Kaupa eða leigja?

Þessari spurningu hefur eflaust margt ungt fólk velt fyrir sér þegar það ákvað að fljúga úr hreiðri foreldra sinna. Það eru kostir og gallar við hvort tveggja og ástæða til að hugsa sig vel um. En finnst hinu opinbera að við eigum að velja annan kostinn frekar en hinn? Ætti hið opinbera að ýta okkur í aðra hvora áttina?

Þessari spurningu hefur eflaust margt ungt fólk velt fyrir sér þegar það ákvað að fljúga úr hreiðri foreldra sinna. Það eru kostir og gallar við hvort tveggja og ástæða til að hugsa sig vel um. En finnst hinu opinbera að við eigum að velja annan kostinn frekar en hinn? Ætti hið opinbera að ýta okkur í aðra hvora áttina?

Á Íslandi er eigin húsnæðiseign frekar almenn og leigumarkaðurinn frekar takmarkaður. Oft er litið á smæð leigumarkaðarins sem vandamál og stundum heyrist að hið opinbera eigi að reyna að efla hann. Efling leigumarkaðarins frá hinu opinbera þýðir í raun bara niðurgreiðslur á leigukostnaði umfram niðurgreiðslur á kostnaði við að búa í eigin húsnæði. Til þess að slíkt væri réttlætanlegt þyrftu að vera sameiginlegir þjóðfélagslegir hagsmunir af því að fólk ætti að leigja húsnæði frekar en að búa í því. Er tilfellið að svo sé?

Almennt er svarið við því: Nei.

Rannsóknir á þessari spurningu sýna þvert á móti jákvæð áhrif þess að fólk búi í eigin húsnæði. Það að búa í eigin húsnæði veitir hvata til betra viðhalds og til þess að bæta umhverfið í kringum heimilið. Fólk fjárfestir meira í umhverfi sínu, bæði fjárhagslega og félagslega. Þetta gerir fólk sem býr í eigin húsnæði frekar en leigjendur þar sem það sér fram á að búa á staðnum í lengri tíma og vill bæta hann, auk þess sem það hefur beinan fjárhagslegan hvata af því að öðrum finnist staðurinn eftirsóknarverður. Svona ytri áhrif eru æskileg og ætti frekar að hvetja til þeirra heldur en letja.

Á Íslandi er erfitt að finna sterk dæmi um áhrif svona hvata en erlendis er það auðveldara. Þar sem “fín” hverfi eru að stækka inn í “minna fín” hverfi geta þessir hvatar haft áhrif. Dæmi um þetta er Harlem-hverfið á Manhattan. Þar hefur lengi búið fátækur þjóðfélagshópur sem hefur upp til hópa leigt sínar íbúðir. Nú á síðustu árum er efnaðra fólk farið að vilja búa þar. Þetta ýtir upp húsnæðisverðinu og þar með leigu sem aftur þýðir að fátækir leigjendur standa frammi fyrir því að verða smám saman ýtt út úr hverfinu. Eftir því sem hverfið verður eftirsóknarverðara verður þessi þróun hraðari. Það er því að mörgu leyti í hag fátæku leigjendanna að reyna að gera hverfið verra, til þess að þeir fái að búa þar eitthvað áfram á ásættanlegu verði. Ef íbúarnir ættu sjálfir húsnæðið væri hins vegar annað uppi á teningnum. Þá hefðu þeir alla hagsmuni af því að bæta umhverfið og sjá verð íbúðanna sinna hækka.

Höfundur þessa pistils hefur svo sem ekki neinar sérstakar áhyggjur af samsvarandi ástandi á Íslandi en svona áhrif af minni skala gætu þó alveg sést. Eins og staðan er þá greiðir ríkið niður húsnæðiskostnað almennings, bæði vegna leigu og vegna eigin húsnæðis. Leigukostnaður er niðurgreiddur í gegnum húsaleigubætur og eigið húsnæði í gegnum vaxtabætur. Eins og áður hefur komið fram hér á Deiglunni eru niðurgreiðslur á húsnæði almennt ekki heppilegar en af ofansögðu sést að niðurgreiðslur á leigu eru sýnu óheppilegri en niðurgreiðslur eigin húsnæðis. Ríkið ætti frekar að hjálpa fólki við að komast í eigið húsnæði heldur en leiguhúsnæði.

Að sjálfsögðu eru ákveðnir hópar sem eru illa til þess fallnir að geta fengið lán til að kaupa eigið húsnæði, svo sem námsmenn og fólk sem býr við mjög slæmar félagslegar aðstæður. En mun eðlilegra er að skoða alla húsnæðisaðstoð við slíka hópa sem stuðning við þá á þeirra forsendum, þ.e. sem stuðning við námsmenn og félagslega aðstoð. Almennar niðurgreiðslur á húsaleigu eru ekki svarið.