Það á að gefa börnum brauð

Jólin hafa mikil áhrif á fólk hvort sem það trúir á Jesú Krist eða ekki og þau setja okkur oft í samband við raunveruleika sem við að öllu jöfnu leiðum hjá okkur eða kjósum að hugsa ekki allt of mikið um.

Allir þekkja hið gamla og góða íslenska þjóðlag „Það á að gefa börnum brauð“ þar sem sungið er um jólahátíðina og að börnin eigi skilið það besta í mat sem völ er á, ný klæði, ljós og að þau þurfi ekki að óttast dauða grýlu.

Fyrir rúmum hundrað árum voru flestir Íslendingar fátæklingar sem höfðu úr litlu að moða og þurftu að gera sér gott úr því sem í boði var. Þá var brauð aðeins á boðstólum á jólunum, kerti voru munaðarvara og á spil gátu menn spilað og unað sér á dimmum desemberkvöldum.

Fyrir fimmtíu árum síðan, þegar móðir mín var barn voru aðstæður líka mjög ólíkar því sem eigum að venjast í dag. Á hennar heimili kom ekki rafmagn fyrr en 1959 og þá voru það epli og pípureykur sem færðu jólastemmningu í hús foreldra móður minnar. Öll börnin fengu bók að gjöf frá foreldrum sínum og leikföng voru sjaldgæfar gjafir. Íburður jólahaldsins var ekki eins og við erum í dag orðin vön en hátíðlegt var það engu að síður og hefur móðir mín örugglega upplifað sín barnajól á mjög svipaðan hátt og ég upplifði mín barnajól tuttugu og fimm árum síðar.

Mér þykir enn þann dag í dag mjög vænt um jólagjafirnar sem ég fékk frá móðurömmu minni á seinnihluta áttunda áratugarins og langt fram á þann níunda. Iðulega var að finna í pakkanum heimaprjónaðar flíkur á borð við ullargammósíur, ullarboli, ullarsokka eða ullarvettlinga. Allt listilega vel gert af þessari góðu ömmu minni sem var þekkt fyrir svo vönduð vinnubrögð að varla var hægt að gera greinarmun á réttu og röngu á flíkinni. Oft var líka lítið leikfang, spilastokkur eða einhver handavinna, sem keypt var á basar kvennfélagsins í heimabyggð ömmu, með í pakkanum. Svo gat ég alltaf treyst því að með fylgdi heilt stykki af Sírius rjómasúkkulaði, það var algjör hátíð fyrir litla stelpu. Ég hugsa að mörg börn í dag kynnu ekki að meta slíkar gjafir.

Á örfáum áratugum hefur orðið gríðarleg breyting á jólahaldi Íslendinga og þarf ekki að fara mörgum orðum um þær kröfur sem gerðar eru í dag og nóg að segja að við förum algjörlega fram úr okkur í að gera vel við fjölskyludu, vini og ættingja hvort sem er í mat, gjöfum, fatnaði eða öðrum tilburðum.

Þrátt fyrir þetta þá hafa jólin mikil áhrif á fólk hvort sem það trúir á Jesú Krist eða ekki og þau setja okkur oft í samband við raunveruleika sem við að öllu jöfnu leiðum hjá okkur eða kjósum að hugsa ekki allt of mikið um. Stríð, hungursneyðir, sjúkdómar og fátækt er víða í heiminum í dag og finnst líka meðal náunga okkar.

Margir hafa að undanförnu gert mikið úr sárri neyð þeirra einstaklinga á Íslandi sem þurfa að lifa af á litlum tekjum og það er nauðsynlegt að við skorumst aldrei undan því að aðstoða þá sem minnst mega sín og njóta ekki sömu tækifæra til að skapa sér velferð eins og aðrir einstaklingar.

Það eru gleðilegar fréttir að í ár óskuðu mun færri fjölskyldur eftir matargjöfum hjá velgjörðarstofnunum fyrir jólin eða um 150 fjölskyldum færra en í fyrra og færri en síðustu þrjú ár. Það er sannarlega mælikvarði sem taka má mark á og vísbending um að hagsældin og velgengnin í þjóðfélaginu sé að skila sér til þeirra sem minnst hafa.

Við megum vera þakklát fyrir að í dag er Ísland talin ríkust þjóða í heimi og við getum leyft okkur ýmislegt sem óheyrt var áður. Við erum svo heppin að geta gefið öðrum gjafir og styrkt þá sem þurfa á aðstoð að halda. Það er líka ánægulegt að Íslendingar skari fram úr meðal annarra þjóða þegar kemur að því að styrkja bágstödd börn í heiminum og á Rás 2 mátti heyra nú nýlega fyrir jólin að Unicef á Íslandi státar af hæstu hlutfallstölu heimsforeldra miðað við höfðatölu.

Það er gott að vita til þess að við séum reiðubúin að hjálpa fátækum með smávægilegum peningagjöfum í hverjum mánuði en það er aldrei of oft minnt á það að góðmennska og kærleikur við næsta mann kostar ekki neitt og af honum getum við gefið á hverjum degi.

Deiglan sendir bestu óskir um gleðileg jól og von um að þið fáið notið hátíðarinnar í kærleik og friði.

Latest posts by Soffía Kristín Þórðardóttir (see all)

Soffía Kristín Þórðardóttir skrifar

Soffía hóf skrif á Deigluna í apríl 2001.