Amerískur fótbolti 101

Forsetakosningar eru ekki það eina sem heldur Bandaríkjamönnum límdum við skjáinn þessa dagana því úrslitakeppni ameríska fótboltans fer fram nú á sunnudaginn. Pistill dagsins ætti að gera lesendum kleift að njóta úrslitakeppninnar með bros á vör. Hér á eftir fer fram kynning á íþróttinni, liðunum og þeim litríku karakterum sem eiga í hlut.

Forsetakosningar eru ekki það eina sem heldur Bandaríkjamönnum límdum við skjáinn þessa dagana því úrslitakeppni ameríska fótboltans fer fram nú á sunnudaginn. Pistill dagsins ætti að gera lesendum kleift að njóta úrslitakeppninnar með bros á vör. Hér á eftir fer fram kynning á íþróttinni, liðunum og þeim litríku karakterum sem eiga í hlut.

Í grunninn er amerískur fótbolti einföld íþrótt. Markmið leiksins er að komast tíu metra áfram og hefur hvort liðið þrjár tilraunir til þess hverju sinni. Takist það ekki í þremur tilraunum er boltanum sparkað yfir til hins liðsins sem fær þá að spreyta sig. Í hvert skipti sem liðinu tekst að komast tíu metra áfram, yfir gulu línuna, fær það tækifæri til að reyna aftur við næstu tíu metra. Þannig fikra liðin sig fram völlinn.

Ef sóknarliðið kemst að endamarki og leikmaður komst þamgað með boltann í höndunum fæst svokallað snertimark og fyrir það eru gefin sex stig. Eftir snertimark er boðið upp á hið skemmtilega aukastig, þar sem sóknarliðið reynir að sparka boltanum milli stanganna af stuttu færi og fyrir það fæst eitt stig. Ef illa gengur að fikra sig fram völlinn getur sóknarliðið reynt að sparka boltanum milli stanganna af löngu færi, til að ná svokölluðu vallarmarki og fyrir það eru gefin þrjú stig.

Rétt er að vara við því að þessum einföldu reglum fylgja margar fleiri flóknari reglur. Taka skal þó fram að þær reglur skilur enginn almennilega, enda þarf fjöldann allan af dómurum til að dæma einn slíkan leik. Einfaldasta lausnin er að hlusta bara á lýsendur leiksins eftir útskýringum og treysta því að þeir séu vel með á nótunum. Hvort lýsendurnir séu með þetta á hreinu er þó alls óvíst.

Í ár mætast fjögur lið í undanúrslitum. Fyrst ber að nefna sigurstranglegasta lið undanúrslitanna, New England Patriots. Þeirra lið leiðir Tom Brady, einn traustasti leikstjórnandi deildarinnar í dag. Hann kom óvænt inn í lið Patriots fyrir sjö árum síðan eftir að þáverandi leikstjórandi liðsins lenti í harkalegum árekstri við mótherja sinn. Hann hefur haldið leikstjórnandahlutverkinu síðan og unnið úrslitakeppnina þrisvar sinnum síðustu ár. Ekki nóg með að sigra á vellinum heldur gerir hann það gott utan hans einnig, því fréttir herma að hann sé að slá sér upp með brasilísku ofurfyrirsætunni Gisele Bundchen.

Liðið sem mætir New England í undanúrslitum nefnist San Diego Chargers. Þeir slógu óvænt út eitt sterkasta lið deildarinnar í síðasta leik og þykja til alls líklegir. Sigurinn var þó dýrkeyptur því leikstjórnandi liðsins, Phil Rivers, varð fyrir meiðslum í leiknum en ólíklegt er að hann láti sig vanta í leik helgarinnar. Mikið mun reyna á hlaupara Chargers, Ladainian Tomlinson, en hann er sá hlaupari sem hlaupið hefur mest með boltann í deildinni síðustu tvö ár.

Í hini rimmu undanúrslitakeppninnar mætast Green Bay Packers og New York Giants. Gamla kempan Brett Favre leiðir lið Green Bay nú sem fyrr og kom öllum á óvart með glæsilegri frammistöðu á þessu tímabili. Eftir rólegt tímabil á síðasta ári héldu menn að nú væri kominn tími fyrir Favre til að hætta enda maðurinn orðinn 38 ára. Favre hélt nú ekki og spilaði betur en nokkru sinni fyrr og dróg liðið með sér í úrslitakeppnina. Hann hefur sett flest met sem leikstjórnandi getur sett enda búinn að spila í deildinni í 17 ár.

Flestir voru búnir að afskrifa New York Giants fyrir löngu síðan. Þeir tóku sig hins vegar til og sigruðu sterkt lið Dallas Cowboys á útivelli um síðustu helgi öllum að óvörum. Sigurinn um helgina var sérstaklega sætur fyrir leikstjórnanda Giants, Eli Manning, því með honum náði hann loksins að stíga fram úr skugga eldri bróður síns, Peyton Manning, sem hefur verið einn aðalleikstjórnandi deildarinnar síðustu ár. Sá hafði einmitt tapað fyrir San Diego kvöldið áður. Nú reynir á yngri bróðurinn, hvort honum tekst að halda uppi nafni fjölskyldunnar og sanna sig enn frekar.

Undanúrslitin hefjast á sunnudaginn næstkomandi. Leikur Patriots og Chargers hefst kl.20 og leikur Giants og Packers kl.23.30 og eru leikirnir sýndir beint á Sýn. Rétt er að taka fram að mikið er um leikhlé í amerískum fótbolta og því er ekki verra að hafa góða bók við hönd meðan á leik stendur.