Riddarinn úr Vatnsmýrinni til bjargar?

Nú í vikunni voru tilkynntir verðlaunahafar í skipulagssamkeppni um Vatnsmýrina. Með lokum keppninnar er rekinn endahnútur í afar langt og strangt ferli sem margir eru fegnir að sé nú lokið. Í bili. Það er þó mikilvægt að áfram sé unnið að því að skilgreina betur þá þætti og þau lóð sem leggja þarf á vogarskálarnar til að gera góða borg betri. Ávinningur af byggð í Vatnsmýrinni fyrir borgina er óumdeilanlegur, en hún leysir ekki nándar nærri allt. Riddarinn úr Vatnsmýrinni mun ekki bjarga öllu.

Í gær var sigurtillaga í skipulagssamkeppninni um Vatnsmýrina tilkynnt við hátíðlega athöfn í Listasafni Reykjavíkur. Viðstaddir voru flestir, ef ekki allir, úr faggeira arkitektúrs og skipulags voru þar viðstaddir ásamt helstu stjórnmálamönnum borgarinnar. Meira að segja Ólafur F. Magnússon, borgarstjóri og ein mesta efasemdaröddin um flutning vallarins úr Vatnsmýrinni, var viðstaddur.

Þrátt fyrir að upphaflega hafi verið lagt upp með að velja fleiri en eina sigurtillögu fór það svo að tillaga skosku arkitektanna Graeme Massie og félaga var valin sem framúrskarandi tillaga. Í gegnum fyrsta þrep keppninnar fóru 16 tillögur af 136 sem sendar voru inn, sjö sérvaldar og þrjár sagðar í fremstu röð. Sjá má tillögurnar á þessum vef.

Með lokum keppninnar er rekinn endahnútur í afar langt og strangt ferli sem hefur mátt þola upphaf, biðstöðu, óvissu, breytingar og ýmislegt fleira sem sennilega hefði betur mátt fara. Með keppninni var vonast til að unnt væri að skapa ramma fyrir þróun byggðar í Vatnsmýrinni, og hefja uppbyggingu umhverfis flugvöllinn út frá því. Sigurtillagan svarar þeirri þörf að einhverju leyti, en þó frekar vestanmegin en austanmegin. Þar má setja afar stórt spurningarmerki um raunhæfni og skynsemi við framlengingu miðborgar yfir mikilvæg og erfið gatnamót Snorrabrautar og Hringbrautar. Það er ekki nóg að koma með kúst og sópa yfir fyrra klúður. Koma þarf með raunhæfar lausnir í staðinn. Svo er ekki fyrir að fara hjá Graeme Massie og félögum. En nóg um það í bili.

Eftir nokkurra áratuga lognmollu frá því að fyrst komu upp hugmyndir um brottflutning Reykjavíkurvallar úr Vatnsmýrinni gaus upp mikill áhugi í kjölfar þess að Samtök um Betri byggð tóku að benda á neikvæðar afleiðingar þess að svo stórt, mikilvægt og dýrmætt svæði væri tekið undir plássfrekt og óborgarvænt samgöngumannvirki, sem flugvöllur óneitanlega er. Gallinn reyndist, og reynist enn, þó vera sá að spurningunni um hvert völlurinn eigi að fara í staðinn er enn ósvarað.

Henni verður ósvarað um dágóðan tíma enn, og flutningur flugvallarstarfseminnar tekur dágóðan tíma þegar, og ef, af verður.

Ávinningur af því að nýta Vatnsmýrina undir byggð er óumdeilanlegur. Það þýðir ekkert fyrir úrtölumenn að mæla móti þeirri staðreynd. Með því væri unnt að staðsetja nýja íbúðabyggð vestan við stærsta atvinnukjarna höfuðborgarsvæðisins og styrkja hann til áframhaldandi þróunar, Reykjavík til heilla. Byggðin myndi eflaust hafa jákvæð áhrif á vöxt og viðgang í gömlu miðborginni, að einhverju leyti a.m.k. Áhrif á ýmsa hagræna þætti yrðu afar jákvæð. Það staðfestir umfangsmikil skýrsla á hagrænni úttekt þess að flytja völlinn og nýta svæðið undir byggð. Samfélagslegur sparnaður árlega nemur nokkrum milljörðum á því að byggja fremur íbúðabyggð í Vatnsmýrinni, fremur en Geldinganesi, svo fátt eitt sé nefnt. Einnig má nefna umhverfislegan ávinning.

Það er hins vegar mjög umdeilanlegt hvort byggð í Vatnsmýrinni muni valda því að borgin hreinlega umturnist. Það eru því miður of margir sem halda nákvæmlega því fram. Að með því að byggja íbúðabyggð í Vatnsmýrinni muni allt breytast. Að Reykvíkingar fari nú loks að hjóla og taka strætó. Að minnka megi bílaumferðina og hætta að byggja umferðarmannvirki, að á Laugaveginn flykkjist tugir þúsunda nýrra íbúa í Vatnsmýrinni, hér myndist grundvöllur fyrir léttlestir o.s.frv. Málflutningur Samtaka um betri byggð og nú síðast margra stjórnmálamanna í borginni byggir á þessari tilgátu.

Það er þungar byrðar sem settar eru á 180 hektara lands.

Það er óskandi að hægt væri að segja að það liggi nákvæmlega allt fyrir sem þarf að hrinda í framkvæmd til að vinna á helstu meinbugum borgarinnar við Sundin, þegar kemur að skipulagi og samgöngum. En svo er því miður ekki. Skipulagsfræðin er ungt fag sem hefur langt í frá svör við öllum þeim spurningum sem hægt er að spyrja hana. Það liggur mjög margt á huldu um hvar pottur liggi í raun brotinn og hvar ekki. T.a.m. er almennt talið að lítill þéttleiki byggðar á höfuðborgarsvæðinu sé ein meginástæða þess að hér þrífist tæplega almenningssamgöngur. En eins og nýleg skýrsla um Samgönguskipulag í Reykjavík sýnir þá er þéttleikinn á Höfuðborgarsvæðinu, merkilegt nokk, álíka mikill og þéttleikinn á Stór-Kaupmannahafnarsvæðinu. Og meiri en á Stór-Oslósvæðinu (sjá mynd 2 bls. 4). En af hverju þrífast almenningssamgöngur þar, en ekki hér?

Fleira má týna til, sem vekja upp efasemdir að byggð í Vatnsmýrinni sé að fara að leysa vandann. Í raun er afar hættulegt að einblína um of á þetta svæði sem einhvers konar töfraorð fyrir jákvæða þróun mála.

Það er óskynsamlegt að setja alla peningana sína á einn hest.

Byggð í Vatnsmýri mun eflaust leggja lóð á vogarskálarnar í baráttu fyrir betri höfuðborg. En það þurfa að koma önnur og fleiri til.

Þar sem enn er langt þangað til unnt verður að taka Vatnsmýrina undir íbúðabyggð er mikilvægt að hin lóðin, sem leggja þarf á vogarskálarnar, séu rannsökuð betur og skilgreind.

Það má efast má um áhuga og jafnvel hæfni þeirra sem eru á útleið úr pólitík í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum til að ráðast í það mikilvæga verkefni. Margir af yngri kynslóðinni sýna hins vegar mikinn áhuga og hæfileika, og er það vel. Það er verkefni þeirra, nú þegar mesti æsingurinn yfir Vatnsmýrarsamkeppninni er yfirstaðinn, að þeir skilgreini verkefnið og setji sitt besta fólk í málið.

Af hverju heitir t.d. ein mikilvægasta skýrsla sem gerð hefur verið í skipulagsmálum Reykjavíkur t.d. ennþá bara „Fyrsti hluti“? Og er frá febrúar 2006? Hvenær koma annar, þriðji og vonandi síðasti hluti af þessari vinnu?

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.