Upphaf realisma sem kenningar innan alþjóðasamskipta má rekja til síðustu aldar, líkt og upphaf fræðigreinarinnar sjálfrar. Fylgismenn kenningarinnar halda því þó fram að uppruna þeirra hugmynda sem endurspeglast í realisma sé hægt að rekja enn lengra, til skrifa þeirra Þúkýdídesar, Machiavelli, Hobbes og Rousseau. Hægt er að líta á realisma sem mótsvar þeirra hugmynda sem endurspeglast í svokölluðum idealisma. Grunnforsenda þeirrar stefnu var að fólk ætti sameiginleg markmið eins og frið, velferð, heilsu og að stofnanir væru sköpunarverk mannanna, og ættu að geta uppfyllt þarfir þeirra. Idealisminn hafði jafnframt pólitískt markmið. Honum var ætlað að hafa áhrif á hugmyndir og gjörðir manna. Stefnan skoðar heiminn eins og hann ætti að vera og fellur því í flokk svokallaðra gildisvísinda (e. normative science). Realismi hefur hins vegar ekkert markmið í sjálfu sér, hann einkennist af pósitivisma, þ.e. leitast við að lýsa heiminn eins og hann er.
Sagnfræðingurinn E. H. Carr er iðulega nefndur sem upphafsmaður realismans innan alþjóðasamskipta en hann gagnrýndi idealismann í bók sinni The Twenty Years Crisis sem fyrst var gefin út árið 1939. Það er hins vegar Þjóðverjinn Hans Morgenthau sem fluttist til Bandaríkjanna fyrir seinna stríð sem talinn er hafa stuðlað mest að útbreiðslu kenningarinnar einkum og sér í lagi með bók sinni Politics among Nations sem fyrst var gefin út árið 1948. En í hverju fólst gagnrýni þessara manna? Carr vildi rannsaka alþjóðasamskipti eins og þau væru en ekki eins og þau ættu að vera. Hann vildi skoða staðreyndir og greina orsakir og afleiðingar þeirra. Hann kallaði eftir aðferðarfræði í líkingu við aðferðarfræði raunvísinda til að skoða alþjóðasamskipti. Morgenthau var sama sinnis.
Á uppgangstíma realismans geysaði kalt stríð milli tveggja vígvæddra stórvelda. Hafa verður þá staðreynd í huga þegar fjallað er um kenninguna. En um hvað snýst hún annars? Realisminn snýst í grófum dráttum um valdabaráttu fullvaldra ríkja í stjórnlausum heimi þar sem megintilgangur ríkja er að lifa af og tryggja öryggi sitt. Gengið er út frá því að ríki geti ekki treyst hvert öðru, ríki geti einungis stólað á sig sjálf. Vandamálin sem ríki standi frammi fyrir séu hernaðarlegs eðlis. Hápólitík (e. high politcs) svo sem stríð, öryggi og hernaðarvald sé umfjöllunarefni alþjóðasamskipta. Innan ríkja er friður, þar er skipulag ríkjandi og þar á sér stað framþróun. Það sem gerist innan þeirra er alþjóðamálum hins vegar óviðkomandi. Innanríkis- og utanríkismál eru því eins og svart og hvítt í heimi realismans. Lykilhugtök realismans eru sjálfsforræði, öryggi, valdajafnvægi, skynsemi og þjóðarhagsmunir. Markmiðið er ekki að stuðla að friði í sjálfu sér heldur valdajafnvægi sem leiðir til stöðugleika.
Taka verður fram að bent hefur verið á að realisminn er ekki ein samheldin stefna heldur hefur hann mörg afbrigði. Það eru hins vegar völd sem útgangspunktur sem gerir það að verkum að þessi afbrigði falla í sama flokk. Segja má að Morgenthau lýsi vel þessari valdahugsun í byrjun þriðja kafla bókar sinnar Politics among Nations. Þar staðhæfir hann að alþjóðastjórnmál, líkt og öll stjórnmál, séu barátta um völd. Jafnframt segir hann að hver svo sem endanlegur tilgangur alþjóðastjórnmála er, þá séu völd alltaf fyrsta markmiðið. Við endurútgáfu bókarinnar setti Morgenthau fram sex meginreglur realismans. Sú sem hefur einna mest verið gagnrýnd er sú að í stjórnmálum ríki hlutlægar reglur sem eigi rætur sínar í mannlegu eðli.
Erfitt er að fjalla um realismann án þess að víkja örfáum orðum að neo-realisma sem kom fram á sjónarsviðið í lok áttunda áratugar síðustu aldar. Kenningin var sett fram sem mótsvar við gagnrýnendum realismans. Helsti kennismiður neo-realismans var Bandaríkjamaðurinn Kenneth Waltz. Neo-realisminn víkur frá þeirri grunnhugmynd Morgenthau, að í stjórnmálum ríki hlutlægar reglur sem eigi rætur sínar í mannlegu eðli. Waltz hélt því fram að uppbygging alþjóðakerfisins sé lykilþáttur í mótun hegðunar ríkja. Lykilatriðið er að rannsaka uppbyggingu kerfisins og hverja og einstaka einingu (ríki) en ekki samskiptin á milli ríkja. Sú kenning hefur verið harðlega gagnrýnd líkt og realisminn.
Realisminn hefur verið gagnrýndur harðlega af mörgum og frá mismunandi sjónarhornum. Þeir fyrstu til að gagnrýna realismann voru svokallaðir behaviouralistar. Sú gagnrýni var fyrst og fremst aðferðarfræðileg. Þeir sem aðhylltust þá stefnu gagnrýndu m.a. grunnforsendu realismanns um að í stjórnmálum ríki hlutlægar reglur sem eigi rætur sínar í mannlegu eðli. Þeir gagnrýndu jafnframt að ekki væri hægt að skilgreina með hlutlægum hætti þrjú lykilhugtök realismans, völd, valdajafnvægi og þjóðarhagsmuni.
Plúralismi nefnist annar kenningarhópur sem gagnrýnt hefur realismann. Þeir sem aðhyllast hann fallast á að ríki séu mikilvægir gerendur í heimi alþjóðasamskiptanna en benda á þau séu ekki einu gerendurnir. Ríkjasamtök, svo sem Sameinuðu þjóðirnar og Evrópusambandið, eru dæmi um aðra gerendur. Alþjóðleg stórfyrirtæki svo sem IBM og svokölluð óháð félagasamtök (e. NGO´s) eins og Amnesty International spili einnig rullu. Plúralisminn bendir á að ekki sé hægt að líta á ríki sem einn geranda líkt og realisminn gerir. Það er ekki einungis hápólitík sem á að vera viðfangsrefni alþjóðasamskipta samkvæmt plúralismanum heldur einnig svokölluð lágpólitík (e. low politics), t.d. efnahags-, umhverfis- og félagsleg málefni. Plúralisminn gagnrýnir heimsmynd realismans. Fylgismenn plúralisma benda á að realisminn lítur ekki til alþjóðlegrar samvinnu svo sem innan vébanda Sameinuðu þjóðanna þegar fylgismenn hans tala um stjórnlaus alþjóðasamskipti fullvaldra ríkja. Jafnframt benda þeir á að stríð sé ekki það eina sem á sér stað milli ríkja. Ríki séu háð innbyrðis svo sem á sviði umhverfis- og efnahagsmála. Það sem gerist í einu ríki geti haft talsverð áhrif á annað, Chernobyl slysið hafði t.a.m. mikil áhrif utan Sovétríkjanna. Þeir sem aðhyllast plúralisma hafa komið með þá kenningu að alþjóðastjórnmál hafi skapað reglur um háttsemi ríkja. Margar af þessum reglum sé almennt viðurkenndar og iðulega sé farið eftir þeim. Hægt er að halda áfram að telja upp hvernig plúralisminn hefur gagnrýnt realismann, en það sem aðgreinir etv. plúralismann mest frá realismann þegar á heildina er litið er að sýn plúralismans er mun bjartari á alþjóðasamskipti en sýn realismans.
Annar kenningahópur sem gagnrýnt hefur realismann eru svokallaðar gagnrýnar kenningar (e. Critical Perspective). Hópurinn samanstendur af ýmsum straumum og stefnum sem hafa það sameiginlegt að standa fyrir utan kerfið og spyrja hvernig það hafi orðið til. Kenningarnar spyrja verufræðilegra spurninga eins og: „Hvernig komumst við að því sem við höldum að við vitum?“ Þessar kenningar reyna að skoða samhengi hlutana og sögulega þætti í alþjóðasamskiptum. Fjöldahreyfingar og stéttir eru gerendurnir samkvæmt kenningunum. Það er ekki stjórnleysi sem einkennir samskipti ríkja heldur er það stigveldi, stigveldi drottnandi ríkja og ríkja háðum þeim. Kenningarnar sjá efnahagsleg tengsl sem uppsprettu valds og hernaðarvald sem tæki til að drottna efnahagslega. Um gildisvísindi er að ræða; þeir sem aðhyllast kenningarnar ræða um heiminn eins og hann ætti að vera. Ólíkt realismann sjá sumir sem aðhyllast þessar kenningar framtíð fyrir sér þar sem hætt verði að notast við hernaðarvald og ríkjafyrirkomulag, heimsmynd þar sem stigveldi breytist í jafnræði og átök að samhljómi. Gagnrýnar kenningar bjóða upp á ummyndandi sýn, enduruppbyggingu frá rótum, sem hnattvæddar fjöldahreyfingar sjá um að koma í verk.
Hvað sem líður þessari gagnrýni á realismann virðist lítið hagga stöðu kenningarinnar innan alþjóðasamskiptanna. Sannleikskornið í kenningunni virðist vera of sterkt til að hægt sé að kaffæra kenningunni. Menn eins og prófessor Mearsheimer við Chicago háskóla o.fl. munu sjá til þess að realisminn lifi góðu lífi næstu áratugina og eiga svör við erfiðum álitaefnum.
- Fara fyrirætlanir E.C.A. Program gegn samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar? - 24. mars 2010
- …að vera eða vera ekki herloftfar… - 23. mars 2010
- Friðlýsingahugmyndir stangast á við hafréttarsamning SÞ - 19. maí 2009