Skyndilausn við verðbólgunni

Gagnrýnendur peningastefnu Seðlabanka Íslands hafa nefnt þann möguleika að sleppa húsnæðislið vísitölu neysluverðs út úr mælingunni. Húsnæðisverð hefur hækkað gífurlega á síðustu árum og þar af leiðandi ýtt verðbólgumælingum upp á við, en hversu ráðlegt er sleppa stærsta útgjaldalið heimilanna úr verðlagsmælingum?

Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, háskólakennari og dagskrárgerðarmaður á Útvarpi Sögu fór mikinn í Silfri Egils um síðustu helgi og vék meðal annars að meintu hruni peningastefnunnar. Guðmundur veit rétt eins og aðrir hagfræðingar að lögbundið hlutverk Seðlabanka Íslands er að halda verðlagi stöðugu og beita til þess tækjum á borð við stýrivexti.

Guðmundur benti réttilega á að húsnæðis- og eldneytisverð leiddu verðbólumælingar hér á landi: “Húsnæðishækkunin er heimatilbúin og hefur skapast fyrst og fremst af tveimur ástæðum. Miklu veldur sá er upphafinu veldur, og það er náttúrulega Framsóknarflokkurinn sem ákvað að fara út í þetta húsnæðisævintýri.[…] Olíuverð hefur einnig hækkað, en stýrivextir Seðlabankans hefur engin áhrif á það. Stýrivextir hafa ekki nógu mikil áhrif á húsnæðisverð sem hefur hækkað, þannig að segja má að vextirnir hafi engin áhrif á undirliggjandi þætti verðbólgunnar.” Síðar í viðtalinu leggur Guðmundur til að húsnæðisliðnum verði kippt út úr mælingu á vísitölu neysluverðs, enda eru það ekki viðtekin venja víða erlendis að hafa þann lið með. Hins vegar er vert að spyrja þeirrar spurningar hversu langt er hægt að ganga í að kippa út liðum úr verðlagsmælingum sem ákvarðast ekki endanlega innanlands eða hækka einna mest í verði? Gefa verðsveiflur vara hverra verð ákvarðast einungis af innlendum þáttum rétta mynd af verðlagi í landinu?

Yfir 80% allra Íslendinga búa í eigin húsnæði. Það hlutall er afar hátt í alþjóðlegum samanburði, til að mynda er hlutfallið 51% í Danmörku, 42% í Þýskalandi, 69% í Bretlandi og 61% í Svíþjóð. Því er húsnæði og niðurgreiðsla skulda sem hvíla á þeim stærsti, reglulegi útgjaldaliður heimilanna, og á það sérstaklega við á Íslandi þar sem verðbætur lána sveiflast í takt við verðlag. Reynslan hefur einnig sýnt að einkaneysla eykst mikið þegar húsnæðisverð hækkar, þannig að hækkandi eignaverð ætti að vera vísbending um meiri neyslu með tilheyrandi auknum þrýstingi á verðlag.

Mæling vísitölu neysluverðs hér á landi er síður en svo frábrugðin þeirri sem fer fram í nágrannalöndum okkar. Á síðustu árum hefur farið fram mikil samræming á vísitölumælingum innan EES landanna í samstarfi við Eurostat, Hagstofu Evrópusambandsins. Hagstofa Íslands hefur tekið virkan þátt í því samstarfi og við upphaf þess kom í ljós að mælingar Hagstofunnar stóðu þeim er fara fram í hinum EES löndunum fyllilega jafnfætis.

Hins vegar verður því ekki neitað að reynst getur vandasamt að meta húsnæðislið vísitölunnar. Húsaleiga er í dag metin inn í vísitölu neysluverðs, og húsnæðisnot þeirra sem búa í eigin húsnæði metin sem húsaleiguígildi og byggist stofn þeirra útreikninga á fasteignamati. Í öllu falli er því æskilegt og eðlilegt að halda húsnæðisliðnum inni. Stjórnmálamenn á borð við Gordon Brown, fyrrverandi fjármálaráðherra og núverandi forsætisráðherra Bretlands hafa hreykt sér af því að minnkað verðbólu um fleiri prósentustig. Það er hins vegar nokkuð ódýrt mont því eina sem var gert var að kippa húsnæðisliðnum út, og mætti sú aðgerð meira að segja nokkurri gagnrýni. Með því að hækka vexti með hliðsjón af hagvísum sem taka tillit til húsnæðisverðs er Seðlabankinn að sinna hlutverki sínu samkvæmt lögum. Hagstofan sér um vísitölumælingar og Seðlabankinn notar þær mælingar til að ákvarða stýrivexti. Allt snýst þetta um að binda niður verðbólguvæntingar almennings, og því markmiði er enginn greiði gerður með viðlíka tali og Guðmundur gerðist sekur um á sunnudaginn.

Forstöðumaður einnar greiningardeilda bankanna sagði fyrir stuttu að peningamálastefna ætti það sammerkt með guðfræði að trúin skipti öllu máli. Það eru orð að sönnu, og því er mikilvægt að reyna að auka trúverðugleika peningamálastefnunnar á meðan hún er rekin á annað borð, í stað þess að grafa markvisst undan henni.

Heimildir:
Hagstofa Íslands
Peningamál 2004

Latest posts by Þórður Gunnarsson (see all)