Meiri fagmennsku á Laugaveginn

Að kaupa húsin neðst á Laugavegi á tæpar 600 milljónir er nánast óafsakanlega dýr niðurstaða. Til að sagan endurtaki sig ekki aftur er nauðsynlegt að gera sér almennilega grein fyrir verkefninu, nálgast það skynsamlega, hafa alla með og vera ekki að reyna að spara pening í sérhæfðum mannskap fyrir verkefni sem þetta.

Ný borgarstjórn Reykjavíkur ákvað á sínum fyrsta fundi í síðustu viku að óska eftir því að kaupa upp eignirnar að Laugavegi 4 og 6 og Skólavörðustíg 1a af eignarhaldsfélaginu Kaupangi. Kaupin voru hluti af nýrri stefnu borgarstjórnar, að stefna að aukinni friðun bygginga með menningarsögulegt gildi á Laugaveginum.

Nýr borgarstjóri Reykvíkinga – Ólafur F. Magnússon – hefur í langa tíð barist fyrir aukinni friðun húsa við Laugaveginn. Hann stóð lengi vel einn gegn þeirri stefnu R-listans sáluga að leyfa töluvert niðurrif við Laugaveginn gegn stífari friðun annars staðar í gamla miðbænum, og var hluti af því sem menn töldu málamiðlun friðunar- og uppbyggingarsinna. Sjálfstæðisflokkurinn virtist vera á sama máli og R-listinn í þessu máli og vann með svipaða stefnu í tíð gamla-nýja meirihlutans frá 2006-7. Hægra og vinstra var á sama máli.

Í ljós hefur nú komið að rammaskipulag Laugavegarins var sennilega aldrei nein veruleg málamiðlun milli friðunar- og uppbyggingarsinna. Ef svo hefði verið þá hefði klúðrið – sem nú er orðið – aldrei gerst. Með raunverulegri málamiðlun hefði Húsafriðunarnefnd aldrei þurft að grípa til þeirra úrræða sem hún hefur nú gripið til. Einstaka sprellikarl hefði hugsanlega tuðað og barist áfram gegn niðurrifi, en ekki Húsafriðunarnefnd, skipuð af upplýstu, menntuðu og grandvöru fólki.

Það er erfitt að átta sig á af hverju rammaskipulagið komst svo langt sem það fór, miðað við þær röngu forsendur sem menn gáfu sér við vinnslu þess. Líklegast er að raddir kaupmanna og uppbyggingarsinna hafi kæft verulega rödd friðunarsinna á sínum tíma, enda e.t.v. skiljanlegt, þar sem verslun á Laugaveginum var sennilega í hvað mestri lægð upp úr 2000. Í dag hefur verslunin tekið við sér. „Mainstream“ verslanirnar hafa að vísu flestar farið – og koma líkega aldrei aftur – en í staðinn hefur Laugavegurinn náð að endurskilgreina sjálfan sig og sérhæfa sig. Með góðum árangri.

Mannlífið og verslanirnar þrífast því ágætlega á Laugaveginum, þó svo þorri höfuðborgarbúa leggi leið sína þangað sjaldan eða aldrei. Laugavegurinn er miðpunkur í latínuhverfi Reykjavíkur, en ekki Reykjavík sjálfri. Þessi staðreynd virðist einnig hafa þvælst fyrir mönnum í skipulagi Laugavegarins og er líklega hluti af klandrinu.

Að kaupa húsin neðst á Laugavegi á tæpar 600 milljónir (og þróa fyrir 400 milljónir í viðbót) er ekki bara klúður út af fyrir sig. Það er afleiðing af býsna löngu og margþættu klúðri. Ef Húsafriðunarnefnd – og áhugmenn um varðveislu gamalla húsa – hefðu fengið ámóta sterka rödd og uppbyggingarsinnar í vinnu við rammaskipulag Laugavegarins hefði aldrei verið farið út í að útbúa deiliskipulag út frá forsendum þess og þannig búið til hinn verðmæta byggingarrétt – sem gekk eins og eðlilegt er kaupum og sölum – og menn neyddust nú að kaupa til baka.

Það er vonandi að þetta sama klúður endurtaki sig ekki aftur á Laugaveginum. En verkefnið er erfitt. Búið er að samþykkja deiliskipulag á velflestum reitum við Laugaveginn og þar af leiðandi búið að búa til geysileg verðmæti á formi byggingarréttar. Heildarverðmæti hans nema sennilega nokkrum milljörðum, ef ekki tugum milljörðum króna, þegar tekið er mið af verðmiðanum á 4 og 6.

Til að borgin (eða ríki) komist hjá því að ausa úr buddu skattgreiðenda sinna, með þeim hætti sem gert var í síðustu viku, er nauðsynlegt að Húsafriðunarnefnd verði aktíft tekin með inn í endurskoðun á deiliskipulagi þeirra reita sem endurskoða þarf. Einnig þarf að taka eigendur reitanna aktíft inn í verkefnið og vinna með þeim af heilindum og krafti. Horfa þarf til þess hvernig ríki og borg geti styrkt uppbyggingarverkefni, sem framundan eru, þannig að haldið verði í menningarverðmætin, en jafnframt byggt upp og endurnýjað nokkurn veginn á þann hátt sem núverandi deiliskipulög gera ráð fyrir (aðallega magnið). Það er hins vegar útilokað að afturkalla allan byggingarrétt sem gefinn hefur verið út fyrir götuna. Það kostar gífurleg fjárútlát.

Það er síðan mjög æskilegt að reynt sé að vinna úr einhverri heildarmynd sem vit er í. Og í því samhengi mega menn ekki vera of kaþólskir á staðsetningu friðaðra húsa. Ef eitt hús hefur verndargildi, en er inniklemmt af þriggja hæða steypubyggingum, og tilheyrandi brunagöflum, þá má ekki útiloka að flytja það á betri stað og fylla í eyðuna. Líkt og gert var með góðum árangri með húsið að Aðalstræti 12 (Fiskimarkaðurinn, áður núðluhús) sem var áður við Austurstræti 8 (nú Thorvaldsens bar og skrifstofur Alþingis). Ef Húsafriðunarnefnd er of hörð á þessu hættir hún á að rýra verulega trúverðugleika sinn, enda aðilarnir á bak við Minjavernd – sem njóta mikils álits í endurgerð gamalla húsa – verið ófeimnir við að beita þessari aðferð. Þeir sem hafa eitthvað út á það að setja hafa lesið yfir sig af sögubókum eða legið of lengi yfir ljósmyndasafni Reykjavíkur og á augljóslega ekki að hlusta á of mikið.

En nú er verk að vinna. Vonandi hefur borgin þann mannskap sem hún þarf til að vinna þetta verk vel og vandlega, ekki síst í borgarskipulaginu. Þar er auðvelt að kasta krónunni fyrir aurinn ef reynt er að spara of mikið, eins og sannaðist í síðustu viku. Eyða í fagmennsku. Laugavegurinn og gamli miðbærinn eiga það skilið að í þá sé eytt pening. En á réttum forsendum og með skynsamlegum hætti.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.