Mannlegi þátturinn í pólitík

Mikið fíaskó hefur myndast í kringum borgarstjórastólinn undanfarna daga og er óhætt að segja að hitinn hafi nálgast hámark. Beðið er í ofvæni eftir ákvörðun Vilhjálms Þ. um hvort hann muni sitja eða standa upp frá borði og þar af leiðandi kveðja hinn pólitíska heim sem hann hefur lifað og hrærst í undanfarna áratugi.

Mikið fíaskó hefur myndast í kringum borgarstjórastólinn undanfarna daga og er óhætt að segja að hitinn hafi nálgast hámark. Beðið er í ofvæni eftir ákvörðun Vilhjálms Þ. um hvort hann myndi sitja eða standa upp frá borði og þar af leiðandi kveðja hinn pólitíska heim sem hann hefur lifað og hrærst í undanfarna áratugi.

Það er óhætt að segja að margt hefur breyst frá þeim tíma er Vilhjálmur settist fyrst í borgarstjórn. Hann hefur upplifað tímanna tvenna, borgarstjórnartíð Davíðs Oddssonar og minnihlutastarf undir borgarstjórn Ingibjargar Sólrúnar. Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins 2005 sannaði hann svo fyrir sjálfum sér og öðrum að hann nyti mikils trausts meðal flokkssystkinna sinna eftir að hafa borið sigur úr býtum gagnvart sterku móframboði með metfjölda atkvæða. Fáir efast því um að Vilhjálmur hefur unnið ötullega að sínum ferli og hefur unnið auk þess mikið og óeigingjarnt starf í þágu borgarbúa og Sjálfstæðisflokksins öll þessi ár. Það þykir því miður að ferill slíks stjórnmálamanns skuli þurfa þola þau áföll sem dunið hafa á hann hvað eftir annað undanfarin misseri. En hlutirnir spretta ekki upp af sjálfu sér.

Vilhjálmur þótti afar vinsæll borgarstjóri á þeim tíma er hann gegndi embætti en að sama skapi nokkuð umdeildur og þá sérstaklega er hann gekk fram í ákvörðunartökum er virtust teknar í fljótfærni og án ráðfærni. Hér má nefna kaup borgarstjórans á spilakassasal í nágrenni við sig fyrir 90 milljóna króna auk, í sömu viðskiptum, afhendingu lóðar er misverðlögð var um 20 milljónir króna sem allt var byggt á forsendum er standast engan veginn jafnræðisrök. Umstang þetta er myndaðist svo í kringum framgang REI-málsins fyllti á endanum mælinn. Í kjölfarið var meirihlutasamstarfinu slitið og Sjálfstæðisflokkurinn því úr borgarstjórastól.

Þetta er auðvitað mikið áfall fyrir þennan gamla og reynda stjórnmálamann og því skiljanlegt í ljósi aðstæðna að hann hafi reynt að bjarga andlitinu með því að mynda nýjan meirihluta með F-listanum, 100 dögum eftir fall upprunalega meirihlutans. Hvort sú ákvörðun var skynsamleg eður ei verður sagan að dæma en ljóst er að stuðningur borgarbúa í upphafi við myndun hans var ekki upp á marga fiska og því talsvert mikið verk framundan hjá nýja meirihlutanum að endurheimta traust og festu er einkenna eiga störf innan stjórnsýslunnar, þá ekki síst í tengslum við borgarstjóraembættið.

Í kjölfar REI-skýrslunnar er gáfu störfum Vilhjálms í aðdraganda þess máls falleinkunn mynduðust á ný vangaveltur um hvort Vilhjálmur væri hæfur til að gegna embætti borgarstjóra á ný eða hvort einhver annar innan raða borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins ætti að taka við. Boðað var til blaðamannafundar þar sem Vilhjálmur tilkynnti að hann þyrfti tíma til að íhuga sinn gang og sína stöðu og því sitjum við hér nú.

Ljóst er af fyrrgreindu að staða Vilhjálms er erfið. Hér takast augljóslega á sjónarmið um hagsmuni flokksins, borgarbúa og pólitískan feril eða öllu heldur arfleið. Fram hefur komið í viðtölum að Vilhjálmur hafi hugsað sér að hætta afskiptum af stjórnmálum eftir þetta kjörtímabil og því ekki ósennilegt að arfleið hans hafi mikið að segja um hver ákvörðunin verði á endanum. Mannorð að loknu ævistarfi er eflaust eitt það þyngsta sem vegur í hvers manns lífi en í samhengi við heildarhagsmuni hljóta borgarbúar að vega þyngst. En skynsöm ákvörðun um arfleifð þarf ekki endilega að haldast í hendur við setu í borgarstjórastól að nýju. Í því að eftirláta viðkomandi ábyrgðarstöðu getur falist mikil virðing og endurheimting á trausti. Traust er nefnilega mikilvægasta vopn hvers stjórnmálamanns.

runari@vortex.is'
Latest posts by Rúnar Ingi Einarsson (see all)