Góðar jólakveðjur

Það er fátt sem gleður meira á jólum en gott jólakort frá góðum vinum eða fjölskyldumeðlimum sem ekki hefur heyrst í lengri tíma. Oft á tíðum er þetta eina sambandið sem maður hefur við viðkomandi á árinu, en með kortinu berast fréttir að allt sé í góðu lagi. Jólakorta kveðjan er góð hefð þótt ekki séu allir jafn áhugasamir um að senda kort eða persónulegar kveðjur.

Það er fátt sem gleður meira á jólum en gott jólakort frá góðum vinum eða fjölskyldumeðlimum sem ekki hefur heyrst í lengri tíma. Oft á tíðum er þetta eina sambandið sem maður hefur við viðkomandi á árinu, en með kortinu berast fréttir að allt sé í góðu lagi.

Auðvitað eru ekki allir fyrir jólakort, en almennt þá eru jólakortin send gagkvæmt. Fáir senda ár eftir ár jólakort til þeirra sem hafa ekki áhuga á að fá jólakort og vilja ekki senda. Nema þá fjarskildar frænkur sem gera það af skyldu og svo fjöldajólakort fyrirtækja.

Þrátt fyrir tilkomu netsins hefur netið ekki tekið við jólakveðjum nema að litlu leiti. Flestir vilja senda kveðjuna á pappírsformi ef þeir gera það á annað borð. Hins vegar hefur tæknin gert það að verkum að margir nýta sér prenttæknina , oft með þeim galla að allir á listanum fá samskonar jólakort og með sömu kveðju. Reyndar hefur það verið að breytast undanfarið, en samt vantar persónuleikann í slík kort.

Stjórnmálamenn hafa nýtt sér jólakortin í miklum mæli, margir virðast senda út þúsundir jólakorta á fólk sem þeir hafa aldrei hitt. Alþingismenn virðast duglegir að nýta sér heimildir alþingis til að senda út þessi kort, og með þeim fylgja jafnvel helstu afrekaskrár viðkomandi. Hitt er annað mál að jólakort sem eru send út á þennan máta vekja oft litla lukku, það að fá fjölritað kort frá einhverjum sem þú þekkir ekki neitt, ert ekki í sama flokk eða hefur nokkurn tíman kosið er oftast ekki mjög vinsælt.

Nýjasta tíska bæði stjórnmálamanna og fyrirtækja virðist vera að senda ekki út nein jólakort heldur gefa andvirðið til ákveðins góðs málefnis. Um leið og það er jákvætt að gefa peninga til góðra málefna, þá er í raun óskiljanlegt af hverju menn eru að tengja þetta sérstaklega við það að sleppa því að senda jólakort. Þurfa menn að fórna einhverju ákveðnu til að finna það hjá sjálfum sér að gefa í góð málefni? Ef svo er, af hverju eru það bara jólakortin sem verða fyrir barðinu á gjafmildinu? Líklega er fyrst og fremst um þægindi að ræða, í staðinn sleppa fyrirtækin við að eyða tímanum í að skrifa kortin og öðru umstangi í kringum þau.

Auðvitað er best að senda persónuleg handskrifuð kort, jafnvel með lítilli kveðju. Jafnvel með mynd af börnum og fjölskyldu. Þannig kort vekja að jafnaði meiri ánægju en fjölrituðu pappírskortin.

Þau virka bara best.

Að lokum óska ég öllum gleðilegra jóla, nema þeirra sem ég sendi jólakort og hafa ekki sent mér á móti. Megi þeir fara í jólakortaköttinn. Enn eru nokkrir tímar til að bjarga sér og keyra kortin heim.

Latest posts by Tómas Hafliðason (see all)

Tómas Hafliðason skrifar

Höfundur hefur skrifað á Deigluna frá árinu 2002. Höfundur er verkfræðingur frá Háskóla Íslands og rekur eigið fyrirtæki.