Landsvirkjun Power og MBL Plús

Sú ráðstöfun Landsvirkjunar að færa tiltekna þætti í starfsemi sinni inn í sérstakt félag hefur kallað fram viðbrögð hjá ákveðnum aðilum sem virðast þjást af svokölluðu REI-heilkenni. Áhætturekstur opinberra fyrirtækja er allt í einu orðið sérstakt áhyggjuefni á ritstjórn Morgunblaðsins – nokkrum áratugum of seint – svona MBL+.

Á dögunum ákvað Landsvirkjun að færa tiltekna þætti í starfsemi sinni undir einn hatt í nýju hlutafélagi, Landsvirkjun Power. Í raun er um að ræða nafnabreytingu á starfsemi sem Landsvirkjun hefur þegar sinnt í öðru félagi. Að mati stjórnenda Landsvirkjunar er heppilegra að verja fyrirtækið fyrir áhættu af erlendri starfsemi með því að fella hana undir sérstakt félag með takmarkaðri ábyrgð og afmörkuðu eigin fé. Þetta er skynsamleg ráðstöfun en hún hefur engu að síður mætt tortryggni ákveðinni aðila og er líklega um að kenna hinu alræmda REI-heilkenni.

Ritstjóri Morgunblaðsins er einn þeirra sem er óvært yfir stofnun hins nýja félags. Hann spyr í Staksteinum í dag hvort stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar, um að tímabært sé að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í útrás orkufyrirtækja, þýði að fyrirtæki í eigu hins opinbera eigi að taka þátt í áhættusömum fjárfestingum.

Hvar í ósköpunum hefur ritstjóri Morgunblaðsins verið síðastliðna hálfa öld? Landsvirkjun hefur fátt annað gert frá stofnun en að taka þátt í og standa að áhættusömum fjárfestingum. Hvar var ritstjóri Morgunblaðsins þegar ríkið og önnur sveitarfélög ákváðu að ráðast í byggingu Kárahnjúkavirkjunar, taka á sig ábyrgðir upp á hundruð milljarða og skuldbindingu til margra áratuga til að selja einu fyrirtæki orku til framleiðslu á áli, svo nýlegt dæmi sé tekið um starfsemi Landsvirkjunar? Í leiðara Morgunblaðsins 2. mars 2003 sagði ritstjórinn að stjórnarflokkarnir stæðu báðir að ákvörðunum um virkjunina á Kárahnjúkum og að öll skilyrði lýðræðisins hefðu verið uppfyllt við framkvæmdina. Hvorki fyrr né síðar hefur ritstjóri Morgunblaðsins ljáð máls á því að þessi stærsta áhættufjárfesting opinbers fyrirtækis í Íslandssögunni hafi hugsanlega farið í bága við grundvallarstefnu Sjálfstæðisflokksins.

Fróðlegt er í þessu ljósi að skoða leiðaraskrif ritstjórans frá því gær þar sem hann spyr: „Hvernig ber þá að skilja afstöðu Sjálfstæðisflokksins í þessu grundvallarmáli [þ.e. stofnun Landsvirkjun Power]? Er það svo að Sjálfstæðisflokkurinn á landsvísu, sem hefur að vísu barizt gegn ríkisafskiptum af atvinnurekstri frá stofnun sinni, sé nú hlynntur því að ríkið eigi aðild að atvinnurekstri á nýjum sviðum?“

Hvernig í ósköpunum má það vera að hin risavaxna áhættufjárfesting Landsvirkjunar í Kárahnjúkavirkjun hafi að mati ritstjóra Morgunblaðsins verið í samræmi við stefnu Sjálfstæðisflokksins en að stofnun félags í eigu Landsvirkjunar með takmarkaða ábyrgð og eigið fé upp á 8 milljarða til að sinna afmörkuðum útrásarverkefnum gangi í berhögg við stefnuna? Hvað býr eiginlega að baki þessum málflutningi ritstjórans?

Sú ráðstöfun stjórnenda Landsvirkjunar að koma tilteknum rekstrarþáttum fyrir í sérstöku hlutafélagi, þ.e. verkefnum erlendis, er heppileg ráðstöfun þegar litið er til hagsmuna eigendanna, vegna þess að hún dregur úr áhættu fyrirtækisins – ólíkt byggingu Kárahnjúkavirkjunar sem var og er stærsta áhættufjárfesting Íslandssögunnar, framkvæmd af opinberu fyrirtæki undir ríkisstjórnarforystu Sjálfstæðisflokksins. Vissulega eru margir innan Sjálfstæðisflokksins sem telja að hið opinbera hafi engu hlutverki að gegna í orkumálum öðru en því að setja almennar reglur og fara með fullveldisrétt yfir auðlindunum. Sá sem þetta skrifar er í þeim hópi. Í þeirri afstöðu felst að Landsvirkjun og önnur opinber orkufyrirtæki verði seld og verkefnum þeirra komið í hendur einkaaðila.

Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í apríl sl. var tekist á um þessi grundvallaratriði. Sá sem þetta ritar var í ágætri aðstæðu til að fylgjast með þeirri umræðu þar sem hann stýrði málefnanefnd flokksins um umhverfismál og auðlindanýtingu í aðdraganda landsfundar og á fundinum sjálfum. Á fundi nefndarinnar þar sem farið var yfir ályktunardrög sátu tæplega eitthundrað manns á föstudegi og laugardegi helgina sem landsfundurinn fór fram. Miklar og fjörugar umræður urðu um ályktunina og lögðu margir til málanna. Eftir að lokadrög höfðu verið afgreidd úr nefndinni, þar sem kveðið var á um að stefnt skyldi að einkavæðingu orkufyrirtækjanna, var ákveðið að kalla nefndina saman til aukafundar á sunnudagsmorgninum áður en ályktunardrögin voru borin upp til atkvæða á fundi allra landsfundarfulltrúa. Var þetta gert að beiðni áhrifamanna í flokknum sem töldu ályktunardrögin ganga of langt.

Á sunnudagsmorgninum hófst aukafundur í nefndinni sem fram fór í hliðarsal í Laugardalshöll. Fundinn sóttu á annað hundrað manns, þ.á m. þingmenn, bæjarstjórar, borgarstjóri, ráðherrar og fleiri lykilmenn í Sjálfstæðisflokknum. Fyrir þessum fundi lá aðeins eitt mál; að skera úr um það hversu langt skyldi ganga í ályktun Sjálfstæðisflokksins um eignarhald orkufyrirtækjanna. Stóð fundurinn í tæpar tvær klukkustundir og tóku á fjórða tug manna til máls. Skiptust menn í tvær fylkingar á fundinum; annars vegar þeir sem vildu halda fast við fyrirliggjandi drög um að stefnt skyldi einkavæðingu orkufyrirtækjanna og hins vegar þeir sem andvígir voru slíkum áformum.

Að lokum bar formaður nefndarinnar, sá sem þetta ritar, upp málamiðlunartillögu sem fólst í því að skoðaðir skyldu kostir þess að færa eignarhald ríkisins á orkufyrirtækjum yfir til einkaaðila, sérstaklega með tilliti til samkeppnis- og jafnræðissjónarmiða. Var tillagan samþykkt samhljóða á fundi nefndarinnar. Í ræðu formanns nefndarinnar á landsfundinum, þar sem gerð var grein fyrir störfum nefndarinnar, kom fram að sátt hefði náðst í nefndinni um að ekki yrði gengið lengra að þessu sinni hvað varðaði stefnu flokksins um einkavæðingu orkufyrirtækjanna og að landsfundur Sjálfstæðisflokksins væri einfaldlega ekki reiðubúinn að stíga þetta skref til fulls. Fór svo að bæði málamiðlatillagana og ályktunin í heild sinni var samþykkt svo að segja samhljóða á fundinum. Fullyrða má að engin af þeim 18 ályktunum sem samþykktar voru á landsfundinum hafi verið ræddar jafn ítarlega af jafn mörgum og ályktunin um umhverfismál og auðlindanýtingu.

Í ofangreindu ljósi verður að skoða það ákvæði í ályktuninni um að landsfundur fagni aðkomu einkaaðila að útrás orkufyrirtækjanna og að tímabært sé að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins svo að íslensk sérþekking og hugvit fái notið sín til fulls í þeirri útrás. Þetta ákvæði rataði svotil óbreytt inn í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn var ekki á landsfundi sínum í apríl reiðubúinn að stíga það skref að einkaaðilar ættu að taka við verkefnum opinberum orkufyrirtækjanna. Hins vegar lýsti fundurinn sig samþykkan samstarfi orkufyrirtækjanna og einkaðila um útrásarverkefni. Með engu móti er hægt að skilja þessa samþykkt landsfundar svo að slíkt samstarf fari í bága við stefnu flokksins og í raun sérstakt rannsóknarefni hvernig menn komast að slíkri niðurstöðu. Einstakir þingmenn og leiðarahöfundar geta vissulega haft þá skoðun að slíkt samstarf sé óæskilegt og að betra væri að þessi mál væru alfarið á höndum einkaðila en stuðning við það sjónarmið fá þeir ekki í stefnumótun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um þessi tilteknu mál – ekki að svo stöddu í það minnsta.

Hörmungarsagan í kringum Reykjavik Energy Invest hefur ekkert með þessa stefnumótun Sjálfstæðisflokksins að gera nema að litlu leyti og allar tilraunir nú til þess að spyrða það mál saman við stofnun Landsvirkjun Power eru fráleitar. Því fer víðs fjarri að grunnhugmyndin að baki útrás sérþekkingar og hugvits Orkuveitu Reykjavíkur í REI og mögulegt samstarf við einkaaðila þar að lútandi hafi verið þvert á stefnu Sjálfstæðisflokksins. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sem gerðu athugasemdir við sameininguna höfðu þó ýmislegt til síns máls; verulega skorti á kynningu málsins, kaupréttarsamningar í tengslum við sameininguna voru mjög vafasamir, einkaréttarákvæði REI á þekkingu OR orkaði tvímælis, fjárfesting OR í samrunaferlinu var hlutfallslega út úr kortinu og áfram mætti telja. Það liggur hins vegar fyrir að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins hafði náð niðurstöðu í sínum hópi um hvernig mætti leiðrétta ferlið þannig að niðurstaðan yrði ásættanleg. Þá var hins vegar flótti hlaupinn í samstarfsaðilann og hann ákvað frekar að klúðra sameiningunni með öðrum samstarfsaðilum.

Enginn deilir um að mikil verðmæti eru fólgin í sérþekkingu Íslendinga á nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Ekki er heldur um það deilt að orka fallvatnanna og sú orka sem býr í iðrum jarðar er ekki á síðasta söludegi. Hins vegar kann tækifærið til að búa til verðmæti úr þekkingu okkar og hugviti að vera til staðar núna og því er eðlilegt að stjórnvöld búi svo um hnútana í orkufyrirtækjunum að þau tækifæri sé nýtt eftir því sem kostur er. Til lengri tíma litið er augljóst að aðkoma einkaðila mun auka til muna slagkraft þessarar verðmætasköpunar. Á sama hátt og hin ríkisreknu banka- og fjarskiptakerfi voru smám saman einkavædd mun orkuiðnaðurinn taka breytingum á næstu misserum. Stofnun Landsvirkjun Power markar engin tímamót í þessu ferli heldur er hún rökrétt skref í þeirri þróun er að eiga sér stað.

Latest posts by Borgar Þór Einarsson (see all)

Borgar Þór Einarsson skrifar

Borgar hefur skrifað á Deigluna frá stofnun, 3. febrúar 1998.