Deila um dreifingu

Í síðustu viku gaus upp deila um höfundarétt á afþreyingarefni á netinu.Í fljótu bragði virðist deilan snúast um hvort lögsækja eigi notendur skráarskipti forrita annars vegar og forsvarsmenn leitarsíðna sem tengja notendurnar saman hins vegar. Er málið svo einfalt?

Í síðustu viku gaus upp deila um höfundarétt afþreyingarefnis á netinu. Páll Óskar og Sprengjuhöllin sendu inn kvörtun til forsvarsmanna torrent.is, stærstu íslensku dreifingarsíðunnar sem dreifir afþreyingu á netinu. Þess var krafist að nýútgefnar plötur þeirra væru teknar út af síðunni. Í fljótu bragði virðist deilan snúast um hvort lögsækja eigi notendur skráarskipti forrita annars vegar og forsvarsmenn leitarsíðna sem tengja notendurnar saman hins vegar. Þegar betur er að gáð snýst þetta mál um leið um hvort höfundar þurfi að endurskoða hvernig þeir dreifa sköpunarverkum sínum og tryggja sér sanngjarna greiðslu fyrir þau.

Það er öllum ljóst að með tilkomu Internetsins er gríðarlega mikið fræðslu- og afþreyingarefni orðið mönnum aðgengilegt með nokkrum músarsmellum. Kvikmyndir, tónlist, sjónvarpsefni, ljósmyndir eða hvaðeina sem hugurinn girnist. Dreifingin, sem í flestum tilfellum er ólögleg, er staðreynd hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Hún hefur vaxið í takt við aukinn hraða nettenginga og notendavænni skráarskiptiforrita og er hún komin til að vera.

Neytendur fagna. Þeim ofbýður verð á videospólum og bíóferðum og það sama á við um tónlist og DVD diska. Lengi hafa neytendur kvartað yfir þessu en ekkert hefur breyst. Þeir gleðjast yfir því að nú loks geta þeir klekkt á stórfyrirtækjunum sem þeir telja ábyrg fyrir okrinu og stolist til að horfa á myndirnar og hlustað á tónlistina án þess að borga krónu.

Áhugamennirnir fagna. Aldrei hefur verið auðveldara að koma sér á framfæri. Hvort sem þú ert áhugatónlistamaður, -ljósmyndari eða –kvikmyndagerðarmaður (og alveg óháð því hvort þú hefur hæfileika eða ekki) þá geturðu skellt efninu þínu á netið með lítilli fyrirhöfn. Hvort sem það er áhuginn einn eða framadraumar sem ráða för liggur fyrir að Netið er áhugamanninum sannkölluð guðsgjöf. Nú þarf ekki að hljóta náð fyrir augum stórfyrirtækja til að koma efninu sínu í dreifingu.

Atvinnulistamenn eru á báðum áttum. Sumir kvarta, líkt og sjá má af viðbrögðum Páls Óskars og Sprengjuhallarinnar sem voru ekki sátt við hvernig var farið með efni þeirra. Aðrir taka þessu fagnandi. Nýta sér þá kosti sem Netið hefur upp á að bjóða og kynna efni sitt í gegnum það. Radiohead tóku upp á því að setja nýju plötuna sína á Netið og fengu menn að ráða hversu mikið þeir borguðu fyrir hana.

Stórfyrirtækin kvarta. Þau þurfa ekki annað en að fletta upp því efni sem þau eiga rétt á á Netinu til þess að sjá hve miklum fjárhæðum þau eru að tapa. Milljónir skráa sem gætu verið að seljast af vöruhillum úti í búð. Reyndar er rétt að benda á að það er alls óvíst að niðurhalendur myndu kaupa jafn mikið af efni og þeir hala nú niður ókeypis. Dettur einhverjum í hug að sú yrði raunin ef komið yrði í veg fyrir dreifingu um Netið?

Deilt hefur verið um áhrif Internetsins á sölu á geisladiskum og bíómyndum og hafa niðurstöður kannana um þetta efni verið misvísandi, sumar segja að Netið skemmi fyrir sölu en aðrar að hún hvetji til aukinnar neyslu. Sú þróun sem er að eiga sér stað er stórfyrirtækjunum hættuleg. Ljóst er að ef netdreifing útrýmir hefðbundinni dreifingu detta þau út úr sölukeðjunni. Listamennirnir komast þá í bein tengsl við neytendur sína með auðveldum hætti án milligöngu fyrirtækjanna.

Út frá því spretta svo fleiri vangaveltur. Hvort listamenn eru betur settir með stórfyrirtæki á bakvið sig sem sér um markaðssetningu, en tekur á móti hluta hagnaðarins. Hvort of margir sjálfstæðir listamenn valdi því að dreifingin verði of opin og ruglingsleg og hvort listamennirnir kæfi þannig hvorn annan með köllum um athygli. Slíkum spurningum er ekki auðsvarað og verður framtíðin að leiða slíkt í ljós.

Internetið, með öllum sínum undrum, hefur komið af stað byltingu. Byltingin hefur valdið því að margvíslegar breytingar hafa þurft að eiga sér stað á ýmsum hliðum samfélagsins. Þar er afþreyingarbransinn engin undantekning. Að hefta þróun á slíku tækniundri, sem netið er, væri fásinna. Lögsóknir eru ekki lausnin. Afþreyingarbransinn þarf að bregðast við og uppfæra sig til samræmis við tuttugustu og fyrstu öldina. Ekki er lengur hægt að treysta á beina sölu úr plötubúðum. Breyta þarf áherslum innan stórfyrirtækjanna og búa til viðskiptamódel sem ganga út á víðtæka dreifingu á Netinu gegn lægra verði en í boði hefur verið. Væri ekki ráð að listamenn og fulltrúar dreifingarfyrirtækjanna settust niður og mótuð framtíðarsýn sem hæfir 21. öldinni?