Agi til að breyta rétt

Í september árið 2001 ritaði Þórlindur Kjartansson pistil á Deigluna undir yfirskriftinni Agi til að breyta rétt. Pistillinn er einn af bestu pistlum Þórlindar að mati ritstjórnar og fjallar hann um hvernig agaðir menn bregðast við undir þrýstingi yfirboðara eða einræðisherra. Þessi pistill er hollur lestur öllum þeim er láta réttlætið sig varða.

Ein ófrávíkjanlegasta regla hernaðar er sú að liðhlaupum og þeim sem ekki hlýða fyrirmælum er refsað ákaflega harðlega. Jafnvel með lífláti. Þetta er gert til þess að halda uppi aga því án hans verður allur hernaður ómögulegur og líklegt að hermenn muni skjóta sér undan því að sinna þeim lífshættulegu skyldum sem koma upp í styrjöld. Agi er því álitin vera einhver mesta dyggð hermannsins. Ég minnist þess í umfjöllun um síðari heimsstyrjöldina í menntaskóla að hinn mikli agi þýsku þjóðarinnar hafi komið þeim til góðs í stríðsrekstri sínum og væntanlega hefur meintur agi Þjóðverja einnig verið ákaflega gagnlegur í framkvæmd hinna voðalegu stríðsglæpa og þjóðarmorða. Agi hermannanna hefur væntanlega notið sín til fulls þegar þeir framfylgdu skipunum brjálaðra yfirmanna sinna og hlýddu hverjum fyrirmælum án skeytingar um eigin tilfinningar, réttlætiskennd, almenna skynsemi eða siðferði.

En er hið vélræna hugsunarleysi hins agaða hermanns dæmi um aga? Er skilvirkni þýsku þjóðarinnar við uppbyggingu hernarveldis síns fyrir síðari heimsstyrjöldina á einhvern hátt aðdáunarverð? Eða er blind hlýðni við yfirboðara hugsanlega dæmi um eitthvað allt annað? Hugsanlega hið gagnstæða? Þegar ég velti þessu fyrir mér í menntaskóla komst ég að þeirri niðurstaði að agi þjóðarinnar við að framfylgja skipunum og að ganga í takt væri einmitt merki um agaleysi – agaleysi hugans.

Þýskur hermaður að nafni Anton Schmid var fyrir rúmu ári sæmdur þeim heiðri að þýsk herstöð var nefnt eftir honum. Það sem er áhugavert við að Schimd hafi verið veittur þessi heiður er að hann sýndi það agaleysi að óhlýðnast yfirboðurum sínum og taka ekki þátt í þjóðarmorði á gyðingum. Hann kom nokkur hundruð gyðingum hins vegar til bjargar og galt hið endanlega verð fyrir agaleysi sitt. Hann var tekinn af lífi.

Hvor skyldi nú hafa meiri aga – hermaðurinn sem í skjóli þess að þurfa ekki að hugsa, ákvað að taka fremur þátt í viðurstyggilegum grimmdarverkum heldur en að taka afleiðingum þess að standa með réttlætinu – eða hinn sem fórnaði lífi í stað þess að taka þátt í grimmdarverkunum. Hvor er meiri hetja? Sá sem gerði skyldu sína fyrir ríkið og föðurlandið – eða sá sem sveik föðurlandið fyrir réttlætið?

Þjóðir sem gefa sig á vald brjáluðum einræðisherrum eru ekki agaðar þjóðir og menn sem hætta að taka ábyrgð á gjörðum sínum í nafni æðri hugsjóna eru ekki agaðir menn. Hvort tveggja er dæmi um vítaverðan skort á sjálfsaga. Sá, sem ekki hefur aga til þess að standa á sannfæringu sinni í stormi óréttlætisins en skýlir sér á bak við æðri hugsjónir eða ótta við refsingu ranglátra yfirvalda, verður ætíð eftirsóttur hjá þeim sem þurfa liðsinni til þess að framkvæma voðaverk og illvirki. Réttlætið þarf hins vegar á mönnum eins og Anton Schmid að halda og það er mikið gleðiefni að honum skuli vera sýndur heiður því það er mikilsvert að hermenn, og aðrir menn, sjái að mannkynssagan minnist þeirra sem ekki brugðust réttlætinu og sýndu hetjulund þegar mest á reyndi.

Þórlindur Kjartansson
03.09.2001

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Úrvalspistill (see all)