Mamma segir nei

Í umræðunni um afnám einkasölu ríkisins á bjór og léttvíni er aðalatriðið það hvort íslenskt samfélag vilji viðhalda úreltri opinberri neyslustýringu og takmarka ábyrgð og frelsi einstaklinganna til að haga lífi sínu eins og þeir kjósa, innan ramma þeirra laga sem þeim er gefinn. Hvort aðgengi eða úrval minnki eða aukist, safnist saman eða dreifist er hins vegar aukaatriði sem frjálsum markaði er best treystandi til að skera úr um og er allsendis óvíst að hafi svo miklar neikvæðar lýðheilsulegar afleiðingar að þær geti nokkurn tímann réttlætt einokunarsölu. Ef það hefur þá neikvæðar afleiðingar í för með sér yfir höfuð. Það er kominn tími til að gefa mömmu frí.

Á fyrsta starfsdegi Alþingis nú í haust var lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að einkasala ríkisins á sterkum bjórum og léttvínum verði felld niður. Flutningsmenn frumvarpsins eru þingmenn úr þremur flokkum á Alþingi. Með þessu er verið að leggja til að eitt síðasta vígi ríkiseinokunar á Íslandi verði tekið aftengt og viðskipti með bjór og léttvín gefin frjáls, þó auðvitað innan þess lagaramma sem slíkum viðskiptum er gefinn. Þetta er í fimmta skipti sem frumvarp þetta er lagt fram.

Það er eðlilegt að hafa samúð með sjónarmiðum þeirra sem hafa áhyggjur af breytingum á núverandi ástandi. Óhófleg neysla áfengis er öldungis skaðleg heilsu manna og ekki þarf hávísindalegar sænskar rannsóknir til að segja manni það. Líf ófárra einstaklinga og fjölskyldna hefur verið lagt í rúst af Bakkusi í gegnum aldirnar og mun svo áfram verða svo lengri sem neysla þess verður leyfð og ekki síst svo lengi sem markaður fyrir áfenga drykki er til staðar. Eftir allt þá er mannskepnan ansi hrifin af hlutum sem er henni ekkert sértaklega holl. Það mun seint breytast.

Frjáls sala á bjór og léttvíni þýðir að farið verður að selja það í öllum helstu matvörubúðum. Það er ekki ólíklegt að bjór og léttvín verði jafnvel selt í stærstu sjoppunum. Salan mun því fara fram á stöðum þar sem í dag eru lausir við þennan varning og fólk, sem erfitt á með að hemja neyslu sína á þessari vöru, verður fyrir auknu áreiti. Það verður því fyrir auknum freistingum, ef svo má að orði komast. Það þarf heldur engar hávísindalegar sænskar rannsóknir til að segja manni það.

Og það er sennilega það sem andstæðingar frumvarpsins hafa mestar áhyggjur af. Að aukinn sýnileiki og – ef svo má að orði komast – aukin viðurkenning samfélagsins, að neysla áfengis sé ekki talin óæskileg, muni valda því að neysla almennings fari vaxandi með skaðlegum áhrifum á heilsu þjóðarinnar. Þeir líta á sölueinokun ríkisins sem heppilega leið til að sætta sjónarmið neyslusamfélagins og lýðheilsuverkfræðinnar að þessu leyti.

En þeir hafa rangt fyrir sér í báðum tilfellum. Í fyrsta lagi hefur aukin áfengisneysla ekki neikvæð áhrif á lýðheilsu. Vefþjóðviljinn sýndi nýlega gögn sem sýna öfugt samband milli aukinnar áfengisneyslu í Svíþjóð og tölur um dauðsföll af völdum áfengisneyslu á árunum 1994 til 2002. Í öðru lagi er sölueinokun ekki heppileg leið til að stýra samfélagsneyslu og mun aldrei sætta sjónarmið frjálshyggjunnar og samfélagsverkfræðinnar.

Kjarni málsins er sá að sölueinokun hins opinbera er aldrei réttlætanleg leið að neinu markmiði. Hvort sem það er af lýðheilsulegum toga eða ekki. Ástæðan er sú að með því er verið að fjarlægja fórna réttindum einstaklingsins til að haga sínu lífi eins og hann kýs og fórna réttindum hans til að stunda viðskipti með hvern þann varning sem samfélagið viðurkennir. Sú samfélagsverkfræði sem felst í sölueinokun hins opinbera er löngu úrelt fyrirbæri. Ekki síst þar sem aðrar og betri leiðir eru færar til að stýra neyslunni í ákveðinn farveg ef menn svo kjósa.

Sem dæmi má hæglega tryggja það að sala á áfengi í matvörubúðum fari fram þannig að hinn almenni neytandi verði þess lítið var. Að í reglugerð sé kveðið á um það að sölubásar með bjór og léttvin skuli aðskildir annarri matvöru og hafðir afsíðis. Að þeir sem afgreiði slíka vöru skuli hafa ákveðin réttindi eða próf sem tryggi að salan sé lögleg og aðilum, sem ekki hafa náð lögaldri, verði ekki seld slík vara. Einnig mætti banna sölu á bjór og léttvíni eftir ákveðinn tíma, s.s. kl. 20 á kvöldin eins og frumvarpið gerir reyndar ráð fyrir. Það er gert víðar t.d. í Danmörku.

Þetta er rétta leiðin.

Jafnframt má vel færa rök fyrir því að ríkisbatterí á borð við Lýðheilsustofn … afsakið … stöð, hvetji til ákveðinnar neyslu með boðskap og áróðri. Á meðan ríkið ákveður að starfrækja slíkt batterí er ólíklegt að áhugasamir einkaaðilar taki sig saman og geri það. Stöðin ætti því að fá fjármagn til að hvetja til skynsamlegrar neyslu á áfengi. Að minnsta kosti þangað til sá góði dagur rennur upp að ákveðið verður að leggja hana niður eða selja áhugasömum einkaaðilum sem hafa óbilandi áhuga á samfélagslegri neysluhvatningu og -rannsóknum.

En hvernig sem því líður er tími til kominn að draga út mömmuhyggjunni í íslensku samfélagi. Neyslustýring á ekki að fara fram öðruvísi en með löggjöf hins opinbera og í mesta lagi uppbyggjandi tilmælum úr sama ranni. Allra allra síst sölueinokun. Það er 20. öldin og hún er löngu búin.

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.