Grand uppsagnir í sjávarútvegi

Útgerðarfyrirtækið HB Grandi sagði upp öllu starfsfólki sínu á Akranesi fyrir um tveimur vikum síðan eins og mönnum er í fersku minni. Grandi fylgdi þarna í kjölfar annarra útgerðarfélaga sem hafa verið dugleg við að segja upp starfsfólki undanfarin misseri. Flest kenna þau um skerðingu á aflaheimildum þó svo að í sumum tilfellum telji menn um tylliástæðu að ræða.

Útgerðarfyrirtækið HB Grandi sagði upp öllu starfsfólki sínu á Akranesi fyrir um tveimur vikum síðan eins og mönnum er í fersku minni. Grandi fylgdi þarna í kjölfar annarra útgerðarfélaga sem hafa verið dugleg við að segja upp starfsfólki undanfarin misseri. Flest kenna þau um skerðingu á aflaheimildum þó svo að í sumum tilfellum telji menn um tylliástæðu að ræða. Uppsagnirnar hafi einungis verið tímaspursmál enda hráefnisvinnsla ekkert sérlega hagkvæm á Íslandi þar sem vinnuafl er dýrt.

Andstæðingar kvótakerfisins kenna kerfinu um uppsagnirnar þar sem aflaheimildir hafi safnast á of fáar hendur. Þó hugsanlega sé hægt að taka undir það að þetta hafi leitt til fækkunar í greininni þá er að sama skapi erfitt að taka undir að þetta sé af hinu slæma þegar á heildina er litið. Það er einfaldlega lykilatriði hagvaxtar í þjóðfélaginu að fá út sömu verðmæti en nota til þess færra starfsfólk en áður. Þetta skapar þá tækifæri til að framleiða verðmæti, af fólki sem missti vinnu vegna hagræðingar á öðrum sviðum, sem annars hefðu ekki orðið til.

Meðmælendur kvótakerfisins fagna framsali aflaheimilda því það leiðir til þess að sá sem getur veitt fiskinn á hagkvæmastan máta fær besta tækifærið til að gera það. Hins vegar má spyrja sig að því hvort þetta hagræði nái líka til vinnslu á afurðunum. Þ.e. hvort að sá sem sé bestur í að vinna fiskinn hverju sinni fái endilega tækifæri til þess. Það er t.a.m. ekki augljóst að sami aðili sé best til þess fallinn að veiða og verka.

Hugsanlega væri ráð fyrir útgerðir í landinu að skera betur á milli veiða og vinnslu og bjóða einfaldlega út vinnsluna hverju sinni. Með þessu yrði til markaður fyrir fá, stór og tæknivædd vinnslufyrirtæki á sjávarafurðum hér á Íslandi. Vandamálið væri þó að við þetta myndu störf væntanlega flytjast úr landi.

En þegar öllu er á botninn hvolft þá er þróunin í sjávarútvegi á Íslandi líklega nákvæmlega í þessa átt. Fiskvinnslufyrirtækjum mun fækka, aðallega af því þau geta treglega keppt við ódýrara vinnuafl erlendis. Ráð íslenskra fyrirtækja til að lifa af þessa þróun verður þá t.a.m. enn frekari tæknivæðing og virkt gæðaeftirlit með upprunavottorði.

Hvort að t.a.m. HB-Grandi hyggist fara með vinnslu sinna afurða meira og minna úr landi er erfitt að segja til um en ekki ólíklegt. Þó skal hafa í huga að í tilviki þess fyrirtækis þá gæti annað hangið á spýtunni. Forsvarsmenn þess voru nefnilega búnir að skipuleggja íbúðabyggð á reit fyrirtækisins vestur á Granda. Mögulegur hagnaður af sölu reitsins undir íbúðabyggð er umtalsverður. Faxaflóahafnir sem eiga lóðina neituðu þó beiðni HB-Granda um þennan gjörning enda eðlilegt í ljósi þess að um leigulóð er að ræða og því ætti mögulegur hagnaður af breyttu skipulagi að liggja hjá eiganda lóðarinnar.

En eftir uppsagnir HB-Granda á Akranesi um daginn virðist vera komið annað hljóð í strokkinn hjá Faxaflóahöfnum. Það er víst í skoðun núna að útvega Granda svæði á Akranesi undir starfsemi sína. Ef af því yrði að Grandi færi þangað má gera að því skóna að það fylgdi með í kaupunum að Grandi hagnað af breyttu skipulagi á lóðinni. Eflaust yrðu þá í framhaldi af slíku samkomulagi flestir þeirra sem misstu starfið á Akranesi um daginn ráðnir aftur.

Með þessu fengju í raun allir sitt nema kannski opinbera fyrirtækið Faxaflóahafnir sem væri notað til að búa til sátt í málinu á pólitískum forsendum. Grandi fengi þannig hagnað af væntri íbúðabyggð á Grandagarði, Akranesbær fengi vinnsluna aftur upp á Skaga og fiskverkunarfólk á Skaganum fengi vinnuna aftur. Það má hins vegar spyrja sig að því hvort það sé siðferðilega réttlætanlegt að spila með störf fjölda fólks í pólitískri baráttu við bæjarfélög og skipulagsyfirvöld. Virða skal þó sakleysi manna þar til annað kemur í ljós.

Latest posts by Þórður Heiðar Þórarinsson (see all)