að „fagna því að loks sé hafin framleiðsla á fyrstu Fair Trade vörunni á Íslandi.“

Í Háskóla Íslands standa nú yfir „Sanngjarnir dagar,“ en það nafn er sótt til þeirrar hreyfingar sem venjulega hefur verið kennd við „Fair Trade.“ Tilefnið er samkvæmt tilkynningu frá skólanum að „fagna því að loks sé hafin framleiðsla á fyrstu Fair Trade vörunni á Íslandi.“ Þetta kann að hljóma skringilega – Fair Trade vara framleidd á Íslandi? Raunin er sú að Te og Kaffi á Íslandi framleiðir nú kaffi úr Fair Trade baunum sem keyptar eru erlendis frá, og hlýtur að launum vottun þar að lútandi. Te og Kaffi gerir þetta eflaust af einskærri manngæsku og hnattrænni ábyrgð. Nóg um það.

Það er líklegast hægt að slá því föstu að enginn er fylgjandi ósanngjörnum viðskiptum. Hins vegar hefur spurn eftir framleiðsluvörum með einhvers konar siðferðislega vottun aukist gríðarlega, og upphafsmenn Fair Trade hreyfingarinnar hafa brugðist við því kalli. Velta með Fair Trade-vörur í Bretlandi einu og sér um 490 milljónum punda á síðasta ári, eða ríflega 72 milljörðum króna. Einnig hefur komið í ljós að Fair Trade vörur eru um 9-16% dýrari en sambærilegar vörur sem hafa ekki sambærilega vottun. Neytendur eru hins vegar fullmeðvitaðir um það, enda telja þeir mismuninn fara til kaffibónda í Perú. Hins vegar hafa margir haft efasemdir upp um hvort allur sá aukakostnaður rati í vasa Fair Trade vottaðra framleiðanda. Tim Harford, sem dálkahöfundur og blaðamaður á Financial Times og skrifaði bókina Undercover Economist, bendir á það í einni ritgerða sinna að kaffibóndi sem hlýtur aðgang að Fair Trade-kerfinu fær yfirleitt um 25-55 pens til viðbótar fyrir hvert kíló af kaffi sem hann selur. Hins vegar sé nokkuð algengt að kaffihús í Bretlandi bæti 10 pensum á hvern sanngjarnan kaffibolla sem er seldur. Það er nokkuð augljóst hver makar krókinn mest á þessum viðskiptum.

Sölupunktur Fair Trade vara er sá að framleiðandi, sem er jafnan sagður staðsettur í þróunarlandi, fái „sanngjarnt“ verð fyrir framleiðslu sína – hvar sem það kann að liggja. Markmiðið er í sjálfu sér gott og gilt, en fyrir utan augljósa vankanta vegna loðinna skilgreininga á sanngirni, eru sterkar vísbendingar um að Fair Trade-viðskipti séu að valda meiri skaða en þær koma í veg fyrir. Það er mikill misskilningur að Fair Trade sé öllum framleiðendum opinn. Minnihluti kaffibænda hlýtur aðgang að Fair Trade-prógramminu, og fá þá hærra, en ákveðið fast verð fyrir framleiðslu sína. Þess má geta að stærstur hluti þeirra bænda og framleiðenda sem fengið hafa Fair Trade vottun er í Mexíkó, sem verður að teljast allþróað land.

Þeir bændur sem náðarsamlegast fá að gangast undir Fair-Trade vottun komast eflaust betur af í kjölfarið – en hvað með þá sem ekki hljóta náð fyrir augum Fair Trade-vottenda? Í stað þess að fá markaðsverð greitt fyrir framleiðslu sína er viðskiptum þeirra kippt frá þeim. Auk þess er hér átt við landeigendur. Óbreyttir vinnumenn hafa nefnilega enga tryggingu fyrir hærra kaupi þó þeir starfi á Fair Trade-býli. Það eru aðeins ákveðnir seljendur framleiðslunnar sem njóta verðverndar.

Verndarstefna hefur ekki hjálpað nokkurri þjóð að þróast til langs tíma. Hin þróuðu hagkerfi tóku ekki upp frjáls viðskipti eftir að þau höfðu öðlast auðlegð sína. Viðskiptafrelsi var hornsteinn þeirrar lífsgæðaaukningar sem hefur átt sér stað í hinum vestræna heimi. Frjáls viðskipti eru hin raunverulega sanngjörnu viðskipti.

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)