Deiglan í áratug

Þriðjudaginn 3. febrúar 1998 leit Deiglan dagsins ljós á veraldarvefnum. Áratugur er langur tími á þessum vettvangi en Deiglan hefur staðist tímans tönn sem kreddulaus málsvari frjálslyndra sjónarmiða og vettvangur fyrir upplýsta umræðu.

Eitt af spakmælum þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsche í þeirri ágætu bók Handan góðs og ills er á þá leið að sá sem nær markmiði sínu nær jafnan lengra en sem því nemur. Markmiðið með útgáfu Deiglunnar var upphaflega að svala tjáningarþörf og koma á framfæri skoðunum á þeim málum sem í deiglunni voru. Á þeim tíu árum sem í dag eru liðin frá því að Deiglan leit dagsins ljós hefur vefritið fest sig rækilega í sessi og útgáfa þess styrkist með hverjum degi sem líður. Í sókn að þessu markmiði hefur svo margt áunnist og í dag stendur Deiglan fyrir svo miklu meira en vefritið sjálft.

Tæplega eitthundrað manns standa að útgáfu Deiglunnar. Þessi hópur er í raun samfélag fólks sem deilir ákveðnum grundvallarhugmyndum um lífið og tilveruna. Deiglupennar sameinast um þá hugmyndafræði sem setur einstaklinginn í öndvegi, frelsi hans og mannréttindi andspænis ofríki, valdboði og forræðishyggju. Innan Deiglunnar rúmast þó margar og ólíkar skoðanir á ýmsum málum. Upplýst umræða og skoðanaskipti eru snar þáttur í eðli hennar. Deiglan er þannig kreddulaus málsvari frjálslyndra sjónarmiða.

Áratugur er langur tími í lífi vefrits. Þann 3. febrúar 1998 voru þeir yngstu af núverandi Deiglupennum rétt að ljúka við að læra margföldunartöfluna. Á þeim tíma var Deiglan uppfærð um 14,4 kB innhringisamband en það fyrirbæri er auðvitað með öllu óskiljanlegt yngstu kynslóð Deiglupenna. Það er merkileg staðreynd að Deiglan hefur alla tíð verið sjálfbær um öll tæknileg atriði á borð við vefsmíði og vefumsjón. Deiglupennar hafa í gegnum tíðina lagt vefritinu til þekkingu sína á þessu sviði og ómælda vinnu. Þetta óeigingjarna framlag lýsir ákaflega vel þeim hópi sem að Deiglunni stendur.

Deiglan hefur látið töluvert til sín taka í þjóðmálaumræðu hér á landi á síðustu árum. Fjölbreytni í efnistökum, stöðugleiki í útgáfu og metnaðarfull ritstjórnarstefna hefur skapað Deiglunni gott orðspor. Síðastliðinn áratug hafa mörg vefrit sprottið upp en flest þeirra hafa átt skamma ævi. Fyrir nokkrum árum var því spáð að tími vefritanna væri liðinn, bloggið hefði tekið við. Vöxtur Deiglunnar og þróttmikil útgáfa á allra síðustu misserum sýnir að þessi kenning stenst ekki – að minnsta kosti ekki hvað Deigluna varðar. Styrkur Deiglunnar er ekki síst fólginn í innri endurnýjun, nýtt fólk tekur við og lyftir merkinu enn hærra. Við höfum náð markminu og jafnframt lengra en sem því nemur.

Ég óska lesendum Deiglunnar og okkur Deiglupennum öllum til hamingju með tíu ára afmælið. Deiglan er orðin stór.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.