Ástandið í Búrma

Undanfarna daga hafa borist fréttir af friðsamlegum mótmælum íbúa Búrma, einnig nefnt Myanmar, gegn herforingjastjórninni þar í landi. Í gær bárust þau tíðindi að herforingjastjórnin hefði farið með vopnum gegn mótmælendum og talið er að fjöldi mótmælenda hafi fallið, en erfitt hefur reynst að fá fréttir af ástandinu þar sem allt netsamband hefur verið rofið við landið og fylgist herforingjastjórnin grant með öllum öðrum samskiptaleiðum.

Búrma er staðsett í Suðaustur Asíu og á landamæri að Indlandi og Bangladesh í vestri og Kína, Tælandi og Laos í austri. Landið fékk sjálfstæði árið 1948, en árið 1962 náði núverandi herforingjastjórn völdum og hefur allur mótþrói í landinu verið bældur niður þrátt fyrir fordæmingu alþjóðasamfélagsins. Yfirmenn hersins hafa verið sakaðir um barnaþrælkun, mansal, eiturlyfjasölu og sí endurtekin mannréttindabrot gagnvart íbúum landsins, ásamt því að þjóðnýta fyrirtækin. Ljóst er að mikil spilling viðgengst í landinu og hefur gert í mörg ár.

Árið 1988 var uppreisn íbúa og fjöldamótmæli brotin á bak aftur og það er ekki fyrr en nú árið 2007 í Rangoon stærstu borg landsins, sem að fólkið í landinu treysti sér til að mótmæla þeirri ógnarstjórn sem það býr við. Í lok níunda áratugarins var nafni landsins breytt úr Búrma í Myanmar af hernaðaryfirvöldum, þrátt fyrir að breytingin hafi ekki verið samþykkt af löggjafarsamkvundunni í landinu.

Stjórnmálaflokkurinn National League for Democracy undir forystu friðar nóbelverðlaunahafans, Aung San Suu Kyi, vann stórsigur í fyrstu fjölflokka kosningum í þrjátíu ár, árið 1990, en hún hefur aldrei komist valda og hefur herforingjastjórnin fylgst vandlega með henni alla tíð síðan og situr hún nú í stofufangelsi.

Í dag búa um 50 milljónir íbúa í landinu, en fæstir þeirra hafa aðgengi að fjarskiptatækni sem flestir Vesturlandabúar líta á sem sjálfsagðan hlut. Þar í landi eru einungis 2 sjónvarpsstöðvar, 3 útvarpsstöðvar, 31 þús. netnotendur og 180 þús. farsímanotendur.

Kína og Rússland hafa tekið sér stöðu við hlið herforingjastjórnarinnar, en löndin tvö beittu neitunarvaldi sínu í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna þar sem lagt var til að stjórnvöld í Búrma hættu ofsóknum á hendur mótmælendahópa. Það er átakanlegt að fylgjast með lýsingum af ástandinu í Búrma í fréttum, en vonandi að þessar tvær þjóðir sjái að sér og viðurkenni tilvist þess ástand sem ríkt hefur í landinu í rúm 40 ár svo að alþjóðasamfélagið geti tekið höndum saman og unnið að því að bæta ástandið í landinu.

Latest posts by Erla Ósk Ásgeirsdóttir (see all)

Erla Ósk Ásgeirsdóttir skrifar

Erla hóf að skrifa á Deigluna í júlí 2003.