Mikilvægar yfirlýsingar forsætisráðherra

Í ræðu sinni á aðalfundi Seðlabankans í gær sagði Geir Haarde: “Hreinar skuldir ríkissjóðs eru nú litlar sem engar … Það þýðir að ríkissjóður hefur mikinn fjárhagslegan styrk og getur tekið að láni verulegar fjárhæðir ef á þarf að halda. Það er því engum vafa undirorpið að ríkissjóður og Seðlabankinn gætu hlaupið undir bagga ef upp kæmi alvarleg staða í bankakerfinu.” Þessi yfirlýsing er skýrt merki um það að ríkissjóður mun nota fjárhagslegan styrk sinn til þess að sporna gegn því að fjármálakreppa skelli á hér á landi.

Í ræðu sinni á aðalfundi Seðlabankans í gær sagði Geir Haarde:

“Hreinar skuldir ríkissjóðs eru nú litlar sem engar … Það þýðir að ríkissjóður hefur mikinn fjárhagslegan styrk og getur tekið að láni verulegar fjárhæðir ef á þarf að halda. Það er því engum vafa undirorpið að ríkissjóður og Seðlabankinn gætu hlaupið undir bagga ef upp kæmi alvarleg staða í bankakerfinu.”

Þessu til viðbótar sagði Geir að ef slík staða kæmi upp munu íslensk stjórvöld “hiklaust grípa til sömu aðgerða og ábyrg stjórnvöld annars staðar.”

Margir hafa kallað eftir viðbrögðum af hálfu ríkisstjórnarinnar við þeim óróa sem verið hefur á íslenskum fjármálamörkuðum síðustu vikur. Þessi yfirlýsing er skýrt merki um það að ríkissjóður mun nota fjárhagslegan styrk sinn til þess að sporna gegn því að fjármálakreppa skelli á hér á landi.

Hið mikla fall krónunnar og hlutabréfaverðs íslenskra fjármálafyrirtækja síðustu vikur orsakast af ótta fjárfesta við því að alvarleg fjármálakreppa geti skollið á hér á landi á næstunni. Fjárfestar óttast að einn eða fleiri af stóru íslensku bönkunum gætu lent í greiðsluerfiðleikum. Og þeir óttast að slíkur atburður myndi valda kollsteypu á Íslandi.

En vandi bankanna er að miklu leyti til kominn vegna þess að erlendir fjárfestar óttast um stöðu þeirra. Með öðrum orðum felst vandinn í óttanum og óttinn í vandanum. Slíkur vítahringur getur sjálfur valdið fjármálakreppu ef hann fær að grassera.

Það er af þessum sökum sem orð forsætisráðherra í gær eru sérstaklega eftirtektarverð. Með orðum sínum er hann að freista þess að klippa á þennan vítahring. Hann er að benda á að ríkissjóður Íslands hefur bolmagn til þess að taka nægilega stór erlend lán til þess að koma í veg fyrir að íslensku bankarnir geti lent í greiðsluerfiðleikum. Ef vel tekst til mun yfirlýsingin minnka ótta erlendra fjárfesta sem mun minnka vanda íslensku bankanna og koll af kolli þar til óveðursskýin eru að mestu farin.

Veltum aðeins fyrir okkur hvað ríkissjóður hefur bolmagn til þess að taka mikið fé að láni. Verg landsframleiðsla Íslands er u.þ.b. 11 milljarðar evra á ári. Skuldir japanska ríkisins eru 180% af VLF. Meðalskuldir ríkissjóða OECD eru 75% af VLF og flest ríki OECD eru verr sett en við Íslendingar þegar kemur að lífeyrissjóðssparnaði. Það er því ljóst að ríkissjóður getur tekið “verulegar fjárhæðir” að láni. Fjárhæðir sem staðið gætu undir fjármögnun íslensku bankanna í langan tíma.

Vonandi mun þessi yfirlýsing og sú staðreynd að íslensku bankarnir eru með há eiginfjárhlutföll og tiltölulega litla endurgreiðsluþörf á næstu misserum gera það að verkum að fleiri fjárfestar fari að sjá tækifæri í íslensku bönkunum.

Einhverjir munu vísast gagnrýna vilja Geirs til þess að standa við bakið á bönkunum. Þeir munu telja það orka tvímælis að skattgreiðendur bjargi bankagreifum úr vanda sem þeir hafa sjálfir komið sér í. Og það er vissulega rétt að ríkisvaldið þarf að fara afskaplega varlega í það að bjarga fjármálageiranum. Slíkt getur skapað slæmt fordæmi og getur falið í sér tilfærslu fjár frá þeim efnaminni til þeirra efnameiri. En öll fyrirtæki og heimili landsins eru meira eða minna upp á fjármálakerfið komin með hvers konar fjármögnun. Alvarleg fjármálakreppa gæti því leitt til þess að hagkerfið allt legðist á hliðina og allur þorri almennings yrði fyrir ómældu tjóni.

Það er einungis til þess að koma í veg fyrir slíkt sem réttlætanlegt er fyrir ríkissjóð að hlaupa undir bagga með stóru bönkunum. Heimsspekingurinn John Rawls setti fram þá kenningu að ójöfnuður samræmdist þá aðeins samfélagslegu réttlæti að hann gagnaðist þeim sem minnst mega sín. Það er hugsun af þessu tagi sem á að vera stjórnvöldum að leiðarljósi þegar þau taka erfiðar ákvarðanir um það á hvaða tímapunkti þau telja ástandið vera það alvarlegt að ríkissjóður eigi að hlaupa undir bagga.

Yfirlýsingar Geirs um ótvíræðann vilja stjórnvalda til þess að nota fjárhagslegan styrk sinn til þess að koma í veg fyrir fjármálakreppu eru mikilvægt innlegg í þá umræðu sem uppi hefur verið um stöðu íslensks efnahagslífs í erlendum og innlendum fjölmiðlum. Þessar yfirlýsingar og sú yfirlýsing að gera eigi fræðilega úttekt á umgjörð peningamála á Íslandi eru stærstu og mikilvægustu fréttirnar af aðalfundi Seðlabankans í gær. Þær ættu að geta haft verulega jákvæð áhrif á þróun efnahagsmála á næstunni – og eru miklum mun áhugaverðari heldur en sumar af þeim yfirlýsingum sem hlutu mesta athygli fjölmiðla í upprunalegri umfjöllun af fundinum.

Latest posts by Jón Steinsson (see all)

Jón Steinsson skrifar

Jón hóf að skrifa á Deigluna í október árið 2000.