Bókasafn dauðans

Eitt af þeim samfélagslegu vandamálum sem kom upp á yfirborðið í vikunni er sú staðreynd að íslenskir unglingar svindli sér inn á Þjóðarbókhlöðuna til að lesa þar í óleyfi. Uss, æskan í dag!

Eitt af þeim samfélagslegu vandamálum sem kom upp á yfirborðið í vikunni er sú staðreynd að íslenskir unglingar svindli sér inn á Þjóðarbókhlöðuna til að lesa þar í óleyfi. Uss, æskan í dag!

Fjallað var um þetta hræðilega vandamál í blaðinu 24 stundum seinasta miðvikudag. Í kaflanum á eftir undirfyrirsögninni „Aldurstakmark 18 ár“ segir að framhaldskólanemendur sæki í auknum mæli í Bókhlöðuna yfir prófatímann og að það veki misjafna kátínu stúdenta. Einn starfsmaður bókasafnsins segir að að það komi fyrir að starfslið Bókhlöðunnar þurfi að stugga við ungu fólki sem leggur undir sig lesrými með látum og tali. Þau séu þá stundum beðinn um að sýna skilríki og „viti þá upp á sig sökina“ og fari sjálfviljug.

Þessi saga sýnir enn og aftur hvílíka vitleysu börn, unglingar, framhaldsskólanemendur og allt ungt fólk þurfa að lifa við á hverjum degi. Auðvitað ættu allir sem eru til friðs fyrir öðrum að fá sjálfir að vera til friðs á landsbókasafni. En til að auðvelda sjálfum sér sönnunarbyrðina hafa starfsmenn Þjóðarbókhlöðunnar ákveðið dónaskapur og læti endi sjálfkrafa við 18 ára aldur. Það er nefnilega talsvert auðveldara að sanna þann dónaskap, dónaskapinn sem felst einungis í því að vera yngri en 18 ára, heldur en dónaskapinn sem felst í því að tala of hátt. Eins og skandifasistarnir í VR og Akureyrabæ þá bannar Þjóðarbókhlaðan dónalegan aldur fremur en dónalega hegðun.

Í lögum og reglum um Landsbókasafn verður varla séð að Þjóðarbókhlaðan hafi yfir höfuð heimild til að setja slík aldursmörk. Það verður heldur engan veginn séð að þessa ráðahögum samræmist almennum hugmyndum um hvenær sé rétt að setja aldursmörk. Aldursmörk á að setja til að vernda börn og unglinga, en ekki til að vernda aðra frá því að þurfa að rekast á börn og unglinga, eins og sumir í þjóðfélaginu virðast vera farnir að halda.

Líklegast er undirritaður einn af þeim sem ber einhverja á abyrgð á því að þessi aldursmörk voru sett, en hann notaði safnið stíft þegar hann var enn á unglingsaldri. Vitanlega fór það því mjög fyrir brjóstið á honum þegar að 17 ára aldurstakmark var sett í safninu og var þá haft samband við Umboðsmann barna og vælt. Eitthvað hefur barátta umboðsmannsins gengið brösulega því nú, rúmum áratug síðar, er búið að hækka aldurstakmarkið um eitt ár til viðbótar. Við búum sem sagt í landi þar sem börnum er meinaður aðgangur að bókasöfnum. Til hamingju Ísland, ég fæddist (reyndar ekki) hér.

Ef ungt fólk er ósátt við aldurstakmarkanir hefur það tvennt til ráða, erfiða leiðin er að fara í erfiða baráttu gegn kerfinu og láta sjálfumglatt, fullorðið fólk hæðast að sér. Hin leiðin er einfaldlega að eldast. Flest okkar velja seinni leiðina og gleyma fljótt því ranglæti sem á okkur dundi. En dæmin frá því á Akureyri í sumar sýna að hatri á ungu fólki, í sífellt víðari skilningu, virðast engin takmörk sett. Hvað næst? „Nei, vinur. Þessi mynd er bönnuð innan þrjátíu.“ Nei, ég viðurkenni að það er nú dálítið fáranlegt dæmi. Álíka fáranlegt að banna fólki undir átján ára að fara inn á bókasafn til að lesa.

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.