Hugmyndafræðileg endurnýjun

Hvað sem hægt er að segja um kalda stríðið þá er ljóst að það hafði þann kost að hugmyndafræðilegar línur í stjórnmálum voru skýrar. Eftir lok þess hafa stjórnmálin breyst og átakalínur færst til. Það er því kannski ekki von að sumum finnist stjórnmálaumræða í dag vera óljós og ósýnileg. Í leiðara Morgunblaðsins þriðjudaginn 5. febrúar síðastliðinn var kvartað yfir skorti á nýjum hugmyndum hjá öllum íslensku stjórnmálaflokkunum. Leiðarahöfundur bendir réttilega á að slíkt hugmyndaleysi geti leitt til stöðnunar í samfélaginu. Leiðarinn vekur því upp áhugaverðar spurningar um hugmyndafræðilega endurnýjun hér landi og hvort slík umræða hafi verið eða eigi eingöngu að vera á forræði og á forsendum stjórnmálaflokkanna.

Hvað sem hægt er að segja um kalda stríðið þá er ljóst að það hafði þann kost að hugmyndafræðilegar línur í stjórnmálum voru skýrar. Eftir lok þess hafa stjórnmálin breyst og átakalínur færst til. Það er því kannski ekki von að sumum finnist stjórnmálaumræða í dag vera óljós og ósýnileg. Í leiðara Morgunblaðsins þriðjudaginn 5. febrúar síðastliðinn var kvartað yfir skorti á nýjum hugmyndum hjá öllum íslensku stjórnmálaflokkunum. Leiðarahöfundur bendir réttilega á að slíkt hugmyndaleysi geti leitt til stöðnunar í samfélaginu. Leiðarinn vekur því upp áhugaverðar spurningar um hugmyndafræðilega endurnýjun hér landi og hvort slík umræða hafi verið eða eigi eingöngu að vera á forræði og á forsendum stjórnmálaflokkanna.

Það er nefnilega spurning hvort rétt sé að gera stjórnmálaflokkana að sérstökum blóraböggli fyrir meintan skort á hugmyndafræðilegri endurnýjun. Staðreyndin er sú að sumir stjórnmálaflokkar halda býsna vel utan um hugmynda- og málefnavinnu sína. Málefnastarf Sjálfstæðisflokksins fer til að mynda fram á landsfundum þar sem yfir þúsund flokksmenn ræða og kjósa um stefnu flokksins fyrir opnum tjöldum. Sérhver landsfundarfulltrúi hefur raunverulegt tækifæri til að láta rödd sína heyrast og koma hugmyndum sínum á framfæri og þannig hafa bein og milliliðalaus áhrif á stefnumótun öflugustu stjórnmálahreyfingar þjóðarinnar. Hægt er að fullyrða að þetta ferli á sér fáar, ef nokkrar, hliðstæður í heiminum.

En þótt stjórnmálaflokkarnir séu vissulega mikilsverður vettvangur pólitískra skoðanaskipta verður ekki framhjá því horft að raunveruleg endurnýjun og nýsköpun í hugmyndafræði á sér gjarnan rót meðal ungs fólks og stúdenta; hópa sem ekki eru bundnir á klafa þeirra hagsmuna sem gjarnan hafa mikil áhrif á þróun mála innan pólitískra flokka. Þannig hefur sú gróska sem er til staðar í háskólasamfélögum verið mikill drifkraftur framfara um heim allan. Krafan um breytingar í fjölmörgum ríkjum Afríku er til dæmis að mörgu leyti sprottinn frá ungu háskólafólki, það sama má segja um kröfur um mannréttindi í Kína og ekki má gleyma að mannréttindabarátta blökkumanna í Bandaríkjunum var nær eingöngu leidd af mjög ungu hugsjónafólki.

Hið sama hefur vissulega átt sér stað hér á landi þar sem háskólafólk og hópar ungs fólks hafa mótað stefnu og seinna barist fyrir henni á vettvangi landsmálanna. Þegar Kjartan Gunnarsson ritstýrði og gaf út Uppreisn frjálshyggjunnar árið 1979 voru fæstir höfundar í lykilstöðum fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Bókin skilgreindi hins vegar hugmyndafræðilega afstöðu höfunda gegn því forræðis- og fyrirgreiðsluþjóðfélagi sem þeir bjuggu í og varpaði fram hugmyndum til úrbóta. Það sem gerði gæfumuninn og markar þessari bók sérstakan sess í sögu þjóðarinnar er að höfundarnir fengu síðar tækifæri til að koma hugmyndum sínum í framkvæmd en þrír þeirra áttu eftir að verða formenn Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherrar og flestir þeirra komust í áhrifastöður í íslensku samfélagi.

Á þrjátíu árum hafa orðið miklar breytingar á þeim aðferðum sem notaðar eru í pólitísku og hugmyndafræðilegu starfi. Nú eru bækur á prenti ekki endilega sá vettvangur sem ungu fólki er tamast að nota. Í stað þess hefur mikla hugmyndafræðilega grósku verið að finna á Netinu og þar sem hefðbundnir fjölmiðlar hafa brugðist því hlutverki að gera nýjum stefnum og straumum skil hafa netmiðlar og blogg tekið upp þráðinn. Þar hefur ungt og kraftmikið fólk tækifæri til að koma fram með hugmyndir og gagnrýna viðteknar venjur og stefnur. Á þeim 10 árum sem Deiglan hefur verið starfrækt hefur hún verið gott dæmi um slíka gerjun. Þar hefur ungt fólk verið óhrætt við að koma með nýjar hugmyndir og gagnrýnt viðteknar venjur, bábiljur og stefnur.

Það er því engin ástæða til þess að óttast. Þvert á móti. Sífellt fleira fólk tekur þátt í þjóðmálaumræðunni með virkum hætti. Hlutverk stjórnmálaflokkanna og fjölmiðla er að tryggja að hugmyndafræðileg endurnýjun hafi eðlilegan farveg innan þeirra og geti streymt um stofnanir samfélagsins. Það versta sem stjórnmálaflokkar og fjölmiðlar geta gert er að hefta slíkt framstreymi hugmynda með því að standa vörð um gamaldags kreddur og bábiljur eða blindast um of af hversdagslegum hagsmunatengslum, og stífla þar með hinar nauðsynlegu uppsprettur nýrra hugmynda sem öllum samfélögum eru lífsnauðsynlegar.

Latest posts by Andri Óttarsson (see all)

Andri Óttarsson skrifar

Andri hóf að skrifa á Deigluna í mars 2001.