Peningamaðurinn Romney

Þann 7. til 13. Janúar var Deiglan með bandaríska viku þar sem allir pistlar fjölluðu um forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. Vikan tókst með eindæmum vel og mun Deiglan halda áfram að fjalla um kosningabaráttuna fram að kjördegi í Bandaríkjunum. Í dag verður litið aðeins á feril Mitt Romneys áður en hann fór í stjórnmál.

Mitt Romney sigraði í forkosningum Repúblikanaflokksins í Michigan og galopnaði keppnina. Eins og bent hefur verið á þá á hann sand af seðlum sem hann notar óspart til þess að knýja áfram kosningabaráttuna. Hér verður litið aðeins í feril Romneys sem peningamanns.

Willard „Mitt“ Romney er oft kallaður frambjóðandi flokkseigendafélags Repúblikanaflokksins og fæddist sannarlega með gullskeið í munni. Faðir hans, George W. Romney, var stjórnarformaður American Motors, ríkisstjóri Michigan ríkis og barðist sjálfur um tilnefningu til þess að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins árið 1968.

Romney yngri hóf háskólanám sitt í háskólanum Brigham Young þar sem hann útskrifaðist með BA gráðu árið 1971. Þaðan hélt hann til Cambridge í Massachusets þar sem hann lærði lögfræði og viðskiptafræði við Harvard háskóla og útskrifaðist með gráður í báðum fögum árið 1975.

Romney hóf starfsferilinn sinn hjá ráðgjafafyrirtækinu Boston Consulting Group en færði sig árið 1977 um set og Bain & Co varð hans nýji vinnuveitandi. Á þeim tíma mættu flest ráðgjafafyrirtæki í heimsókn til fyrirtækja og skildu loks eftir mörg hundruð blaðsíðna skýrslur. Bain skilaði hinsvegar ekki einungis ráðgjöf heldur hélt sig við fyrirtækið þar til þau höfðu klárað að framkvæma ráðgjöfina. Romney stóð sig afburðavel hjá Bain og vann sig upp í stöðu framkvæmdarstjóra (e. Vice President).

Í kjölfar velgengninnar þá var Romney boðið að vera einn af stofnendum nýs fyrirtækis hjá Bain, Bain Capital sem átti að fjárfesta í litlum fyrirtækjum og fyrirtækjum í vandræðum og nota þær leiðir sem Bain & Co hafði þróað til þess að ná árangri í rekstri. Árangur Bain Capital var í einu orði sagt frábær þar sem fyrirtækið tvöfaldaði iðulega eignir sínar milli ára. Á meðal þeirra stærstu sigra var þegar þeir fjármögnuðu og studdu opnun á skrifstofuvöruversluninni Staples sem er 18 milljarða dollara fyrirtæki í dag.

Eignarhlutur Romneys gerði hann að forríkan en eignir hans eru metnar á bilinu 190 og 250 milljónir dollara eða 12 16 milljarða króna.

Næsta skref Romneys var þakið áhættu en hann ákvað árið 1999 að taka að sér umsjón á vetrarólympíuleikunum í Salt Lake City sem áttu að fara fram árið 2002. Fjárhagurinn var í rúst og orðspor ólympíunefndarinnar hafði hrapað í kjölfar spillingarmála. Romney tókst að endurskipuleggja starfsemina og leikarnir voru haldnir með miklum glæsibrag og skiluðu meira að segja hagnaði.

Romney tók þetta verkefni vafalaust að sér til þess að auka þekkingu almennings á persónu sinni og hann notaði sér velgengni leikanna til þess að vera kosinn ríkisstjóri Massachussets ríkis síðar á árinu 2002. Velgengni hans þar hefur svo skilað honum í baráttuna fyrir embætti forseta Bandaríkjanna. Hvað sem mönnum kann að sýnast um pólitískar skoðanir hans þá er ljóst að Mitt Romney er þaulvanur því að taka að sér verkefni og klára þau.

http://www.boston.com/news/politics/2008/specials/romney/articles/part3_main/

http://www.economist.com/world/na/displaystory.cfm?story_id=9441455

http://www.mittromney.com/Learn-About-Mitt/Mittxs_Biography

Latest posts by Óli Örn Eiríksson (see all)

Óli Örn Eiríksson skrifar

Óli Örn hóf að skrifa á Deigluna í september 2004.