Ivanov í Flatey

Baltasar Kormákur er þjóðþekktur einstaklingur, einn besti leikstjóri okkar tíma og hafa vinsældir hans verið mjög verðskuldaðar. Baltasar hefur enn á ný komið Íslendingum á óvart með tvíburaverki sínu, leiksýning og kvikmynd byggð á sömu sögu og gefið út á sama tíma, óhætt er að segja að honum hafi tekist vel með þetta verkefni.

Á köldum vetradögum er oft ekkert betra en að liggja upp í sófa með sængina upp að höku, kveikja á sjónvarpinu og horfa á eitthvað hugljúft og skemmtilegt. En hvað gerirðu þegar það er ekkert nema kuldi og snjór alla daga? Það er oft erfitt að finna hvað maður á að gera, en ef þig vantar eitthvað að gera í kvöld ég mæli eindregið með því að að skella þér á Brúðgumann í kvikmyndahúsi nálægt þér.

Brúðguminn er mynd byggð lauslega á Ivanov eftir Anton Tsjekhov, leikritið Ivanov var einmitt jólasýning Þjóðleikhúsins. Baltasar Kormákur er leikstjóri beggja verka og sami leikhópurinn er í báðum verkum. Þó að um sé að ræða sama grunninn eru verkin alls ekki eins og því er kjörið fyrir fólk að skella sér á bæði verk.

Handrit myndarinnar er eins og áður er sagt byggð lauslega á Ivanov en handritið hefur verið fært til nútímans og aðlagað að íslensku samfélagi. Myndin gerist nánast öll í pínulitlu samfélagi í Flatey, það er stórmerkilegt fyrir Reykvíkinginn mig að fylgjast með svona litlu samfélagi eins og kemur fram í myndinni. Samfélagið er samheldið og sjálfum sér nægt, fólk með sín eigin fyrirtæki og túrismi aðalfjármagnið. Eftir að hafa séð myndina gæti ég vel hugsað mér að eyða stundum úr lífi mínu í Flatey, eyjan er svo sannarlega náttúruperla.

Leikararnir eru ekki af verri endanum heldur eru Hilmir Snær, Ólafía Hrönn, Jóhann Sigurðsson, Ilmur Kristjánsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Ólafur Darri, Ólafur Egill og Þröstur Leó. Þessir leikarar hafa sýnt okkur Íslendingum aftur og aftur að þeir séu fremstir á meðal jafningja. Það er erfitt að draga einn leikara úr þessum hópi og hæla honum meira en næsta því í þessari mynd voru allir að skila frábærum árangri. Ljós allra skein alla myndina án þess þó að draga úr ljósi hvors annars.

Laufey Elíasdóttir er leikkona sem ekki margir kannast við en ég trúi ekki öðru en að eftir leik hennar í þessari mynd hafi hún stimplað sig inn í minni þjóðarinnar. Hún leikur stúlku frá Flatey sem hefur verið að stunda nám í Reykjavík en kemur heim í sumarfrí sem breytir lífi hennar til framtíðar. Laufey nær að sýna áhorfandanum inn í sál stúlkunnar sem er sárþjáð en gerir allt til að sýnast vera hamingjusöm, stúlka sem þráir það heitast að bjarga manninum sem hún elskar.

Allt við myndina er svo vel gert, lýsingin, umhverfið, leikurinn, handritið, leikstjórnin, myndatakan og allt hitt. Ég verð samt að minnast hversu frábært þetta handrit er, það dansar á línunni… maður er að fara að tárast yfir einhverju sem er svo sorglegt en svo kemur bara svo fyndin lína að þú getur ekki annað en öskrað úr hlátri. Baltasar og Ólafur Egill skrifuðu handritið og mega þeir vera mjög stoltir af þessari vinnu, það eru ekki margir sem ná að setja svo kallaða ,,one linera” inn í eins sorglega mynd.

Ég mæli með því að þú farir að sjá þessa mynd, hvort sem þú ert að leita þér að dramafylltu kvöldi eða þig langar að hlæja óstjórnlega þá er þetta myndin fyrir þig.

Næsta skref hjá mér er að skella mér í leikhús og sjá Ivanov.

Latest posts by Stefanía Sigurðardóttir (see all)

Stefanía Sigurðardóttir skrifar

Stella hóf að skrifa á Deigluna í nóvember 2004.