Skynsemina í forgang á Hellisheiði

Eftir að einn reyndasti vegaverkfræðingur landsins ásamt formanni Umferðarráðs taka afstöðu með 2+1 lausn á Suðurlands- og Vesturlandsvegi er vonandi að vindbelgdir stjórnmálamenn Sunnlendinga sem og samgönguráðherra láti öryggissjónarmiðin stýra ferð, fremur en byggðapólitík og atkvæðaveiðar, og Vegagerðin fái leyfi til að bjóða út framkvæmdina. Ef ekki, þarf samfélagið að kosta til fjölda annarra mannslífa á árum komandi. Það er óviðunandi.

Eftir mikla slysahrinu á Suðurlandsvegi fyrir rúmu ári síðan er eins og ákveðin móðursýki hafi gripið landann. Mjög sorglegt banaslys, þar sem barnung stúlka og ungur maður létu lífið í árekstri við bíl úr gagnstæðri átt rak smiðshöggið. Í kjölfarið fór af stað hrina undirskriftarlista sem krafði yfirvöld um tafarlausa tvöföldun Suðurlandsvegar.

Skömmu fyrir þessa slysahrinu tók Vegagerðin í notkun svokallaða 2+1 lausn með vírleiðara á nýjum vegakafla Suðurlandsvegarins í Svínahrauni. Lausn, sem ekki uppfyllir þó kröfu sænska vegstaðalsins um slíka vegi, þar sem ákvörðun (þáverandi samgönguráðherra, eftir langvarandi þrýsting Vegagerðarinnar) um að setja skyldi upp vírleiðara milli akbrautanna kom ekki fyrr en framkvæmdir voru vel á veg komnar. Því var brugðið á það ráð að ganga á vegaxlir vegarins til að rýma fyrir vírleiðaranum.

Svo virðist sem að sú aðgerð hafi valdið megnri óánægju meðal notenda vegarins með þessa útfærslu. Ökumenn upplifðu umhverfi sitt þröngt og athafnarýmið skert. Lausn Vegagerðarinnar fékk því þann stimpil að um væri að ræða einhvers konar húmbúkk og hálfgildingslausn. Nú þyrfti að rífa upp metnaðarleysið og tvöfalda veginn hið snarasta. Ekki bætti úr skák að fram á völlinn geystist tryggingarfélag eitt sem bauðst til að tvöfalda veginn í einkaframkvæmd og á miklu ódýrari hátt en Vegagerðin! Sannkallaðir töframenn þar á ferð.

En á það var bent t.a.m. í pistli hér á Deiglunni að með því væri verið að gera tvenn mistök ofan í þau að líta á veginn í Svínahrauni sem staðlaða útgáfu af 2+1 útfærslu.

Í fyrsta lagi væri 2+1 lausnin hreint engin hálfgildingslausn, heldur heildarlausn til að ná fram sambærilegu umferðaröryggi á tiltölulega umferðarlitlum vegum án þess að fara í fulla tvöföldun. Eitthvað sem Svíar hafa undirbúið öðrum fremur í mörg ár, og beita nú af miklum móði. Þótt við Íslendingar getum vel litið stórt á okkur, þá er það staðreynd að umferð um Suðurlands- og Vesturlandsveg er frekar í flokki með bæverskum sveitavegum en Autobahn Frankfurt – Hamborg, a.m.k. næstu áratugina (jafnvel þrátt fyrir metnaðarfulla uppbyggingu á Suðurlandi).

Í öðru lagi að það væri eitthvað til sem héti „hið snarasta“ í heimi vegagerðar. Tvöföldun vegarins hefði kallað á umhverfismat og bæði lengri hönnunar-, fjármögnunar-, og framkvæmdatíma. Rögnvaldur Jónsson, einn reyndasti vegaverkfræðingur landsins, metur tafirnar í sex árum og 15 milljörðum króna. Á þessum sex árum þarf samfélagið síðan að kosta til nokkrum mannslífum í viðbót, með tilheyrandi andlegum og efnislegum kostnaði.

Í hugmyndum Sjóvár um skuggagjaldsleið og „tvöföldun á mettíma“ felst engin ölmusa eða fjármögnun út fyrir vasa skattgreiðenda. Allt skal koma úr ríkissjóði. Og til að ná niður kostnaði leggur hún til hringtorg á flestum gatnamótum! Er þessum mönnum alvara?!

Mótorhjólasamtök mása einnig mikið gegn aðskilnaði akbrauta með vírleiðurum og byggja á órökstuddri tilgátu um að slík tegund sé hættulegri en aðrar. Staðreyndin er sú að flestum rannsóknum ber saman um að það eru fyrst og fremst staurarnir sem skaði mótorhjólamenn, fremur er vírar eða stálborð. Er e.t.v. orðið tímabært að skoða hvort yfirleitt sé stætt á því að leyfa akstur mótorhjóla á almennum vegum og takmarka hann við sérútbúnin öryggissvæði?

Það er afar jákvætt að formaður Umferðarráðs, Kjartan Magnússon, skuli nú taka afstöðu með 2+1 lausninni á bæði Suðurlands- og Vesturlandsvegi. Hann hefur greinilega sett sig vel inn í málin og sýnir kjark með því að lýsa þessu yfir, þvert ofan í hin sterku byggðapólitísku sjónarmiðum sem virðast ráða för hjá bæði samflokksmönnum hans í ríkisstjórn og öðrum þingmönnum Sunnlendinga.

Það er vonandi að hinn nýi samgönguráðherra Íslendinga dragi hausinn upp úr sandinum og taki undir sjónarmið umferðaröryggis og heilbrigðrar skynsemi og gefi Vegagerðinni leyfi til að bjóða út gerð 2+1 vegar yfir Hellisheiði hið snarasta og á Vesturlandsvegi sem fyrst. Frekari bið kostar fleiri mannslíf. Slíkt er algerlega óásættanlegt.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.