Nýtt líf

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifaði fyrir rúmu ári síðan pistil um nauðsyn þess að Íslendingar taki opnum örmum á móti þeim einsaklingum sem hafa áhuga á því að setjast hér að. Þessi pistill er góð tenging í umræðuefni leiðara hennar í dag og fjallar um þau forréttindi að veita þeim sem ekki una sér í heimalandi sínu Nýtt líf.

Aðstæður í íslensku þjóðfélagi í dag eru að mörgu leyti eins og best verður á kosið. Ekkert atvinnuleysi, mikill hagvöxtur og gríðarleg kaupmáttaraukning heimilanna á undanförnum árum. Útlendingar sem hafa komið hingað til vinnu hafa skipað stóran sess í þessu hagvaxtar- og framfaraskeiði.

Hluti þeirra útlendinga sem koma hingað eru farandverkamenn, vinna meðan hér er vinnu að fá, en snúa svo aftur til síns heima. Fyrir tilstuðlan þeirra geta Íslendingar byggt sér hús, stækkað vinnustaði, byggt vegi og keyrt áfram heilbrigðiskerfið. Þeir eru launamenn sem líkt og aðrir greiða skatta og gjöld sem standa meðal annars undir velferðarkerfinu sem er öllum til hagsbóta.

Einnig eru þeir sem koma hingað til lengri tíma í von um að finna hér betri framtíð fyrir sig og sína. Vonir þeirra og þrár eru líkt og allra annarra að skapa sér og sínum mannsæmandi líf og framtíð. Og hví skyldu þeir ekki geta gert það, hafi þeir á annað borð þor og kjark til að sækja vinnu og nýtt líf í jafnfjarlægu og hrjóstugu landi og Íslandi.

Það þarf þó að huga að þeirri þjóðfélagsbreytingu sem hér er að eiga sér stað líkt og öllum öðrum þjóðfélagsbreytingum. Að sjálfsögðu er ekki hægt að segja að á Íslandi muni koma upp sömu aðstæður og á hinum Norðurlöndum eða annars staðar í Evrópu. Við vitum ekki frekar en nokkur annar hvað framtíðin ber í skauti sér. Auðvitað eigum við þó að skoða þau dæmi sem til eru í kringum okkur í von um að geta lært eitthvað.

Það sem við getum gert er að grípa til ákveðinna ráðstafana í von um að ekki verði til hér á landi fordómafullt samfélag þar sem fólk af erlendum uppruna verður einhvern veginn utangátta og lendir í lægri þjóðfélagsstiga en meðalmaðurinn. Þetta verður best tryggt með því að því verði gert kleift að verða hluti af samfélaginu. Það er ekki einungis á ábyrgð ríkisins að mennta-, heilbrigðis- og velferðarkerfið standi þeim opið líkt og öðrum heldur að gamlir Íslendingar taki þessum nýju Íslendingum rétt eins og hverjum öðrum nágranna.

deiglan@deiglan.com'
Latest posts by Úrvalspistill (see all)