Þríhöfða hagstjórn

Í kjölfar breyttra horfa um lánshæfismat íslenska ríkisins er vert að velta fyrir sér af hverju ekki er tekið mark á síendurteknum athugasemdum innlendra og erlendra aðila.

Matsfyrirtækið Standard&Poors breytti á dögunum horfum um lánshæfismat ríkissjóðs í neikvæðar vegna ójanfvægis í hagkerfinu. Skýringarnar sem matsfyrirtækið gaf fyrir þessum breyttu viðhorfum voru kunnuglegar: Hér er ríkjandi þrálátt ójafnvægi í hagkerfinu, ekki síst vegna of eftirlátssamrar ríkisfjármálastefnu. Einnig virðast skammtímaraunvextir Seðlabankans hafa takmörkuð áhrif á heimilin þegar kemur að lántökum í erlendri mynt, og að sama skapi litla svörun á vexti íbúðalána.
Þetta er auðvitað gömul saga og ný.

Ingólfur Helgason, forstjóri Kaupþings banka á Íslandi, orðaði vandann nokkuð vel í viðtali fyrir ekki alls löngu. Að hans mati eru í raun þrír hagstjórnaraðilar á Íslandi, sem spyrna á móti hvorum öðrum. Í fyrsta lagi Seðlabanki Íslands, sem starfar eftir verðbólgumarkmiði og hækkar og lækkar stýrivexti eftir því sem hann telur þurfa til að halda verðstöðugleika. Óháð því hversu vel eða illa það tæki virkar, er Seðlabankanum einfaldlega þessi þröngur stakkur sniðinn, hann getur ekki annað en beitt stýrivaxtatækinu ef verðbólguhorfur versna til muna.

Í öðru lagi er um að ræða fjármálastefnu hins opinbera. Ósamræmi í peningastefnu og fjármálastefnu hins opinbera hefur margoft áður verið gagnrýnt, bæði utanlands sem og innan. Til að mynda benti Viðskiptaráð Íslands á þetta atriði sinni í skýrslu sinni á síðasta ári; “Krónan og atvinnulífið.” Afgangur af rekstri ríkis og sveitarfélaga er að meðaltali 5,6% af vergri landsframleiðslu á árunum 2005-07. Hins vegar verður að líta á þá tölu í stóra samhengi hlutanna. Ekki er óeðlilegt að hið opinbera skili afgangi þegar mikil þensla og framleiðsluspenna er til staðar, eins og hefur verið raunin á Íslandi á síðustu árum.

Í þriðja lagi er um að ræða Íbúðalánasjóð, sem hefur haldið niðri íbúðalánavöxtum. Eins skringilega og það gæti hljómað í eyrum margra, er til eitthvað sem heitir of lágir vextir. Auðvelt aðgengi að ódýru lánsfjármagni verkar auðvitað hvetjandi á neytendur til að fjárfesta í húsnæði meðan þeim bjóðast hagstæð kjör. Allt hjal um að almenningi eigi að bjóðast íbúðalán á “eðlilegum” kjörum og að bankarnir eigi mesta sök á húsnæðisverðshækkunum einkennist af fáfræði. Hversu mikils virði eru “eðlileg” kjör (hver sem þau eru) þegar slík tilboð stuðla að því að húsnæðisverð hækkar? Eru neytendur þá ekki komnir aftur á byrjunarreit? Þeir sem segja að það yrði helv. dýrt að fá lánað hjá bönkunum eru þannig að tala í hring – það er nefnilega helv. erfitt að kaupa sér húsnæði í landi þar sem aðgengi að lánsfjármagni er haldið of auðveldu í lengri tíma með tilheyrandi húsnæðisverðhækkunum. Auðvitað væri líka hægt að hækka hámarkslán og lánshlutfall í samræmi við meðalupphæð hvers þinglýsts kaupsamnings í hverjum mánuði, þannig að lánskjör Íbúðalánasjóðs haldi að einhverju leyti í við húsnæðismarkaðinn og “eðlileg kjör séu í boði.” Eða ekki.

Auðvitað dældu bankarnir miklum peningum inn á húsnæðismarkaðinn. Það er vegna þess að þeir ákváðu að fara í samkeppni við ríkið. Íbúðalánasjóður var ekki einkavæddur, heldur ákváðu einkaaðilar að taka slaginn við ríkið. Eins og málið horfir við tapaðist sá slagur, enda erfitt að keppa við innlánastofnun með ríkisábyrgð sem getur fjármagnað sig á kjörum eftir því. Ríkisvaldið bar því einkaframtakið ofurliði í þessu tilviki, þrátt fyrir að einkaaðilir hafi jafnvel tekið á sig að borga með útlánum til að standast lánakjörum ríkisins snúning.

Hér eru því lagðar til tvær lausnir. Annað hvort verði Íbúðalánasjóður lagður niður og útistandandi lán hans seld til annarra fjármálafyrirtækja. Þá myndu lánskjör ráðast á markaði líkt og gengur og gerist víðast hvar um heim.

Hins vegar væri hægt að endurvekja Verðlagsstofnun til að hafa hemil á húsnæðisverði. Hámarkslán Íbúðalánasjóðs myndu þá ávallt duga og allir fengju rosaleg eðlileg kjör.

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)