Kerfi miðstýringar og meðalmennsku

Ef hópur einstaklinga settist niður til að smíða versta mögulega launakerfi sem völ væri á er ekki ólíklegt að niðurstaðan yrði eitthvað í líkingu við það kerfi sem grunnskólakennarar búa við í dag. Þetta kerfi miðstýringar og meðalmennsku, ásamt þeirri hugmynd að ómögulegt sé að bera saman störf tveggja kennara og meta ólíka getu og hæfni til launa, gerir það að verkum að kjör þessa mikilvæga hóps í þjóðfélaginu eru afar skökk og ósanngjörn.

Ef hópur einstaklinga tæki sig til og settist niður til að smíða versta mögulega launakerfi sem völ væri á er ekki ólíklegt að niðurstaðan yrði eitthvað í líkingu við það kerfi sem grunnskólakennarar búa við í dag. Á nokkurra ára fresti setjast niður tveir hópar, annars vegar forysta Kennarasambandsins og hins vegar Launanefnd sveitarfélaganna, og semja um kaup og kjör allra grunnskólakennara landsins. Það liggur einhvern veginn í hlutarins eðli að slíkir samningar geta aldrei orðið mjög hagstæðir og maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvers vegna í ósköpunum þessi leið er farin við samningsgerðina. Ein af ástæðunum fyrir því að grunnskólinn var fluttur yfir til sveitarfélaganna á sínum tíma var ekki síst sú að gera hverju sveitarfélagi kleift að hafa meira um málefni sinna skóla að segja. Kjaramálin spila þar eðlilega stórt hlutverk og því er það fyrirkomulag að öll sveitarfélög semji saman hvorki til þess fallið að skapa ánægju né sveigjanleika í kjörum.

Límið í núverandi skipulagi virðist vera að allir hafi það að minnsta kosti jafnskítt. Ekkert sveitarfélag, enginn skóli og enginn kennari þarf að horfa upp á að aðrir hafi það betra. Vilji t.a.m. eitthvert sveitarfélaganna stíga fram og reyna að gera vel við sína kennara, t.d. með því að veita þeim launahækkun umfram það sem gengur og gerist annars staðar, brestur á hávær gagnrýni um að slíkt muni setja önnur sveitarfélög í afar erfiða stöðu. Það sitja með öðrum orðum allir í súpunni.

Í umræðunni um kaup og kjör kennara kemur oft fram spurningin um hvað sé sanngjarnt að kennarar hafi í laun. Tilgangurinn með því að setja málið upp með þessum hætti er eflaust sá að fá fólk til þess að átta sig á að núverandi laun kennara séu ekki nógu há. Þessi umræða er hins vegar á villigötum því það er ekki til neitt eitt rétt svar við því hvað kennarar (þúsundir kennara eru starfandi um land allt) eigi að hafa í laun. Að ætla sér að svara þessari spurningu í eitt skipti fyrir öll er jafnóraunhæft og núverandi launafyrirkomulag kennara – ein tala og eitt kerfi veitir ekki fullnægjandi svör eða lausnir fyrir allan hópinn. Kennarar eiga að sjálfsögðu að hafa góð laun og þeir eiga að finna árangur erfiðis síns. Svarið við ofangreindri spurningu er því í raun að það er ekkert eitt svar – heldur ættu kennarar að fá möguleikann á að semja fyrir sjálfan sig við sinn yfirmann, sem þekkir getu og dugnað hvers og eins.

Eitt af því sem fagfólk í skólum verður að sætta sig við er að kennarar eru misgóðir. Þeir ná misgóðum árangri í sínu starfi, rétt eins og aðrar starfsstéttir. Launakerfi þeirra ætti að endurspegla mismunandi getu, hæfni og reynslu í starfi og þeir ættu að geta samið um sín kjör við skólastjóra í hverjum skóla. Fullyrðingar um að ómögulegt sé að bera saman og verðmeta á ólíkan hátt störf tveggja ólíkra kennara standast ekki. Þeir sem halda því hvað harðast fram að ómögulegt sé að bera saman störf kennara benda máli sínu til stuðnings á að afar misjafnt sé hvernig nemendur og bekki kennarar fái til að vinna með og afar erfitt sé að finna einhlíta mælikvarða til að meta störf kennara eftir, t.d. séu einkunnir óheppilegar því sumir nemendur eigi einfaldlega erfiðara með nám en aðrir.

Það merkilega er að sömu rök eiga við um öll önnur störf. Aðstæður eru misjafnar og samstarfsfólkið misjafnlega gæfulegt. Engu að síður virðist það ekki vefjast fyrir stjórnendum á öðrum vinnustöðum að greiða laun eftir getu. Geta kennara yrði aldrei mæld eftir einkunnum nemenda – heldur einfaldlega hvernig þeir takast á við þau verkefni sem þeirra bíða, hvernig þau ná til krakkanna og hvernig þeim tekst að virkja þau með sér í náminu.

Hugmyndin um að allir eigi að njóta sömu kjara er angi af stjórnmálastefnu sem hefur til allrar hamingju verið kveðin í kútinn og tilheyrir nú sögunni. Þegar eina leiðin fyrir kennara til þess að hækka í launum er að eldast í starfi er afleiðingin einfaldlega sú að góðir og metnaðarfullir kennarar njóta í engu ávaxta erfiðisins. Slíkt kerfi þarf augljóslega að stokka upp.

Árni Helgason skrifar

Árni hóf að skrifa á Deigluna í ágúst 2006.