Hlutverk RÚV við íslenska dagskrárgerð

Fyrir stuttu gerðu Ríkisútvarpið og Björgólfur Guðmundsson samkomulag um að efla íslenska dagskrárgerð fyrir sjónvarp. Margir fagna þessari innspýtingu í innlenda dagskrárgerð. Aðrir gagnrýna samninginn og telja Björgólf vera að seilast til valda í Ríkisútvarpinu. En hvernig er best að íslensk dagskrárgerð sé fjármögnuð og hver þarf aðkoma Ríkisútvarpsins að vera?

Fyrir stuttu gerðu Ríkisútvarpið og Björgólfur Guðmundsson samkomulag um að efla íslenska dagskrárgerð fyrir sjónvarp. Margir fagna þessari innspýtingu í innlenda dagskrárgerð. Aðrir gagnrýna samninginn og telja Björgólf vera að seilast til valda í Ríkisútvarpinu. En hvernig er best að íslensk dagskrárgerð sé fjármögnuð og hver þarf aðkoma Ríkisútvarpsins að vera?

Í samkomulaginu felst að Björgólfur jafnar framlag RÚV til innlendrar dagskrárgerðar fyrir Ríkissjónvarpið og tvöfaldar þar með þá upphæð sem RÚV hefði að öðrum kosti getað varið til framleiðslu á leiknu íslensku sjónvarpsefni. Forsvarsmenn RÚV hafa haldið því fram að með samningnum sé Björgólfur ekki að styrkja Ríkisútvarpið beint heldur sé verið að styrkja sjálfstæða framleiðendur efnisins. Vissulega er það rétt að framleiðendurnir fá peninginn, en með því skilyrði að efnið verði sýnt í RÚV. Slíkt skilyrði er augljóslega betra fyrir RÚV en aðrar sjónvarpsstöðvar og því er ekki annað hægt en að líta á þetta, að minnsta kosti að hluta, sem styrk við Ríkisútvarpið sjálft.

Þetta endurspeglar í raun að miklu leyti hvernig stuðningi við íslenska dagskrárgerð er háttað. Ríkisútvarpið er styrkt af fjárlögum ríkisins og Ríkisútvarpinu er síðan ætlað að framleiða efni sjálft eða styrkja gerð þess, kaupa og sýna það. Sem sagt, hluti fjárins sem RÚV fær frá ríkinu á að renna til framleiðslu á innlendu sjónvarpsefni sem sýnt er í Ríkissjónvarpinu, alveg eins og styrkurinn frá Björgólfi. Á meðan styrkur til sjónvarpsgerðar er skilyrtur við ákveðna sjónvarpsstöð verður hann að skoðast sem stuðningur við þá sjónvarpsstöð.

En hvers vegna þarf stuðningur við íslenska dagskrárgerð að fara í gegnum Ríkissjónvarpið? Geta aðrar sjónvarpsstöðvar ekki komið að því að halda uppi íslensku menningarlegu sjónvarpsefni? Að sjálfsögðu geta þær það.

Eðlilegast væri að sem stærstur hluti þeirra fjármuna, sem ríkið vill veita til framleiðslu íslensks sjónvarpsefnis, rynni beint til framleiðenda efnisins. Auðvelt væri að setja skilyrði um hvers lags efni það skuli vera til að sjá til þess að markmiði fjárstuðningsins sé náð. Framleiðendur gætu síðan aflað aukafjármagns á hvern þann hátt sem þeim sýnist, frá auðugum velgjörðarmönnum eða öðrum. Þá gætu framleiðendur selt efnið áfram til hvaða sjónvarpsstöðvar sem er. Mögulega mætti setja þá skilmála að efnið yrði sýnt í opinni dagskrá svo að þjóðin öll nyti stuðningsins.

Í pistli þessum er Björgólfi Guðmundssyni á engan hátt ætlað að hafa einhvern misjafnan tilgang á bak við rausnarlega gjöf sína. Hins vegar er ljóst að gjöfin er til bæði framleiðenda sjónvarpsefnis og Ríkisútvarpsins. Þegar það er skoðað að Ríkisútvarpið rekur fréttastofu fyrir almannafé er þetta óheppilegt og erfitt að hefja yfir allan vafa. Það er algjör óþarfi að svona staða komi upp, sérstaklega þegar erfitt er að sjá að innlend dagskrárgerð þurfi að vera styrkt eingöngu í gegnum Ríkisútvarpið.