Véfréttin í Reykjavík

Greiningardeildir hafa farið hamförum í tímamótaspágerð um þróun íslenska hlutabréfamarkaðarins.

Greiningardeildar íslensku bankanna eru meðal þeirra sem eru tilnefndar til Nóbelsverðlauna í hagfræði á þessu ári. Ástæða tilnefningarinnar er ótrúlegt innsæi á innlenda hlutabréfamarkaði og ekki síst árangursrík væntingastýring almennings.

Ekki hefur farið fram hjá neinum að nokkurra vandræða hefur gætt á alþjóðlegum fjármálamörkuðum vegna vanskila bandarískra lántakenda á svokölluðum undirmálslánum. Ákaflega fáir bjuggust við þeim hræringum sem nú ganga yfir – sem réttlætir vissulega draumkenndar spár greiningardeildanna framan af sumri. Í núverandi aðstæðum, þar sem markaðir lækka miskunnarlaust, reynir þó virkilega á spádómsgáfuna.

Greiningardeildar hafa sýnt mikið innsæi að undanförnu. Í spá einnar þeirrar um daginn stóð að markaðir myndu að öllum líkindum fara upp, en síðan niður, en loks mögulega upp aftur á næstu mánuðum. „Við reiknum með miklum sveiflum á mörkuðum þar til öll kurl bandarísku húsnæðislánavandræðanna eru komin til grafar,“ segir í spá einnar greiningardeildarinnar. Sannkölluð véfrétt þar á ferð.

Í ljósi mikils stöðugleika verðbréfamarkaða hingað til hlýtur það að teljast til nokkurra tíðinda að sérfræðingar greiningardeildanna sjái fram á sveiflur. Jákvæðnin er þó aldrei langt undan – aðeins er um tímabundna skammtímaerfiðleika að ræða og innan tíðar verður allt gott á ný. Fjármálasérfræðingar greiningardeildanna hafa í það minnsta í ræðu og riti haldið því fram.

Ætti kannski frekar að tilnefna þá til Óskarsverðlaunanna?

thorlindur@deiglan.com'
Latest posts by Flugufóturinn (see all)