Byggð-að-þróast?

Niðurskurður á aflaheimildum og uppsagnir í fiskvinnslu táknar áframhaldandi dökkt útlit fyrir margar sjávarbyggðir landsins. Margar þeirra eiga sér hugsanlega aldrei viðreisnar von þótt hagur sjávarútvegsins kunni að batna á ný. Það þarf þó ekki að tákna dauða landsbyggðarinnar í heild sinni, en engu að síður er henni það nauðsynlegt að endurskilgreina tilveru sína og byggja á sjálfbærum lausnum frá rótinni, lausnum sem virka til langframa, en ekki miðstýrðum ólausnum út úr pólitískum bjargráðanefndum.

Nýverið var að tekin var sú ákvörðun að skerða aflaheimildir á þorski niður í 130 þúsund tonn á því fiskveiðiári sem nú er nýhafið. Skerðing um 30% frá því sem áður var. Sjávarbyggðir landsins og mörg fyrirtæki í sjávarútvegi eru sannarlega ekki öfundsverð af hlutskipti sínu um þessar mundir. Mörg hver hafa tilkynnt fjöldauppsagnir og önnur tilkynnt að þau muni hætta störfum.

Þótt ástandið sé e.t.v. málað dekkra en það kann að vera (t.d. á enn eftir að koma í ljós hversu stór hluti af fjöldauppsögnum er staðfestur að loknum uppsagnarfresti), þá er ástæða til að sýna byggðum, sem eiga sitt undir sjávarútveginum, mikinn skilning og samúð. Þeir sem búa á höfuðborgarsvæðinu, og upplifa lítið annað en uppgang, byggingarkrana og bílaumferð (og láta það fara í pirrurnar á sér) geta sennilega illa sett sig í spor þeirra sem sitja álengdar og fylgjast með framþróunni á hliðarlínunni.

Mörgum svíður það verulega sárt að sjá enn ekkert nema svartnætti framundan í sinni heimabyggð eða ætthögum. Enda eðlilegt. Sennilega vilja flestir sínum heimahögun allt það besta, enda í mannanna eðli að bindast tryggð við ákveðna staði. Það er því eðlilegt að allt sé reynt til að verja afkomu þeirra og allra leiða leitað til að stemma stigu við þróun sem kippir stoðunum undan lífsafkomu á einn eða annan hátt.

En það er hins vegar rangt að beita öllum úrræðum í þeirri viðleitni. Þvi miður eru þeir margir sem falla í þá gryfju að kenna kvótakerfinu um það sem halloka fer. Enn aðrir falla í þá gryfju að krefjast opinberrar atvinnumiðstýringar eða hvers kyns fjárausturs úr sjóðum skattborgaranna í gagnslítil gæluverkefni.

Hverjum skyni gæddum manni hlýtur að vera ljóst hversu mikilvægt kvótakerfið er íslenskum efnahag og íslenskum sjávarútvegi. Fyrir utan það að vera eitt mikilverðasta framlag Íslendinga til sjálfbærrar þróunar á heimsvísu í umhverfislegum skilningi, leiddi það íslenskan sjávarútveg úr ógöngum óhagræðingar og viðvarandi tapreksturs. Í hagrænum skilningi varð atvinnuvegurinn einnig sjálfbær.

Það er því nánast ómögulegt að skilja hvernig nokkrum manni dettur í hug að hverfa frá kvótakerfinu, jafnvel þótt taka þurfi tillit til þeirra aðstæðna sem að baki liggja. Það eru hins vegar ríkar ástæður til að kanna ofan í kjölinn tilgátur um ofveiðar á helstu ætistegundum þorksins, sem virðast vel rökstuddar af þeim sem sjóinn stunda.

Það er jafnframt ómögulegt að sjá nokkra skynsemi þess að beita mótvægisaðgerðum á borð við þær sem ríkisstjórnin hefur þegar tilkynnt. Fyrir utan það að vera gróf misbeiting á skattfé þá eru flestar þeirra þess eðlis að þær gagnast fyrirtækjum í fiskvinnslu lítið. Framlög til vegagerðar eru t.a.m. háðar ýmis ytri aðstæðum á borð við hönnunar-, mats- og útboðsferli og koma seint til framkvæmda. Hvernig gagnast það kvótasamdrætti sem kemur til framkvæmda um þessar mundir?

Framlög til menntunar að hvaða tagi sem er eru einnig ólíkleg til að skila árangri. Og í raun má sennilega færa ágæt rök fyrir því að aukin menntun fólks á landsbyggðinni hafi öfug áhrif á byggðaþróunina en lagt var upp með. Byggðaþróunin síðustu hundrað árin eða svo eru einmitt bein afleiðing – meðal annars – aukinnar menntunar þjóðarinnar, með þeim afleiðingum að störf urðu sérhæfðari og sífellt fleiri fyrirtæki urðu háð aðgangi að nægu sérmenntuðu vinnuafli á stórum þéttbýlissvæðum. Mun aukin menntun fólks á landsbyggðinni ekki einfaldlega auka á þann hvata að leita sér betra lífs með hærri launum, auknu atvinnuöryggi og almennum lífsgæðum í þéttbýlinu?

Síðan er það stóra spurningin, sem enn er ósvarað. Mun aukinn kvóti og aflaheimildir endilega tákna betri hag fyrir byggðir landsins? Þótt iðngreinin kunni að eflast á nýjan leik þá er það engin trygging fyrir því bættum hag allra byggða sem eiga sitt undir sjávarútveg. Það er fátt sem bendir til annars en að krafa um arðsemi og fjarveru ríkisafskipta verði áfram haldið á lofti, nema svo ólíklega vilji til að róttæk vinstri- og afturhaldsöfl taki við stjórn landsins. Greinin mun því tæplega dreifa kröftum sínum á margar smáar byggðir á nýjan leik.

Tillögur atvinnuleysistryggingasjóðs um flutningsstyrki eru ekki þær vitlausustu sem hægt er að grípa til. Þær miða alltént að því að hvetja vinnuaflið að leita sér atvinnu þar sem atvinnu er að finna og draga úr þeim fjárhagslegu átthagafjötrum sem flutningskostnaður og hátt íbúðaverð skapa. Þær upphæðir sem sjóðurinn leggur til hrökkva þó skammt og erfitt er að sjá hvernig unnt er að útfæra slíka styrkveitingar í raunveruleikanum. Í hvaða tilfellum á að veita styrkinn og hvernig má komast hjá misnotkun?

Það er líklega kominn tími til fyrir litla þjóð í stóru landi að átta sig á þeirri staðreynd að menntuð þjóð hlýtur ævinlega að kjósa öryggi fjöldans framyfir áhættu fámennisins. Sífellt sérhæfðari störf sækja einnig í fjöldann og á móti getur fjöldinn skapað lífsgæði á borð við menningu og hvers kyns afþreyingu sem fámennið getur aldrei keppt við. Miðstýrðar byggðaaðgerðir munu augljóslega aldrei aftra því til lengdar. Best er að hverfa frá slíkri viðleitni alfarið.

Það þarf þó ekki að tákna dauða landsbyggðarinnar. En ef hún á að eiga sér framtíð er henni nauðsynlegt að endurskilgreina tilveru sína og byggja á sjálfbærum lausnum frá rótinni, lausnum sem virka til langframa, en ekki miðstýrðum ólausnum út úr pólitískum bjargráðanefndum. En það tekur tíma. Og hugsanlega tæmist hún áður en það gerist. En er það endilega neikvætt?

Latest posts by Samúel T. Pétursson (see all)

Samúel T. Pétursson skrifar

Sammi hóf að skrifa á Deigluna í maí 2005.