Umboðsmaður skattgreiðenda?

Um tvennt geta menn verið vissir í lífinu og allt það og ljóst að flest okkar Íslendinga greiða sem samsvarar rúmum 35% af hverri krónu í skatt eftir að frítekjumarkinu er náð.

Um tvennt geta menn verið vissir í lífinu og allt það og ljóst að flest okkar Íslendinga greiða sem samsvarar rúmum 35% af hverri krónu í skatt eftir að frítekjumarkinu er náð. Nú er það auðvitað svo að fólk er missátt við hversu mikið það greiðir og stjórnmálaflokkarnir hafa um það misjafnar hugmyndir. Það breytir ekki þeirri staðreynd að íslenski meðaljón með meðaltekjur mun sjá á eftir um 75-80 þúsund krónum af næsta launaumslagi í ríkiskassann og til síns sveitarfélags. Þá er auðvitað ótalinn ýmis vörugjöld og vöruskattar auk annarra óbeinna gjalda sem verða á vegi okkar á degi hverjum.

Þótt margt hafi áunnist í lækkun á álögum landsmanna undanfarin ár blasir sú staðreynd við mörgum Íslendingum að það er harla ólíklegt að þeir fái peninga sína nokkurn tímann að fullu til baka. Og það er svo sem ekki gert mikið veður út af því. Stór hluti tekna ríkisins fer þannig í að reka almannatryggingakerfi. Og flestir vilja vera tjónlausir þótt þeir greiði sínar tryggingar. Að vísu myndu margir þiggja að fá smá letrið sent heim, sem þykja almennir viðskiptahættir hjá öðrum tryggingafélögum. Það er gott að vita rétt sinn ef eitthvað skyldi bregða út af. Fyrir áhugasama um réttindi og skyldur í almannatryggingakerfinu er bent á bókina Almannatryggingar og félagsleg aðstoð, sem kom út á seinasta ári og er nokkuð góður doðrantur um réttarsviðið og fæst á litlar 9900 krónur í Bóksölu stúdenta.

En það er svosem ekki heldur gert mikið veður út af því þótt ein ferja fari kannski vel fram úr áætlun, milljónir fari hingað og þangað í gæluverkefni og ekki er efnt til útifunda við Austurvöll ef stjórnmálamenn hafa þótt vera full íburðarmiklir í mannvirkjagerð. Samt er það þannig að skatturinn er greiðsla okkar fyrir ákveðna þjónustu af hendi ríkisins og það er mikilvægt að það sé eins mikið réttlæti og sanngirni milli skattgreiðanda og hægt er þegar kemur á útdeilingu á þessum fjármunum og þeirri þjónustu sem fjárfest er í. Þess vegna var ánægjulegt að heyra að borgastjórn Reykjavíkur hefði ákveðið að bæta þeim foreldrum sem ekki hafa enn getað tryggt börnum sínum leikskólapláss svokallaðar heimgreiðslur, sem jafngilda framlagi borgarinnar til foreldra vegna leikskólavistunar. Biðlistar eftir leikskólaplássi eru misjafnir eftir hverfum borgarinnar og víst að biðin er foreldrum mislöng. Mér reiknast til um að hér sé um að ræða um 30 þúsund krónur. Fyrir utan þá sjálfsögðu kröfu að fá eitthvað fyrir það sem borgað er fyrir með útsvarinu geta peningarnir nýst til að leita annrra úrræða meðan beðið er. Þannig má jafnvel hugsa sér að gauka smáræði að frænku á menntaskólaaldri sem gætir krógans eftir skóla.

En fulltrúar minnihlutans trompuðust. Fullviss um að konur myndu nú segja upp störfum sínum í stórum stíl og verða fangar á eigin heimili með lítinn tékka frá borginni upp á hendina. En eiga foreldrar og útsvarsgreiðendur að líða fyrir það að stjórnmálamenn efna ekki loforð sín um næg leikskólapláss? Er ekki næg refsing að fá ekki þá þjónustu sem lofað er í kosningunum án þess að mismuna foreldrum fjárhagslega eftir því hversu greiðlega þeim tekst að koma börnum sínum fyrir í dagvistun? Auðvitað er ekkert nema réttmætt og sanngjarnt að fólk fái slíkt bætt upp. Og það í þeirri trú að áfram verði haldið að vinna í mannekluvanda leikskólanna. Hér tala fulltrúar minnihlutans fyrir mismunun þegar kemur að útdeilingu á skattfé almennings.

Því miður eru til fleiri dæmi um slíka mismunun. Íslendingar eru haldnir þeirri einkennilegu hugmynd að hér eigi að vera fullkomið námsframboð af öllum mögulegum greinum á háskólastigi í 300 þúsund manna þjóðfélagi. Hins vegar freistar heimurinn margra sem ákveða að leggja land undir fót með augastað á tilteknu námi erlendis. Stúdentar eru jafnvel til í að taka á sig aukin kostnað með þetta fyrir augum. Það var ekki fyrr en nú nýlega að Lánasjóðurinn tók að lána fyrir skólagjöldum erlendis í grunnnámi. Hins vegar eru engin reiknilíkön fyrir stúdenta erlendis, með tillagi ríkisins eftir ákveðnum greinum eins og hér heima. Það þrátt fyrir að um sömu íslensku skattgreiðendur sé að ræða sem velja sér sama nám, en í mismunandi skólum.

Það er mikilvægt að sanngirni og réttlæti ríki í greiðslum ríkisins til skattgreiðenda. Þetta eru jú einu sinni peningarnir okkar. Undanfarið hafa verið sett á fót á embætti umboðsmanna í ýmsum málaflokkum og hugmyndir um enn fleiri á teikniborðinu. Hvenær skyldu stjórnmálamennirnir náðsamlega gefa okkur umboðsmann skattgreiðenda?

Latest posts by Jóhann Alfreð Kristinsson (see all)