José Mourinho

Það ætti ekki að hafa farið framhjá mörgum að nýverið lét José Mourinho af störfum sem framkvæmdastjóri enska knattspyrnuliðsins Chelsea FC. Mourinho þótti vægast sagt litríkur á ferli sínum í Englandi og verður einna mest saknað af ensku pressunni.

Það ætti ekki að hafa farið framhjá mörgum að nýverið lét José Mourinho af störfum sem framkvæmdastjóri enska knattspyrnuliðsins Chelsea FC. Mourinho þótti vægast sagt litríkur á ferli sínum í Englandi og verður einna mest saknað af ensku pressunni.

Þeir sem þekkja til og hafa lesið bresku slúðurblöðin ættu að kannast við hvers konar fyrirsagna fréttamennska er þar við lýði. Þegar José Mourinho tók við starfi knattspyrnustjóra Chelsea FC, í júní 2004, eignaðist breska pressan nýjan sálufélaga. Mourinho er þekktur fyrir að liggja aldrei á skoðunum sínum og komast skemmtilega að orði. Hann hefur verið miskunarlaus í kaldhæðinni gagnrýni á bæði leikmenn og knattspyrnustjóra annarra liða en jafn blygðunarlaus í afdráttarlausri hrifningu sinni á sjálfum sér og eigin leikmönnum. Hér eru tvö dæmi um stórkostleg ummæli Mourinho:

„Vinsamlega ekki kalla mig hrokafullann en ég er Evrópumeistari og ég er einstakur“

„Ef ég vildi vera í auðveldu starfi, þá væri ég enn hjá Porto. Fallegur blár stóll, Meistaradeildarbikarinn, Guð og á eftir Guði, ÉG!“

Þrátt fyrir að Mourinho sé yfirlýsingaglaður og stóryrtur er ekki hægt annað en að viðurkenna frábæran árangur hans í starfi. Hann hefur unnið portúgölsku deildarkeppnina tvisvar, portúgölsku bikarkeppnina einu sinni, Evrópukeppni félagsliða og Meistaradeild Evrópu einu sinni, enska deildarmeistaratitilinn tvisvar, enska deildarbikarinn tvisvar og ensku bikarkeppnina einu sinni. Hreint út sagt stórkostlegur árangur. Það má því þykja ótrúlegt að rússneski auðjöfurinn og eigandi Chelsea, Roman Abramovich hafi leyst Mourinho frá störfum. Sérstaklega þegar litið er til þess að staðgengill hans hjá Chelsea er lítt þekktur Ísraeli að nafni Avram Grant. Sá þykir í meira lagi óspennandi hjá bresku pressunni sem hafa þess í stað tekið ástfóstri við eiginkonu Grant, sem þykir heldur umdeild í Ísrael.

Fyrir tæpum tveimur árum skrifaði Birgir Hrafn Hafsteinsson pistil hér á Deigluna um leiðtoga í ensku knattspyrnunni. Þar minnist Birgir meðal annars á Mourinho og veltir fyrir sér afleiðingum mögulegs brotthvarfs hans frá Chelsea. Liðið hefur haft ógrynni fjár undir höndunum síðustu ár en það er þó ekki svo auðvelt að kaupa sér enska deildarmeistaratitilinn. Í brúnni þarf að vera sterkur leiðtogi sem ræður við álagið sem fylgir bresku pressunni og nýtur virðingar leikmanna sinna. Nú mun reyna á hvort hinn lágt skrifaði Avram Grant sannreyni kenningu Birgis og missi tök á stórstjörnum Chelsea liðsins, nokkuð sem fyrstu vikur hans í starfi gefa til kynna.

Að lokum verður áhugavert að sjá hvernig José Mourinho verður minnst í enskri knattspyrnusögu. Var hann sjálfsmeðvitaður snillingur eða hrokafull væluskjóða sem náði árángri vegna fjárhagsstöðu eiganda Chelsea?