Að manni látnum

Það er inngreipt í huga okkar flestra að við höfum ótakmarkaðan rétt til að ráðstafa fjármunum okkar og eignum að vild, enda telst eignarrétturinn til grundvallarmannréttinda. Ef ég vil gefa Kattholti alla mína peninga þá má ég það.

Það er inngreipt í huga okkar flestra að við höfum ótakmarkaðan rétt til að ráðstafa fjármunum okkar og eignum að vild, enda telst eignarrétturinn til grundvallarmannréttinda. Ef ég vil gefa Kattholti alla mína peninga þá má ég það.

Þessi staða breytist hins vegar þegar menn fara yfir móðuna miklu og verða bundnir af því sem kallast skylduarfur. Í lögum er kveðið á um það að menn geti ekki ráðstafað nema 2/3 hluta eigna sinna með erfðaskrá ef fólk á eftirlitandi maka eða börn. Þriðjungur skal renna til eftirlifandi maka og afkvæma.

Núgildandi erfðalög eru síðan 1962 en ákvæði um skylduarf ná enn lengra aftur og mótast af allt öðrum þjóðfélagsaðstæðum en við búum við í dag. Eins og alkunna er orðið er langlífi hér á landi með því hæsta sem gerist í heiminum og því algengara en ekki að eftirlifandi afkvæmi séu komin á ellilaun þegar foreldrar þeirra andast. Rökin fyrir rétti þeirra til að taka arf eftir foreldra sína eru ekki mikil. Sömuleiðis kallar breytt fjölskyldumynstur, þar sem börn alast upp hjá fleiri foreldrum en áður og eiga kannski 2 eða 3 pabba eða engan á breytingar á úreltum reglum.

Það er alla vega erfitt að réttlæta að blóðskyldleikinn eigi að ná út fyrir allan raunveruleika og veita afkvæmum ótakmarkaðan rétt til skylduarfs, alveg sama hvernig aðstæðum manna kann að hafa verið háttað allt þeirra líf.

Vissulega er eðlilegt að makar og ósjálfráða börn fái skylduarf, enda eru þessir aðilar samkvæmt lögum á framfæri manna. Það er hins vegar fátt sem réttlætir þá aðstöðu sem er langalgengust; að fullorðið fólk taki arf eftir aldraða foreldra sína – þegar það hefur sennilega ekki verið á þeirra framfæri í tugi ára og kannski ekki séð foreldra sína jafnlengi.

Fólk getur vissulega ráðstafað öllum sínum eigum í lifanda lífi og þannig komist hjá því að vera bundið af ákvæðum um skylduarf, en það er undarleg staða að menn þurfi að gefa allt frá sér í lifanda lífi til að komast undan því að vera bundin af úrsérgengnum lagatexta.

Breyting á lögum í þá átt að afnema skylduarf mundi í flestum tilvikum ekki breyta miklu um það hvernig menn ráðstafa arfi sínum. Hér er hins vegar um að ræða réttlætismál; eignarétturinn er friðhelgur, hvort sem er í lifanda lífi eða við andlát.

Latest posts by Katrín Helga Hallgrímsdóttir (see all)

Katrín Helga Hallgrímsdóttir skrifar

Katrín Helga hóf að skrifa á Deigluna í október 2003.