Vont og það versnar segja þeir

Er líklegt að hópur hryðjuverkamanna muni komast yfir kjarnorkuvopn? Kannski. Mun slíkur hópur geta fjármagnað kaupin? Mögulega. Er hugsanlegt að hryðjuverkamenn muni nota slíkt vopn og sprengja t.d. í London? Trúlega. Niðurstaðan er einföld. Hætta er á að hryðjuverkamenn sprengi kjarnorkusprengju í London og bregðast þarf við slíkri ógn með öllum tiltækum ráðum – Svona bull röksemdarfærsla er hin raunverulega ógn sem steðjar að frjálsum lýðræðisríkjum og mannréttindum borgaranna en ekki einhver arabi sem sprettur uppúr ímynduðum töfralampa.

Er líklegt að hópur hryðjuverkamanna muni komast yfir kjarnorkuvopn? Kannski. Mun slíkur hópur geta fjármagnað kaupin? Mögulega. Er hugsanlegt að hryðjuverkamenn muni nota slíkt vopn og sprengja t.d. í London? Trúlega. Niðurstaðan er einföld. Hætta er á að hryðjuverkamenn sprengi kjarnorkusprengju í London og bregðast þarf við slíkri ógn með öllum tiltækum ráðum – Svona bull röksemdarfærsla er hin raunverulega ógn sem steðjar að frjálsum lýðræðisríkjum og mannréttindum borgaranna en ekki einhver arabi sem sprettur uppúr ímynduðum töfralampa.

Völd stjórnmálamanna í vestrænum lýðræðisríkjum eru því miður mikil. Þau hafa aukist jafn og þétt og í samræmi við vaxandi ótta við hryðjuverk hvers konar. Stjórnmálaleiðtogar í Evrópu og Bandaríkjunum hafa fundið aftur leið til að auka völd sín og halda þeim. Aðferðin er gamalkunnur hræðsluáróður þar sem mætti martraða er beitt af hörku. Sá löggæslumaður eða greiningaraðili sem ímyndar sér mestu hugsanlegu hættu sem gæti steðjað að almenningi verður fljótt sá áhrifamesti innan stjórnkerfisins. Það er í hag stjórnmálamannsins að sem dekksta mynd sé dregin upp því þá verður auðveldara að réttlæta aukin völd hins opinbera til að vernda lýðinn.

Engu virðist skipta hvort raunveruleg og haldbær gögn eru til staðar til að styðja grun um einhverja ímyndaða ógn. Svarið við því er á þá leið að ekki sé tími til að afla gagna og sannanna því þá er hætta á að of seint sé brugðist við. Preemptive measures eða fyrirbyggjandi aðgerðir er þannig orðið nýjasta tískuorðtak stjórnmálamannsins. Sambærilega aðferðarfræði er jafnframt að finna í alþjóðlegum umhverfisrétti þar sem varúðarreglan, precautionary principle, hefur ruðst sér til rúms. Inntaki hennar má útlista þannig að bregðast verður við mestri hugsanlegri hættu strax því annars getur eitthvað hræðilegt gerst einhvern tíman án þess að nokkur haldbær rök styðji það nánar eða útskýri.

Nú er svo komið að farið er að slaka á ýmsum grundvallarreglum réttarríkisins og borgarlegum réttindum í Evrópu og Bandaríkjum, allt í því skyni til að tryggja fyrirfram öryggi almennings gegn mögulegum hættum. Friðhelgi einkalífsins stendur höllum fæti innan um allar eftirlitsmyndavélarnar og eftirlit óeinkennisklæddra lögreglumanna. Athafnafrelsi borgaranna hefur verið skert með ýmsum takmörkunum, svo sem í ferðalögum milli landa. Ritskoðun á sér stað og „svartir listar“ til yfir þá sem haga sér einkennilega eða tjá ranga skoðun. Frelsið er skert til vernda það eins og það var áður en það var skert.

Auknar valdheimildir lögreglu vega að hornsteini réttarríkisins sem er að saklaus er sá uns sekt hans er sönnuð fyrir opnum og óvilhöllum dómstóli – ekki rökstuddum eða órökstuddum gruni lögreglu. Einstaklingur á nú hættu á að vera stöðvaður, á honum leitað, hann yfirheyrður eða jafnvel handtekinn finnist lögreglunni hann eitthvað óvenjulegur. Það sem er verra er að stjórnvöld á vesturlöndum telja í auknara mæli réttlætanlegt að beita harðneskjulegri meðferð við yfirheyrslu grunaðra aðila og jafnvel pyntingum. Rökin eru þau að réttlætanlegt sé að pynta mann ef hann býr yfir upplýsingum um hvar tifandi sprengju er að finna. Tilgangurinn helgar meðalið ef hægt er að bjarga þannig fullt af mannslífum.

Þetta er rangt. Það er aldrei réttlætanlegt að pynta mann hvað þá sveigja og beygja borgaraleg réttindi til þess eins að ná vonda kallinum eða sigra stríðið, ef stríð skyldi kalla, gegn hryðjuverkum. Sé það gert verður niðurstaðan aldrei neitt betri en ömurlegur pyrrhosarsigur. Eflaust mun það verða auðveldara að uppræta ýmis ráðabrugg og aðgerðir hryðjuverkahópa ef leynilögreglu er heimilt að njósna um alla borgara, setja menn í varðhald án dóms og laga og beita pyntingum til að afla mikilvægra upplýsinga. Ef slíkar aðferðir eru ekki notaðar til að berjast gegn hryðjuverkum er ekki verið að beita öllum mögulegum ráðum.

En að beita ekki öllum mögulegum ráðum er einmitt eina raunhæfa aðferðin til að berjast gegn hryðjuverkum. Annars er baráttan fyrir lýðræðislegum gildum og frelsi töpuð. Ekki vegna utanaðkomandi afla heldur veikleika innan frá þegar almenningur og stjórnmálamenn gleyma fyrir hverju er barist sökum eigin martraða.

Latest posts by Teitur Björn Einarsson (see all)

Teitur Björn Einarsson skrifar

Teitur hóf að skrifa á Deigluna í febrúar 2006.