Það er vandasamt að stýra þjóðarskútunni og ýmsar meiningar um hvernig stjórnin eigi að vera. Flest erum við þó sammála um að þeir sem ráða ferðinni verði að sýna ábyrgð og yfirvegun þegar á reynir. Að þessu leytinu til er efnahagsstjórn ekki ósvipuð læknismeðferð, þ.e. hún verður að vera úthugsuð og virka til frambúðar. Læknir með skyndilausnir eða töfralyf kann að hljóma vel í fyrstu en til lengri tíma litið verður meðferðin sem hann boðar að ganga upp og leysa málin, burtséð frá því hvort hún var til vinsælda fallin í upphafi.
Þegar stjórnvöld takast á við vanda í efnahagslífinu vakna upp svipuð álitaefni. Yfirleitt er enginn skortur á skoðunum og tillögum um hvað eigi að gera, til hvaða aðgerða skuli grípa og hvaða prógrömm eigi að setja í gang. Stjórnmálamaður sem dregur andann djúpt og gætir þess að gera enga vitleysu í öllu látunum skapar sér ekki alltaf vinsældir til að byrja með en þegar horft er lengra fram á veginn er yfirleitt skynsamlegra að hafa ekki hlaupið á eftir ráðum þeirra sem hæst láta í sér heyra.
Í þeim efnahagshræringum og vanda sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir núna er enginn skortur á skyndilausnum og hugmyndum um hvernig megi redda málunum. Þannig skrifar ritstjóri DV til að mynda langa hugleiðingu um það á vef DV á dögunum hvernig bregðast skuli við stöðunni í efnahagsmálunum. Hans lausn er sú að forsætisráðherra eigi að reka Seðlabankastjóra nú þegar, þar sem hann hafi ekki næga menntun, þekkingu né dómgreind til að stýra bankanum. Þetta er sérkennilegt sjónarmið og kannski athyglisvert að velta því fyrir sér hvaða skilaboð sú aðgerð myndi senda út á viðkvæman markaðinn að forsætisráðherra ræki seðlabankastjóra í miðri baráttunni við verðbólguna. Þó þetta kynni að gleðja Reyni Traustason er líklegra að erlendir sérfræðingar sem hafa enga sérstaka skoðun á persónu Davíðs Oddssonar – ólíkt Reyni – myndu lesa þetta sem örvæntingu og panikk af hálfu ríkisstjórnarinnar. Og það væri það allra síðasta sem við þyrftum á að halda núna þótt eflaust myndi hlakka í ritstjórn DV við slíka uppákomu.
Þarna liggur því miður hundurinn oft grafinn – álitsgjafarnir og stjórnmálaskýrendurnir nýta sér oftar en ekki vandamálin sem upp koma til þess að lauma inn eigin skoðunum á tilteknum persónum eða málefnum í þjóðmálunum. Hinar boðuðu lausnir eru auðvitað fyrst og fremst það sem kæmi viðkomandi flokki vel – og í sjálfu sér ekkert við það að athuga að menn reyna að vinna sínum hugmyndum fylgi – en þær eru ekki endilega lausnin á vandanum.
Að undanförnu hafa fjölmargir áhugamenn um ESB-aðild stigið fram og boðið inngöngu í sambandið sem lausn við þeim vanda sem nú steðjar að. Í því felst hins vegar ákveðin blekking, enda þótt hafist yrði handa strax á morgun og róið að því öllum árum að koma Íslandi sem allra fyrst inn í ESB, biði okkar að minnsta kosti 5-6 ára aðildarferli. Þá verður vandinn sem við tökumst á við núna að baki enda er tilvist undirmálslánakreppu heimsins alls óháð Evrópusambandinu og stöðu Íslands þar.
Menn verða að átta sig á því að innganga Íslands í ESB myndi aldrei virka sem lausn við tímabundnum vanda, sem er í þokkabót utan okkar áhrifasviðs. Innganga í ESB myndi hafa í för með sér nýjan pólitískan og efnahagslegan veruleika fyrir Ísland og það verður að nálgast spurninguna um aðild á þann hátt. Til að mynda er ljóst að efnahagslægðir munu ónáða Evrópubúa og hið evrópska hagkerfi fyrr eða síðar. Spurningunni um aðild Íslands að ESB og hugsanlegum áhrifum á efnahagslífið má því vel snúa við – viljum við lenda í þeirri stöðu síðar meir að þurfa hafa íslenska hagkerfið í aðhaldsgír út af þenslu í Evrópu þegar við þyrftum að gefa í? Eða öfugt? Í þessum vanda eru Írar til að mynda nú staddir.
Þeir sem bjóða ESB-aðild sem lausn við efnahagsvanda hljóta að þurfa að svara því hvort vandinn kunni ekki að sækja okkur heim síðar meir. Aðalatriðið er að aðild að Evrópusambandinu er ekki bara stutt stopp á Hressingarhælinu sem lýkur þegar okkur hentar heldur varanleg innlögn sem býður ekki upp á neina sérsamninga þegar á reynir. Sá veruleiki sem bíður okkar í Evrópusambandinu getur vissulega fært okkur áframhaldandi hagsæld og velgengni en hann færir okkur líka ný vandamál.
Hið rétta í stöðunni í bili er að standa af okkur óróann á mörkuðum og bíða þess að hagkerfi heimsins rétti úr kútnum. Að sama skapi verðum við taka til skoðunar fyrirkomulag peningamálastefnunnar og gjaldmiðilsmála hér heima. Frá Seðlabankanum berast þau skilaboð að bankinn ætli að berjast til þrautar með stýrivaxtavopni sínu gegn verðbólgunni og vinna þannig tiltrú markaðarins á stjórntækjum bankans. Það er skynsamlegt sjónarmið eins langt og það nær en að sama skapi er alveg á hreinu að einn minnsti gjaldmiðill heims má sín lítils í opnu og frjálsu hagkerfi með mikla fjármagnsflutninga milli landa.
Peningamálastefnunni verður hins vegar ekki hent fyrir borð á meðan siglt er í gegnum ólgusjó. Yfirlýsingar forsætisráðherra frá aðalfundi Seðlabankans um að íslenska ríkið muni verja fjármálakerfið og að Seðlabankinn leiti nú samstarfs við aðra seðlabanka eru mikilvægar og réttar og ræða utanríkisráðherra á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar á dögunum sendi einnig þau skynsamlegu skilaboð að ríkisstjórnin muni verja fjármálakerfið ef á reynir.
Í allri þessari umræðu má þó ekki gleyma því að þrátt fyrir ágjöfina núna hefur árangur okkar Íslendinga verið framúrskarandi góður. Samfellt hagvaxtarskeið frá árinu 1993, um 60% kaupmáttaraukning á 12 árum (sem eru launa- og kjarabætur umfram verðbólgu), stórfelldar skattalækkanir ríkisins á einstaklinga og fyrirtæki, eitt lægsta atvinnuleysi á byggðu bóli og ein bestu lífskjör í heiminum eru ekki árangur sem gefur tilefni til örvæntingar eða skyndilausna.
- Hröð en ekki óvænt stefnubreyting í málefnum hælisleitenda - 20. febrúar 2024
- Fjölmiðlaóð þjóð - 22. janúar 2021
- Skiljanleg en hættuleg ritskoðun tæknirisanna - 14. janúar 2021