“Á þá ekki bara að leyfa dóp?”

Eitt það undarlegasta í allri umræðunni um áfengismál að undanförnu er að andstæðingum frumvarpsins hefur tekist að gera alla þá sem málið styðja að einhverjum óskaplegum öfgamönnum. En því fer auðvitað fjarri að sú skoðun að aðrir en ríkið eigi að sjá um verslun með bjór, sé öfgafulla skoðunin í þessari umræðu.

Eitt það undarlegasta í allri umræðunni um áfengismál að undanförnu er að andstæðingum frumvarpsins hefur tekist að gera alla þá sem málið styðja að einhverjum óskaplegum öfgamönnum. En því fer auðvitað fjarri að sú skoðun að aðrir en ríkið eigi að sjá um verslun með bjór, sé öfgafulla skoðunin í þessari umræðu.

Í umræðum í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag var áfengisfrumvarpið til umræðu sem endra nær. Guðfríður Lilja varaþingmaður VG, sagðist vera komin með ofnæmi fyrir svona málum. Svo spurði hún flutningsmann frumvarpsins hvort það ætti ekki bara að leyfa dóp. Gömlum Morfís-hundi eins og Sigurði Kára hlýtur að hafa hlýnað um hjartaræturnar við að heyra þess konar málflutning á ný.

“Fundarstjóri, Börkur segir að útivistarlög séu sjaldan virt! Ha, á þá ekki bara að leyfa barnaþrælkun og morð?”

Í dag er íslenska áfengislöggjöfin sú strangasta í Evrópu, bæði hvað varðar verslunarfrelsi og áfengiskaupaaldur. Af þeim 700 milljónum manna sem búa í Evrópu búa allir við frjálslyndari löggjöf um áfengi en við. Af öllum þessum 700 milljónum búa einungis 19 milljónir í ríkjum þar sem ríkið sér um áfengissölu, þ.e.a.s. í ríkjum Norðurlanda utan Danmerkur. Til samanburðar þá búa um 16 milljónir í ríki sem hefur í reynd leyft dóp, Hollandi. Þetta eru jaðrarnir í vímuefnamálum, ríkiseinokun og lögleyfing, og í bláenda annars jaðarsins sitjum við og sum okkar skelfa af hræðslu við þá tilhugsun að taka svo lítið sem hænuskref frá þeim enda. Af ótta við að lenda óvart hinum megin. Í Hollandi.

“Já, á ekki bara að leyfa allt dóp. Það hlýtur að vera það næsta sem þau vilja.”

Af þeim 19 milljónum manna sem hafa ákveðið að láta ríkið selja sér áfengi geta allir nema Íslendingar þó keypt sér bjór úti í búð. Í Noregi og Finnlandi má bjórinn vera allt að 4,7%, en 3,5% í Svíþjóð. Alls staðar mega þeir sem sem eru 18 ára kaupa sér þennan umdeilda vökva. Alls staðar nema á Íslandi.

Ef Ísland leyfði sölu á bjór og léttvíni í matvöruverslunum yrðu Íslendingar fjórða íhaldsamasta Evrópuþjóðin þegar kemur að verslunarfrelsi með áfengi, því við myndum færast ögn fram úr Norðmönnum og Finnum með því að leyfa rauðvíninu að fara í búðirnar líka. Áfram væri þó ekkert land í Evrópu með hærra aldursmark á áfengiskaupum og jafnvel þótt stjórnarflokkarnir uppfylltu stefnu sína og leyfðu fólki á aldrinum 18-20 ára að kaupa bjór og vín þá yrðum við áfram næstíhaldsamasta þjóð Evrópu þegar kæmi að áfengiskaupaaldri.

Já, einmitt! Sú næstíhaldsamasta. Semsagt: Enn ansi langt yfir stóru hæðina til Hollands.

En kannski finnst sumum bara vera frábært að vera íhaldsamur í þessum málum, og það er bara allt í lagi. Menn höfðu rétt til að berjast fyrir áfengisbanni. Menn höfðu rétt fyrir að berjast gegn bjórnum og sömu menn, samtök og dagblöð hafa fulla heimild til að berjast gegn frjálsari áfengisverslun nú. Og menn hafa rétt að beita öllum þeim trikkum, rannsóknum, árásum, blaðagreinum, staksteinum, leiðurum, tilfinningarökum og kúgunum sem löglegar eru í lýðræðislegu ferli. Gott og vel, núverandi ástand skapar á sinn hátt alltaf ákveðna miðju í stjórnmálaumræðunni og þeir sem vilja takmarka aðgang að áfengi vita að miðjan mun færast svo hratt þegar breytingarnar eru gengnar í garð vandfundið verður það fólk sem mun kannast við að hafa nokkurn tímann verið á móti þeim. Fínt, menn mega auðvitað berjast fyrir sínu.

En þegar menn tala fyrir skoðun sem liggur á algjörum útjaðri skoðana í 700 milljóna manna heimsálfu, þegar menn tala gegn skoðun meirihluta almennings Íslandi, þegar menn tala fyrir skoðun sem einmitt er álíka útbreidd í Evrópu og sú skoðun að leyfa skuli dóp, þá ættu menn ekki að standa upp á kassa, mynda skel úr höndum sér og öskra yfir hópinn:

“Öfgamenn!”

Latest posts by Pawel Bartoszek (see all)

Pawel Bartoszek skrifar

Pawel hóf að skrifa á Deigluna í september 2002.