Karlrembufeminismi

Einn umtalaðasti og umdeildasti pistill í sögu Deiglunnar birtist fyrir nokkrum vikum. Þá gerði einni Deiglupenni tilraun til þess að vera fyndinn og gerði grín að frægum baráttumanni fyrir jafnrétti. En greinin byrjaði ekki að vera fyndin fyrir alvöru fyrr en pistlahöfundur í Lesbók Morgunblaðsins ákvað að túlka hana sem innlegg í jafnréttisumræðuna og höfundurinn gerðist óafvitandi merkisberi algjörlega nýrrar tegundar feminisma.

Það hefur um hríð háð umræðu um jafnréttismál að svo virðist sem ákaflega illt blóð hlaupi í allar slíkar umræður um leið og þær hefjast upp. Margir karlmenn fara umsvifalaust í vörn og margar konur ætla karlmönnum allar hinar verstu hvatir. Umræðan um jafnréttismál fer því gjarnan í þau hjólför sem við þekkjum flest úr daglegu lífi þegar samskipti ganga illa milli fólks. Hvert orð er túlkað á versta veg, rangur skilningur lagður í hver rök og allir gera hverjir öðrum upp hinar verstu hvatir. Hvert svar er skilið sem árás og hver gagnrök eru álitin útúrsnúningur. Fyrr en varir ákveða allir að best sé að snúa bara sem mest út úr af því hinn aðilinn muni hvort sem er ekki hlusta – og þá sé jafngott að reyna að koma á hann höggi. Svoleiðis ástand er vitaskuld ekki líklegt til þess að skila árangri – en þeir eru margir sem taka þátt í þessum leik. Og þeir koma úr ólíklegustu áttum.

Fyrir skömmu birtist á Deiglunni grein þar sem gert var grín að vefsíðu Sóleyjar Tómasdóttur. Fáir pistlar í sögu Deiglunnar hafa hlotið viðlíka viðtökur og þessi pistill og víst er að sitt sýndist hverjum um innihald hans og form. Pistillinn verður seint talinn til þeirra merkilegri í sögu Deiglunnar – var raunar á frekar lágu plani, enda ekki ætlaður til annars en stundargamans – og segja má með sanni að þar hafi verið gengið fullharkalega fram í tilraun til fyndni.

Húmorinn var enda óheflaður. Um svipað leyti sátu Sóley Tómasdóttir, og fleiri félagar hennar í Feministafélagi Íslands, undir alls kyns óhróðri, hótunum og smekkleysi frá misþroskuðum þátttakendum í þjóðmálaumræðunni á netinu. Það má því segja að það hafi verið að bera í bakkafullan lækinn að á Deiglunni væri gerði tilraun til fyndni á kostnað feministahreyfingarinnar. En það gerði einn pistlahöfunda samt.

Meðal þeirra sem gerðu greinina á Deiglunni að sérstökum skotspóni var Kristán B. Jónasson sem skrifar reglulega pistla í Lesbók Morgunblaðsins. Umfjöllun Kristjáns var með slíkum endemum að ekki er hægt að skilja hana nema að gefa sér þá forsendu að höfundurinn hafi mun meiri áhuga á því að skaða Deigluna, og almennt koma óorði á ungt hægrisinnað fólk, heldur en að vinna málstað jafnréttis nokkurt gagn.

Skrif Kristjáns í Lesbók Morgunblaðsins eru oft nokkuð skemmtileg, enda er Kristján óumdeildur hæfileikamaður og víðfróður. En trúarofsinn sem einkennir pólitíska umfjöllun hans er þó fremur leiðigjarn. Dæmi um þetta er umfjöllun hans um unga sjálfstæðismenn í ágúst. Þar segir hann um mótmæli SUS gegn birtingu álagningaskráa:

„Ódýr minnisibók hefur verið lögð fram á skattstofunni og á henni stendur „Gestabók fyrir snuðrara“ um leið og byltingarverðirnir voma á göngum eins og soltnir úlfar og mæna djöfullegu augnaráði á hverja aðvífandi hræðu.“

Maður með bókmenntavit og vitsmuni á borð við Kristján veit auðvitað mætavel hvaða stjórnmálahreyfingar í sögunni hafa notað slíkt orðbragð um þá sem eru á öndverðri skoðun. Enda leitar hann í áþekka smiðju myndmáls til þess að lýsa pólitískri velþóknun – eins og í pistli sem hann skrifaði 13. október eftir að meirihlutaskipti hin fyrri urðu í Reykjavíkurborg. Barnsleg aðdáun og kátína leynir sér ekki í niðurlagi pistilsins:

„Og nú er runninn upp nýr Dagur. Og líkt og morgunsólin sem skín á okkur Vesturbæingana kemur hann ofan úr Árbæ.“

Deigluna gerði Kristján að umfjöllunarefni 1. desember. Greinin sem Kristján kaus að fjalla um var samanafn af útúrsnúningi á ýmsu sem Sóley Tómasdóttir hafði sagt á vefsíðu sinni en niðurlag greinarinnar var þetta:

„Áður en ég skelli mér í Valhöll að horfa á grófar klámmyndir og borða fimm þúsund kalla með 100 ríkustu karlmönnum Íslands vil ég beina þeim tilmælum til Sóleyjar að slappa aðeins af.“

Kristján kaus að skilja þessa klásúlu, og greinina alla, sem raunverulegan vitnisburð um skoðanir höfundarins á málinu og dróg svo í ofanálag víðtækar ályktanir um Deigluna, og alla pistlahöfunda hennar, á grundvelli hans. Í myndatexta á síðunni var spurt: „Eru hinir vel menntuðu karlmenn sem skrifa á Deigluna.com metnaðarlausir?“ Og í niðurlagi greinar sinnar heldur hann því fram að lesa hafi mátt greinina sem sérstakt innlegg í jafnréttisumræðuna.

Svo var að sjálfsgöðu ekki. Greinin sem slitin var úr samhengi var spéspegill. Grín. Og hvað segir Kristján B. Jónasson núna um þá sem ekki kunna að taka gríni? Í nýjasta viðhorfspistlinum í Lesbókinni tekur hann til umfjöllunar grín Spaugstofunnar af nýjum borgarstjóra í Reykjavík. Honum finnst ekkert að því gríni – og það útskýrir hann í löngu og lærðu máli – en dregur svo eftirfarandi ályktun:

„Ofsakennd og vanstill viðbrögðin við föstuinngangsleik Spaugstofunnar sýna hve veik sjálfsmynd nýju borgarfurstanna er. Þeim var í lófa lagið að láta hylla sig sem þá sem standa uppi keikir þegar sprellinu lýkur.“

Þetta er áhugaverður femínismi hjá Kristjáni. Þegar gert er grín að femínista þá lítur hann á það sem stóralvarlegt mál og stekkur upp til varna með sínum eigin útúrsnúningum og alhæfinum. En þegar gert er grín að borgarstjóranum í Reykjavík og hann kvartar yfir því þá ályktar hann sem svo að veik sjálfsmynd valdi því?

En hvaða viðhorf til kvenna veldur þá viðbrögðum Kristjáns? Hefur hann svo lága mynd af konum að hann bregst við með sama hætti og hann átelur borgarstjóra fyrir að gera? Að minnsta kosti er það umhugsunarefni af hverju þessir tveir spéspeglar vekja svona óskaplega ólíkar kenndir hjá Kristjáni.

Fáum dettur í hug að kalla sig ójafnréttissinna. Slíkt væri fáránlegt. En menn deilir enn nokkuð um hver sé staða mála og hvað sé eðlilegt að gera. Um slíkt ætti að geta farið fram málefnaleg umræða. Það getur hins vegar varla talist annað en karlremba þegar karlmenn telja sig þurfa að taka slaginn fyrir konur svo þær nái bættri stöðu – í staðinn fyrir að taka hann með þeim til þess að allir séu metnir af verðleikum.

Mismunandi viðhorf fólks til jafnréttismála skýrist að nokkru leyti eftir því hvora af tveimur tegundum femínisma menn aðhyllast. Þær eru stundum kallaðar femínismi mismunar (feminism of difference) og feminismi jöfnuðar (feminism of equality). Fyrri gerðin krefst mikillar íhlutunar, reglna og kvótasetningar. Hin síðari gerir ráð fyrir að sanngjarnar reglur fyrir alla séu besta leiðin til að ná fram kynjajafnrétti. Fyrri gerðin gerir ráð fyrir að sjónarhorn kvenna og karla séu ólík og því þurfi fulltrúa beggja. Hin siðari gerir ráð fyrir að hver einstaklingur hafi fyrst og fremst sitt eigið sjónarhorn sem markist ekki aðallega af kyni.

Vera má að Kristján B. Jónasson hafi fundið upp nýja tegund femínisma -karlrembufemínisma, sem gerir ráð fyrir því að konur sem taki þátt í opinberri umræðu þurfi sérstaka vernd, en karlmennirnir megi þola hverjar þær svívirðingar sem að þeim er hent. Og að upphefð kvenna eigi fyrst og fremst að markast af því að þær standi í skjóli sterkra karla.

Lesbók Morgunblaðsins er að langstærstu leyti skrifuð af körlum og henni er ritstýrt af karlmanni. Þeir mega þó eiga það að þeir eru miklir jafnréttissinnar í orði – og í tilviki Kristjáns telja þeir sig þess umkomna að senda umvandanir í átt að Deiglunni. Hann kallar höfunda þar metnaðarlausa og skammar Deigluna fyrir afstöðu í jafnréttismálum. Hann ætti þá líklega að beina þeim umvöndunum sínum til tveggja ritstjóra Deiglunnar.

Latest posts by Þórlindur Kjartansson (see all)

Þórlindur Kjartansson skrifar

Þórlindur var fyrsti og lengi vel eini lesandi Deiglunnar. Hann hóf að skrifa á Deigluna í mars árið 2000.